24.04.1974
Neðri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3913 í B-deild Alþingistíðinda. (3455)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að gera tilraun til þess að leiðrétta það, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh., þar sem hann hélt því fram, að ef farið væri inn á niðurgreiðslu olíu, mundi það draga úr áhuga manna á því, að jarðvarmi og raforka yrðu frekar nýtt til upphitunar húsa. Þetta er mjög mikill misskilningur, því að það vill svo til og liggur opinberlega fyrir, að kynding með olíu var fyrir hækkunina þrisvar eða fjórum sinnum dýrari en þar sem um jarðvarma var að ræða, eins og t.d. hér á þéttbýlissvæðinu. Það var þegar áður en þetta mál kom fyrir Alþ., kominn fram mikill áhugi hjá þm. dreifbýlisins sérstaklega um, að gerðar yrðu ráðstafanir til að nýta bæði raforku og jarðvarma til upphitunar íbúðarhúsa, þannig að þetta atriði mundi ekki draga úr áhuga neins þm. eða neins manns úti á landsbyggðinni, þó að það yrði samþykkt að fara inn á beinar niðurgreiðslur í staðinn fyrir styrkjakerfið.