06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

362. mál, bygging læknisbústaðar á Hólmavík

Vilhjálmar Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins koma á framfæri örlítið nánari upplýsingum um meðferð málsins.

Fyrsti fundurinn af þessum 16, þar sem hefur verið fjallað um þetta mál í n., var haldinn í apríl 1971 og sá síðasti í maí 1973, þannig að á 16 fundum í rúm 2 ár hefur verið fjallað um þetta mál í samstarfsnefndinni. Ég vil enn fremur láta það koma fram, að nálægt miðju þessa tímabils var samþ. sú teikning, sem heimamenn börðust fyrir, að tekin yrði gild, og ákveðið að bjóða út verkið samkv. henni. En þegar tilboðin voru nokkru hærri en samstarfsnefndin hugsaði sér, að eðlilegt væri, var leyfi fyrir þeim teikningum afturkallað og óskað eftir nýjum teikningum. Að lokum endaði þetta svo, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, með því, að einum nm. var á fundi í maí 1973 falið að aðstoða byggingarnefndina á Hólmavík. En þá virðist byggingarnefndin og þeir þar heima hafa verið orðnir svo dasaðir, að þeir hafa ekki hreyft legg eða lið síðan.

Ég vil bæta því við hv. þm. til athugunar, af því að verið er að tala um kerfið, að þeir kynni sér eyðublöð, sem gefin hafa verið út hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins varðandi umsóknir um lán vegna leiguíbúða í kaupstöðum. Það eru skýrslur á 9 bls. með mjög mörgum línum og dálkum. Upplýsingar, sem óskað er eftir, eru hinar ótrúlegustu, m. a. um það, hvenær hugsað sé að rífa tiltekin hús! Eru eyðublöð þessi öll hin athyglisverðustu.