24.04.1974
Neðri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3910 í B-deild Alþingistíðinda. (3451)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því, sem hér hefur komið fram.

Ég held, að það sé mesti misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni, þegar hann talar um, að hér sé verið að búa til óhemjuflókið endurgreiðslukerfi, og það er mesti misskilningur, að það sé auðvelt að greiða niður verð á olíu til íbúðarhúsnæðis; fyrst ekki er farið í það að taka niðurgreiðslurnar í heild. Það liggur, held ég, fyrir, að olíufélögin telja það mjög miður, ef farið verður út í frekari niðurgreiðslur og sundurliða þetta meira. Ég held einmitt, að það, sem kom fram hjá hv. þm., eins og hann sagði, að nú væri gildandi ferns konar verð á olíu í Vestmannaeyjum, — ég held, að það sé nú ekki á bætandi frekara fyrirkomulagi í þessa átt, þannig að það sé mjög miður, ef farið yrði að gera þetta á þann veg, sem hann heldur fram. Hins vegar skal ég taka fram, eins og ég tók fram við 1. umr., að ég hefði talið æskilegt, hefði verið hægt að fara út í það að taka iðnaðarhúsnæði með og atvinnureksturinn, en þeir fjármunir, sem hér um ræðir, leyfa ekki slíkt. Það hefur sem sagt komið fram frá hendi olíufélaganna, að þau eru andvíg því, að farið verði út í frekari skilgreiningu á niðurgreiðslu í þessa átt.

Þeir embættismenn, sem hafa um þetta fjallað, telja þetta réttlátustu leiðina, eins og mál standa í dag. Ég held því, að það sé ekki um aðra leið að ræða, en þá, sem hér um ræðir. Menn finna auðvitað ýmislegt að henni eins og öðrum leiðum, sem fram hafa komið. En það er mesti misskilningur, að hér sé verið að setja upp flókið endurgreiðslukerfi. Ég held, að það yrði miklu flóknara og erfiðara í framkvæmd og kannske raunar óframkvæmanlegt, þannig að það kæmi þeim að gagni, sem raunverulega er til ætlast, ef yrði farið út í að greiða niður olíu til upphitunar íbúðarhúsnæði. Það yrði miklum mun flóknara og erfiðara í framkvæmd og í raun og veru að verulegu leyti óframkvæmanlegt.