06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

362. mál, bygging læknisbústaðar á Hólmavík

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans, sem voru skýr, eins langt og þau náðu. Ég held þó, að sagan sé ekki þar með öll sögð í raun og veru.

Hæstv. ráðh. vísaði iðulega til framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins. Er þar átt við deild, sem sett var upp samkv. l. um skipan opinberra framkvæmda frá 30. apríl 1970. Samkv. þeim l. eru sett mjög ströng ákvæði um allan undirbúning og framkvæmd opinberra framkvæmda. Þar eru sett í 4 framgangsliði, þ. e. a. s. frumathugun, áætlanagerð, verklegar framkvæmdir og skilamat.

Hér vinnst ekki tími til að rekja þann framgangsmáta, en í fáum orðum sagt er það þannig, að byggjandi sendir till. sínar til viðkomandi rn., það sendir þær til fjmrn., það til hagsýslunnar, hún til framkvæmdastjóra framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar, og hann tekur þær til sérstakrar samstarfsnefndar. Á allri þessari leið tekst iðulega að finna ýmislegt að, og þá þarf að senda þetta til baka nokkurn veginn sömu leið.

Það er ekki að ástæðulausu, að einn manna í byggingarnefnd læknisbústaðar á Hólmavík sagði við mig nýlega, að hann væri uppgefinn og þyldi ekki meira. Þegar hann kæmist fram hjá einum spaðanum á þessari vindmyllu, þá lenti hann bara á þeim næsta. Mér hefur stundum hugkvæmst, að satt að segja væri algerlega óþarft fyrir okkur alþm. að vera að samþykkja 15% niðurskurð á fjárl. Ég held, að hann hljóti að fást og meira til með slíkum framgangsmáta.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki að áfellast þá embættismenn, sem eiga hlut að máli. Þetta kerfi er svo flókið, að það er ekki á nokkurs manns færi að ráða fram úr því. Og öllum má a. m. k. vera ljóst, að fyrir þá, íbúa dreifbýlisins, sem eiga erfiðar samgöngur til þéttbýlisins og geta ekki setið dag eftir dag á biðstofum í Reykjavík, er þetta algerlega óframkvæmanlegt. Það er ekki síst þessi lærdómur, sem ég held að við eigum að draga af því máli, sem hér er til umr. Staðreyndin er sú, að þetta kerfi virkar eins og drápsklyfjar á allar framkvæmdir í dreifbýlinu, og því verður að fá breytt.

Ég lýsi nokkurri undrun minni yfir því, að það skuli standa á teikningum heimamanna eða frá byggingarnefnd. Þessi síðasta teikning, sem var valin, er frá Húsnæðismálastofnun ríkisins, og eftir því sem ég best veit fylgdu með henni nokkrar teikningar, en hins vegar mun einhvers staðar í kerfinu þess hafa verið krafist, líklega hjá nefndinni, að verkið skyldi boðið út, og þá kom í ljós, að Húsnæðismálastofnunin átti ekki teikningar, til þess að unnt væri að bjóða út þessa byggingu. Og í því hefur verið staðið síðan, að því er ég best veit, að reyna að útvega slík gögn. Hins vegar vekur það athygli mína, að í 13. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg, skal verkinu ráðstafað á grundvelli fasts samningsverðs eða eftir reikningi.“

Í þessu tilfelli hefur aldrei fengist hlustað á það, að þetta verk yrði unnið samkv. reikningi. Þó vita allir menn, að í þessu rúmlega 300 manna þorpi er alveg útilokað að bjóða verkið út. Það er alveg eins hægt að segja mönnum, að á Hólmavík verði enginn læknisbústaður byggður.

Og það veldur enn meiri gremju hlutaðeigandi í þessu máli, að í sumar valdi einn af ríkisbönkunum nákvæmlega þessa sömu teikningu fyrir sinn útibústjóra á Hólmavík. Og það var ekki vika liðin, þegar ágætir fagmenn á staðnum, sem bankinn veit að má treysta, höfðu fengið verkið í sínar hendur og framkvæmdir voru hafnar. Þarna er opinber stofnun, sem ekki þarf að búa undir kerfinu. En læknislaus smástaður úti á landi þarf að þola kerfið og vera læknislaus á meðan.