23.04.1974
Sameinað þing: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3888 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

322. mál, vegáætlun 1974-1977

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessi þáltill. til vegáætlunar fyrir árið 1974 til ársins 1977 ber það með sér eins og annað, sem hefur komið nú síðustu mánuði frá hæstv. ríkisstj., að þrátt fyrir að tölurnar hækki mikið í krónum talið, þá sígur það þó ævinlega á hinn veginn, sem er að baki hverrar upphæðar. Ef almennt er litið á ástandið í þessum efnum, blasir það þannig við, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hafa aldrei verið fluttir inn fleiri bílar en einmitt nú síðustu vikurnar, sem hæstv, ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hafa varið til þess að skera niður það fjármagn eða það framkvæmdamagn, sem lofað hafði verið til vegagerðarinnar í landinu. Þetta kemur fram í öllum flokkum vega, bæði í sambandi við hraðbrautir og aðra vegagerð.

Einkum er það þó svo í þessari vegáætlun, að skorið er niður í strjálbýlinu. Þar er niðurskurðurinn meiri en á öðrum liðum, eins og best sést á töflu, sem fylgir þáltill., en þar kemur fram, að það fjármagn, sem fresta á til ársins 1975, nemur 41.7% af kostnaði samkv. vegáætlun. En ef við tökum þjóðbrautir, er sambærileg tala 43.95%, ef við tökum Norðurlandsáætlun 43.31%. Nákvæmlega það sama kemur fram á því, sem frestað er til ársins 1976. Þar er frestunin einnig minni hlutfallslega á því fjármagni, sem verja á til hraðbrautanna. Skýtur þetta nokkuð skökku við, einkum ef rifjuð eru upp hin mörgu stóru orð, sem þeir menn, sem standa að núv. ríkisstj., höfðu sem mest uppi síðustu ár síðustu ríkisstjórnar. Minnist ég í því sambandi einkum og sérstaklega ummæla hv. 3. þm. Norðurl. e., sem því miður er ekki staddur nú í þessu húsi. Það voru ófáar ræðurnar, sem þessi hv. þm. hélt bæði hér á hinu háa Alþ. og eins víða um héruð Norðurlands um það, að hann persónulega einkum og sér í lagi væri andvígur allri hraðbrautargerð. Mun dýpra tók þó í árina hv. 1. þm. Norðurl. e. í framboðsræðum sínum fyrir síðustu alþingiskosningar, þegar hann lýsti því yfir í ríkisútvarpinu, að hraðbrautirnar væru andstæðar stefnu Framsfl. Það kom fram hjá þessum þm. þá, að það væri stefna Framsfl. að berjast á móti hraðbrautum. Allt átti það að vera „íhaldinu“ að kenna, og því var lofað, að um leið og þessi mikli byggðaflokkur, Framsfl., kæmist til valda, skyldi ekki verða langt í það, að byggðir yrðu upp vegir í Eyjafjarðarsýslu, í Suður-Þingeyjarsýslu og í Norður-Þingeyjarsýslu. Eftirtektarverðar og minnisstæðar urðu mönnum í því sambandi langar kvörtunarræður þessara ágætu frambjóðenda, þegar þeir komust svo að orði, að þeir hefðu orðið að aka í skurðunum til þess að komast leiðar sinnar, þar sem vegirnir væru ófærir.

Hvernig hefur svo framkvæmdin orðið? Hún hefur í fyrsta lagi orðið þannig, eins og kemur fram í þessari vegáætlun, að þegar skorið er niður allt fármagn til vegagerðar, — hér er talað um, að framkvæmdamagnið muni minnka um 43%, — þá er þó niðurskurðurinn alls staðar minni á hraðbrautaframkvæmdum, meira skorið niður á hinu, sem úti í strjálbýlinu er. Þarna er því um mjög eftirtektarverða stefnubreytingu að ræða og athyglisverða.

Annað er það líka, sem er einkar athyglisvert við þessa vegáætlun, og það er það, að niðurskurðinum er hagað með þeim bætti, að þær framkvæmdir, sem frestað var á síðasta ári, eru líka skornar niður um þetta sama hlutfall, 43 komma eitthvað %. Það er ekki aðeins, að viðbótarframlagið sé skorið niður, heldur er einnig skorin niður sú fjárhæð, sem veitt hafði verið á s.l. ári. Þetta er augljóst, ef litið er á tölurnar, og sýnir það með öðru, hvernig haldið hefur verið á hnífnum og hversu þungt þetta bitnar á þeim byggðarlögum, sem þyngst hafa orðið úti í þessu efni.

Í þriðja lagi er það athyglisvert og bitnar einkum á okkur Norðlendingum, hvernig staðið hefur verið að framkvæmd Norðurlandsáætlunar. Það er öllum kunnugt, sem eitthvað þekkja til á Norðurlandi, að eftir það, hvernig fyrrv. ríkisstj. hafði staðið að framkvæmdum Austurlandsáætlunar í vegamálum og hvernig fyrrv. ríkisstj. hafði staðið að samgönguáætlun Vestfjarða, þá gerðu menn sér miklar vonir um það, þegar því var lýst yfir af fyrrv. fjmrh. Magnúsi Jónssyni, að ákveðið hefði verið að gera sérstaka samgönguáætlun fyrir Norðurland, að þessi ákvörðun mundi leiða til þess, að skjótlega mundi horfa til hins betra um allar samgöngur í vegamálum norðanlands. Þetta byggðist m.a. á því, að Norðlendingar vissu ekki betur en þannig hefði áður verið haldið á málum, að menn settu sér eitthvert takmark til að stefna að í upphafi áætlunarinnar. Menn ákváðu að ljúka einhverjum ákveðnum framkvæmdum á tilteknum tíma, og þannig hefði að sjálfsögðu átt að standa að þessari Norðurlandsáætlun. En það var ekki gert, heldur var unnið að áætluninni frá ári til árs, og nú sjáum við, hvernig staðið hefur verið að þessum vinnubrögðum, hvernig grunnurinn hefur verið, sem þessari hæstv. ríkisstj. áætlanagerða og fyrirhyggju hefur tekist að hrófla upp. Á þessu ári er sem sé gert ráð fyrir því, að nákvæmlega sömu krónutölu sé varið til uppbyggingar vega á Norðurlandi og var á s.l. ári. Þetta þýðir í raun, að framkvæmdamagnið mun verða helmingi minna en ákveðið hafði verið .

Samkv. þessari vegáætlun nemur Norðurlandsáætlunin í vegamálum 184.3 millj. kr., en kostnaðurinn samkv. vegáætlun er 325.1 millj. Þarna er samkv. þessum töflum niðurskurður, sem nemur 43.31%. En með þessu er ekki öll sagan sögð. Við vitum, hvernig verðbólgan er í þjóðfélaginu. Við vitum, að enn ein holskeflan mun ríða yfir 1. júní, sem enn mun, ef ekkert verður að gert, rýra ekki lítið framkvæmdamagn þessara upphæða, sem þarna eru skrifaðar. Það hefur verið þannig, að ég ætla, að kostnaður við vegagerð hefur aukist að mig minnir um 30% eða eitthvað þar um bil frá áramótum til 1. mars, þessa fyrstu tvo mánuði ársins, og það sýnir, á hverju maður má eiga von, eins og komið er. Við gátum huggað okkur við það á tímabilinu frá 28. febr. 1973 til 28. febr. 1974, að verðbólgan á þessu tímabili hafi þó ekki numið nema 32%, en nú blasir það við, að verðbólgan fyrstu 3 mánuðina, sem síðan eru liðnir, mun ekki verða minni en 18–20%, og hjólið mun halda áfram að snúast með æ meiri hraða. Þess verður líka vart, að þm. Norðurl. munu eiga í miklum erfiðleikum með að skipta þessum nú verðlitlu krónum, til þess að þær geti komið á þá staði norðanlands, sem óhjákvæmilegt er að leggja verulegt fjármagn til og í mörgum tilfellum hafði beinlínis verið lofað fyrirgreiðslu á þessum árum, sem í hönd fara.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því, að það er örðugt, eins og nú er komið, að afla meira fjár til vegagerðar hér á landi. En hver er ástæðan til þess? Ástæðan til þess er sú, að hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur haldið þannig á fjármálum þjóðarinnar, að það er svo að segja sama, um hvaða sjóð talað er, hvarvetna blasir við gjaldþrot upp á hundruð millj. eða jafnvel milljarða. Við getum tekið einn sjóðinn á fætur öðrum. Nú erum við að fjalla um Vegasjóð. Við vitum, hvernig komið er fyrir Fiskveiðasjóði. Enn bólar ekki á því, að bændur fái svar við lánsumsóknum sínum í Stofnlánadeild. Við sjáum, hvernig Iðnlánasjóðurinn er, og þar fram eftir götunum. Á sama tíma og þannig er komið fyrir fjárhagsstöðu Íslendinga og á sama tíma og svo illa er staðið að því að fjármagna þá sjóði, sem gefið hafði verið fyrirheit um og ríkisstj. hafði á þann hátt skuldbundið sig til þess að tryggja, að hefðu nægilegt fjármagn, þá er loddaraskapurinn og leikaraskapurinn í sumum hv. þm. þessa stjórnarmeirihl. svo mikill, að þeir eru að leggja til, að stofnaðir verði enn nýir sjóðir til þess að fjármagna enn aðra hluti. Það eru að vísu hugmyndir, sem eru góðra gjalda verðar, og ég efast ekki um, að önnur ríkisstj., sem betur heldur á spilunum og hefur meiri forsjálni til þess að sjá fram úr þeim, muni koma því í verk.

Ég vil, vegna þess að ég minnist þess, að fyrir síðustu kosningar voru hv. þm. Framsfl. og þó einkum hv. 3. þm. Norðurl. e. mjög margorðir um það, hversu illa hafi verið staðið að vegagerð bæði á Svalbarðsströnd og í Eyjafjarðarsýslu, rifja aðeins upp, hvernig efndirnar hafa verið nú, hvernig staðið hefur verið að verki nú ag hvað gert hefur verið.

Í skýrslu samgrh. um framkvæmd vegáætlunar 1973 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Syðst á Svalbarðsströnd,“ — þetta er um hraðbrautir: „Fjárveiting var 11.9 millj. kr. Hafin var lítillega undirbygging á rúml. 1 km kafla af Grenivíkurvegi frá Geldingsá að Hallandsnesi. Slæmt tíðarfar s.l. haust hamlaði frekari framkvæmdum.“

Og á öðrum stað segir í þessari ágætu skýrslu, og þar er fjallað um landsbrautir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á Svalbarðsströnd: Fjárveiting var 8 millj. kr. Sett voru nokkur ræsi í veginn, en framkvæmdum var að mestu frestað vegna tíðarfars.“

Þannig hefur nú verið staðið að verki á þessum vegarkafla, sem þeim, sem nú halda um stjórnvölinn, varð tíðræddast um á sínum tíma, að illa hefði verið staðið að. Nú er það einnig svo, að þessi vegur, sem þarna liggur, það er nú síður en svo, að hann sé þýðingarlaus eða hafi lítið að segja fyrir heildarsamgöngur í kjördæminu, þar sem þarna liggur að vetrarlagi aðalvegurinn austur um og þar sem nauðsynlegt er að halda uppi öruggum og tryggum framkvæmdum vegna Grenivíkur, en þar er nú vaxandi útgerðarstöð, þar sem nauðsynlegt er, að tryggar framkvæmdir séu.

Í sambandi við vegi Eyjafjarðarsýslu hefur það verið einkum áberandi, að þeir vegir hafa verið látnir drabbast niður nú og lítið verið gert og ekki staðið við það fjármagn, sem til þeirra hefur verið veitt. Af þeim sökum hefur okkur þm. Norðurl. e. borist bréf frá veganefnd Eyjafjarðarsýslu, þar sem segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

N. bendir á, að á undanförnum árum er áberandi, hve mikið er um, að framkvæmdum, sem átt hefur að vinna að í Eyjafirði, hefur verið frestað og í öllum tilfellum til verulegs tjóns fyrir byggðarlagið. Skulu fá dæmi nefnd:

1. Á árinu 1972 var 5.1 millj. kr. framlag til Eyjafjarðarbrautar eystri, og átti verkið að framkvæmast þá. Verkið var látið sitja á hakanum fram á vetur, en þá var kunngert, að ekki hefði verið unnt að framkvæma það vegna slæmra veðra í þessum hreppi. Verkið var síðan unnið á árinu 1973, eftir að fjárveitingin hafði verið skorin niður og rýrð vegna verðbólgu.

2. Á árinu 1973 átti að vinna fyrir 3.5 millj. við hraðhraut við Lónsbrú, framkvæmdir sáust engar og engin skýring gefin á.

3. Samkv. áætlunum átti að vinna fyrir 11.9 millj. kr. á Svalbarðsströnd og Víkurskarðsleið. Sveitarstjórnarmenn kannast ekki við það að hafa séð framkvæmdir af hálfu Vegagerðar ríkisins, sem svari til þessara fjárframlaga.

4. Norðurlandsáætlun 1972.“ — Þar er rakið, hvernig framkvæmdir voru skornar niður miklu meira í Eyjafjarðarbyggð heldur en annars staðar, þar sem áætlunin náði til, eins og nú skal greint, með leyfi hæstv. forseta: „Strandabyggð: áætlun 13.5 millj., framkvæmd 12.3 millj. Húnabyggð: áætlun 28.2 millj., framkvæmd 27.8 millj. Skagafjarðarbyggð: áætlun 8 millj., framkvæmd 6.7 millj. Eyjafjarðarbyggð: áætlun 18.3 millj., framkvæmd 9.4 millj. Skjálfandabyggð: áætlun 18 millj., framkvæmd 22 millj. Norðausturbyggðir: áætlun 14 millj., framkvæmd 13.7 millj.

5. Á árinu 1973 átti samkv. Norðurlandsáætlun að vinna að vegaframkvæmdum fyrir 31.2 millj. plús væntanlega ónotað framlag 1972 á Víkurskarðsleið. Væntanlega upplýsir Vegagerðin, fyrir hve mikið fé var unnið, en fullyrða má, að ekki var unnið fyrir veittum fjárveitingum.“

Svo kemur það, eins og ég sagði áðan, svo er safnað saman þessu, sem svikist hefur verið að vinna fyrir, og það fjármagn síðan að vísu fært upp sem nemur verðbólgunni, en hins vegar er fjármagnið skorið niður um 43%, eins og nýtt fjármagn, sem veitt er í fyrsta skipti á árinu 1974. Þannig er að því staðið.

Það mun því koma í ljós, að við erum ekki búnir að bíta úr nálinni með það enn, hvernig staðið hefur verið að framkvæmd vegamálanna nyrðra. En það er ekki nóg með það, að hv. stjórnarþm., sem kjörnir voru á þing fyrir Norðurland, hafi látið sitja við það að koma fram með þessum hætti og halda þannig á spilunum í vegamálunum, að til hreinna vandræða horfir.

Þetta bitnar ekki eingöngu á Eyfirðingum. Við skulum hugleiða aðeins t.d. stöðu Norður-Þingeyinga. Alþingi hefur séð ástæðu til þess að gera sérstaka ályktun um það, að þannig sé komið í N-Þingeyjarsýslu, að ástæða sé til þess að gera sérstaka landshlutaáætlun. Ekki hefur neitt borið á því í sambandi við atvinnulífið og í sambandi við slíka atvinnulega uppbyggingu, að sú ríkisstj., sem nú situr, og sá stjórnarmeirihl., sem á bak við hana er, ætli sér að veita nokkurt fjármagn til þessarar áætlunar af þeim sökum, þótt einn af hv. þm. Framsfl. hafi haft geð í sér til þess að vera að flytja fsp. um málið og ætlað með þeim hætti að reyna að slá sér upp og reyna að fela aumingjadóminn, sem hefur verið í þessu máli, enda augljóst, að þeir menn, sem áttu að standa á verði fyrir Norðlendinga í þessum málum og höfðu aðstöðu til þess, af því að þeir voru í stjórnarmeirihlutanum, hafa algjörlega sofið á verðinum.

En það er ekki nóg með það, að algjörlega sé sofið á verðinum gagnvart þessu byggðarlagi í sambandi við atvinnumálin, heldur sér maður það nú, að á sama tíma og uppi er ráðabrugg um að hafa á hendi sérstaka fjáröflun vegna Inn-Djúpsins og á sama tíma og ekki er skorið niður um eina einustu krónu í sambandi við hringveginn, þá má þetta afskekktasta byggðarlag landsins búa áfram við sama samgönguleysið að öðru leyti en þessu litla smáræði, sem hægt er að beina til þess í sambandi við vegáætlun fyrir árin 1974–1977. Að sjálfsögðu er ástæðan fyrir því, að m.a. hefur komið til tals að gera sérstaka landbúnaðaráætlun fyrir þetta hérað, sú, að það er í mikilli samgöngulegri einangrun. Ef við ætlum að reyna að tryggja byggðir N.Þingeyjarsýslu, áður en það verður of seint, verðum við að byrja á því að gera átak til þess að bæta þar samgöngurnar verulega, bæta fjallvegina og tryggja, að menn komist þar á milli byggðarlaga, m.a. með því að vinda bráðan bug að því, að fjármagn, sem kemur að gagni, verði lagt til Melrakkasléttu, svo að eitthvað sé nefnt.

Svo er verið að tala hér um það, — og ég fagna því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það, — að það væri nauðsynlegt að hugleiða, hvort það ætti að vera áframhald á happdrættisvegafénu. Við höfum lifað það núna, að það er búið að selja hér happdrætti til þess að leggja hringveginn austur á land. Það liggur fyrir hv. Nd. og var fyrsta frv., sem kom fram, að knýja á það, að næsti áfangi, sem tekinn yrði, yrði vegurinn frá Reykjavík til Akureyrar, því að sjálfsögðu er það nauðsynlegt til þess að reyna að tryggja byggðaþróunina og iðnþróun fyrir norðan að koma á almennilegu vegasambandi þarna á milli. En þeir taka þátt í því með glöðu geði, þeir hv. þm. Norðurl., sem fylgja stjórnarliðinu og eru í hinni háu Nd., að svæfa þetta frv. Það kemur ekki fram áhugi hjá þeim á þessu máli, sem hefði þó orðið alveg ómetanlegt fyrir Norðurland allt, að fá tryggan og varanlegan veg á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar, sem hlýtur að verða næsta stórátak, sem gert verður í samgöngumálum, og fyllilega sambærilegt við átakið, sem gert var til að brúa sandana undir Vatnajökli, — í raun og veru eina vegaframkvæmdin, sem er sambærileg og að mikilvægi miklu þýðingarmeiri. Enginn vafi er á því, að margur yrði til þess að tryggja slíka framkvæmd með sínu sparifé. En um þetta má ekki tala. Þannig er nú staðið að, að jafnvel sumir þm. Norðurl. geta hugsað sér að láta veg við Ísafjarðardjúp sitja þarna fyrir, sem er náttúrlega á allan hátt miklu þýðingarminna verkefni, enda kom sú hugmynd upp síðar en þessi vegur. Má raunar tala langt mál um það, hversu bagalegt það hefur verið Norðurlandi að standa ekki betur í vegasambandi við Suðurland en raun ber vitni. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að það hefur komið fram áhugi um það hjá heimamönnum fyrir norðan, að það verði ráðist í þessa framkvæmd. En það eina, sem þeir geta hugsað sér, að við fáum að sunnan, þeir menn, sem nú ráða, það er ótímabær lína, sem mun gefa bæði dýrt og stopult rafmagn og tefja fyrir heilbrigðri uppbyggingu orkuveitna á Norðurlandi.

Herra forseti. Ég hef nú talað um þetta mál öllu lengra mál en ég hafði ætlað mér í upphafi, og má segja kannske, að manni sé vorkunn að eiga nú að takast á hendur það erfiða verkefni að skipta því, sem ekki er til skiptanna. Ég viðurkenni, að ástæðan fyrir því, að þm. verða að taka að sér þetta verkefni, er sú, að það er búið að koma öllum fjármálum ríkisins og raunar þjóðarinnar í heild í algjört öngþveiti. Sú er ástæðan fyrir því, að ekki er myndarlegar að þessu staðið en raun ber vitni. Og nú er svo komið fyrir þeirri hæstv. ríkisstj., sem leggur þetta fram, að hún er sjálf búin að missa lífslöngunina. Við henni blasir ekki annað nú en að taka við því óumflýjanlega, sem alltaf kemur bráðlega að þeim, sem feigir eru. Ef á að bæta eitthvað um það plagg, sem hér er, þá verður það að gerast, — því miður getur það ekki gerst að neinu marki á þessu ári, en það gæti kannske farið svo, að við tækju menn, sem öðruvísi héldu á málum. Þá er það von okkar, að næst þegar þessi vegáætlun kemur til endurskoðunar, verði hægt að auka framkvæmdamagn hennar verulega, þannig að það sé a.m.k. í fyrirsjáanlegri framtíð hægt að búast við því, að það séu sæmilega öruggir og tryggir vegir í miðjum héruðum, sem er miklu meira en hægt er að segja núna, og sums staðar næsta undarlegt, hvernig þolað hefur verið, hvernig að hefur verið staðið.