24.04.1974
Efri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3904 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

61. mál, tannlækningar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá breyt., sem n. gerði, að landlæknir yrði form. 3 manna n., er ákvarðaði um sérfræðingsréttindi, þá kom fram sá ótti, að landlæknir kynni ekki að geta mætt þarna vegna anna og þá væri tilviljunum háð, hvern hann skipaði í sinn stað. N. var, held ég, einróma í því áliti, að landlæknir gæti ekki skipað mann í sinn stað, ef hann treysti sér ekki til að mæta á fundum. Ég óska eftir, að þetta komi hér fram, vegna þess að þetta er nokkurt viðkvæmnismál. Ef landlæknir mætir ekki, eru það aðeins þeir tveir, sem fara með þessi mál, fulltrúi frá tannlæknadeild og fulltrúi frá Tannlæknafélaginu. En þetta er líka gert vegna þess, að landlæknir er í raun og veru yfirmaður þessarar stéttar. Okkur fannst eðlilegt, að hann yrði form. þessarar n., og við höfum ekki trú á öðru en að hann geti á samviskusaman og hlutlausan hátt gegnt sínu starfi þarna.

Ég vil aðeins benda á þetta, að við vorum sammála um, að hann gæti ekki kallað mann inn í sinn stað.