23.04.1974
Sameinað þing: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3886 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

322. mál, vegáætlun 1974-1977

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er alveg óhætt að segja, að vegamálin eru nokkuð fyrirferðarmikil á Alþingi núna. Það liggur nú fyrir þinginu samtímis frv. um breyt. á vegalögum og sérstakt frv. um fjáröflun til Vegasjóðs, en það er nýmæli að setja fjáröflun inn í sérstök lög. Svo er hér til umr. þáltill. um endurskoðun á vegáætlun, þ.e.a.s. um endurskoðun tveggja ára, og um að bæta tveimur nýjum árum við. Og alveg nýlega er komin á borðin til þm. skýrsla samgrh. um framkvæmdir í vegagerð 1973. Ég ætla ekki samt sem áður að viðhafa hér neinar almennar umr. um vegamálin og raunar ekki heldur um þá till., sem hér liggur fyrir, og því síður að fara út í almennar stjórnmálaumr., en mig langar til þess að reifa eitt tiltekið atriði í því máli, sem hér liggur fyrir.

Ég vil þá fyrst minna á það, að í 13. gr. frv. um fjáröflunina á þskj. 607 segir svo í 2. málsgr.: „Eftir því sem ákveðið er í fjárlögum ár hvert, skal ríkissjóður gefa út happdrættisskuldabréf í því skyni að afla fjár til hringvegar um landið.“ Ég ræddi þetta atriði nokkuð þegar þetta mál var til umr. í hv. Nd., og lagði síðan fram brtt. um nýja málsgr. á þessa leið: „Kveða skal á um það í vegáætlun á tveggja ára fresti, til hvaða framkvæmda verði varið þeim fjármunum, sem inn koma fyrir sölu skuldabréfa samkv. 2. málsgr. þessarar gr.“ Það lítið sem minnst var á þessa brtt. við 1. umr. málsins, þá var henni ekki illa tekið. Ég held ég muni það rétt, að það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., sem talaði fyrir þessu máli, að hann væri ekki fráhverfur þessari hugmynd. Og brtt. um að ákveða sérstök verkefni er augljóslega í samræmi við vilja þeirra hv. þm., sem fluttu frv. um sérstakt happdrætti vegna tiltekins kafla á hringveginum. Mér finnst því ýmsar líkur benda til þess, að menn gætu orðið ásáttir um þessa brtt. Ef málsgr., sem ég vitnaði til í frv. um fjáröflun til vegagerðar, verður samþykkt og jafnvel bætt við 13. gr. þeirri breytingu, sem ég lagði til að á henni yrði gerð, þá finnst mér ekki vera samræmi á milli þessara ákvæða annars vegar og hins vegar uppsetningarinnar á vegáætluninni, hvorki þar sem ræðir um fjáröflun til veganna né heldur þar sem ræðir um skiptingu útgjaldanna.

Nú er í vegáætlun ákveðið verk, sem tengt er við hringveginn og raunar opnar hann, þ.e.a.s. Skeiðarársandur. Þetta verk er í áætluninni á yfirstandandi ári, eins og hún er í till., sem hér liggur fyrir, og einnig á árinu 1975 að litlum hluta. En þegar kemur til áranna 1976 og 1977, er þarna eyða. Mér heyrist flestir séu ásáttir um að halda áfram fjáröflun með happdrættisfyrirkomulaginu og tengja hana ákveðnum viðfangsefnum á hringveginum. Þá ber ekki að ganga frá vegáætluninni á þennan hátt, heldur ber að gera ráð fyrir þessari sérstöku fjáröflun áfram. Það kann að vera, að það sé ekki tímabært í dag að setja inn, til hvaða verka þessu fé skuli varið á árunum 1976 og 1977, en eigi að síður finnst mér, að þetta eigi að koma inn á þennan hátt, ef mönnum er alvara með það að vilja halda áfram fjáröflun með happdrættissniði og tengja hana alveg ákveðnu verki. — Mér fannst rétt að vekja athygli á þessu sérstaka atríði nú við 1. umr. málsins.

Ég skal, eins og ég sagði áðan, ekki fara út í almennar umr. um þessa till. til vegáætlunar, sem hér liggur fyrir. Ég vil þó, fyrst ég kvaddi mér hljóðs, segja tvær, þrjár setningar í sambandi við þær hugmyndir um frestun framkvæmda á árunum 1974 og 1975, sem felast í till., eins og hún liggur hér fyrir. Ég vil segja það alveg afdráttarlaust, að ég tel, að þennan þátt verði að skoða nánar og sérstaklega í meðferð Alþ. Ég tel, að það sé einkum tvennt, sem beri að hafa í huga: annars vegar það, ef til frestana kemur, hvort frestanirnar skuli ganga jafnt yfir þá framkvæmdaliði, sem ráðgert er að fresta í till., ellegar hvort þar skuli hafa annan hátt á, og hins vegar að athuga nánar um frekari fjáröflun til þess a.m.k. að draga úr þessum frestunaraðgerðum, ef ekki að koma hreinlega í veg fyrir, að til þeirra þurfi að grípa. Það er ekki hægt að neita því, að það er í hæsta máta andhælislegt, að á sama tíma og landsmenn hafa þau fjárráð, að bílainnflutningurinn gengur fyrir sig í stríðum straumum, bílarnir streyma til landsins, þá verði á hinu leytinu að draga úr framkvæmdahraða við uppbyggingu þeirra vega, sem bera eiga þennan bílaflota. Þetta er í hæsta máta andhælislegt. En hér gripa fleiri atriði inn í, og málið þarf auðvitað skoðunar frá mörgum sjónarhornum. Ég get alveg tekið undir það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það þótti alltaf tilvinnandi hér á árunum að auka álögur vegna Vegasjóðsins til þess að auka framkvæmdirnar. Hér er áreiðanlega nokkuð tilvinnandi enn í dag, og menn skulu hafa það í huga, að allar auknar álögur, sem renna til Vegasjóðs, fara auðvitað til þess að auka framkvæmdir frá því, sem ella hefði orðið. Það er alveg ljóst mál. Eðlismunur er því ekki mikill frá því, sem áður var, þó að nú horfi óvænlegar en oft áður, vegna þess alveg sérstaklega, að verðhækkanir hafa orðið gífurlegar á þeirri vöru, bensíninu, sem ber uppi megintekjuöflun til Vegasjóðs, og þess vegna og þegar af þeim ástæðum er erfitt að ná hærri tekjum til sjóðsins með álagningu á þann vöruflokk.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég á sæti í þeim n., sem fjalla um þessi mál, og er þess vegna ástæðulaust, að ég sé að fjölyrða um þau við 1. umr.