24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

180. mál, könnun á olíukaupum

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki fara löngu máli um till. þá, sem hér er til umr. og flutt er af mér ásamt hv. 2. þm. Reykv., Geir Hallgrímssyni, á þskj. 313 og fjallar um, að ríkisstj. verði falið að kanna nú þegar, með hvaða hætti tryggja megi sem best kaup á nægjanlegum olíuafurðum til langs tíma. Gert er ráð fyrir, að sérstaklega verði kannaðir möguleikar á olíukaupum hjá Norðmönnum frá hinum nýfundnu olíulindum í Norðursjó.

Ég geri ráð fyrir því, að við nýtum í vaxandi mæli innlenda orkugjafa til hagsbóta fyrir landsmenn alla með einum eða öðrum hætti, en þó sé okkur ljóst, að seint verður þessum málum svo komið, að við þurfum ekki að kaupa töluvert magn af olíuafurðum til ýmissa nota. Íslendingar hafa um langan tíma keypt flestallar olíutegundir sínar frá Sovétríkjunum og oft gert jafnkeypissamninga þar um. Íslendingar virtust því vel settir, er olíukreppan skall yfir, og ekki háðir takmörkun á framleiðslu eða sölu Arabaríkjanna á olíuafurðum. Síðan olíukreppan skall á hefur í ljós komið, að Sovétríkin hafa ekki getað fullnægt olíusölusamningnum og Íslendingar því orðið að kaupa a.m.k. tvo farma frá Vestur-Evrópu. Þá er og ljóst, að olíusamningarnir við Sovétríkin renna út á næsta ári og óvíst er, hvað við tekur. Í því sambandi er að dómi okkar flm. þessarar till. eðlilegt, að ríkisstj. athugi, hvort og þá með hvaða skilmálum Íslendingar geti fengið keypta olíu frá hinum nýfundnu olíulindum í Norðursjó. Talið er, að Norðmenn muni verða sjálfum sér nógir um olíu á þessu ári, og þegar mun farið að athuga um samninga um sölu á olíu og gasi. Þá er það skoðun flm., að heppilegt sé að dreifa meira áhættunni við olíuinnkaup, jafnframt því sem ekki er vitað, hve mikinn áhuga Sovétríkin hafa á að selja okkur olíuafurðir í jafnríkum mæli og hingað til, auk þess sem mun styttra er að flytja olíuna frá Norðursjónum en frá Rússlandi, og gæti það haft í för með sér nokkurn sparnað og aukið öryggi.

Því má að sjálfsögðu ekki gleyma, að viðskiptin við Sovétríkin eru að mörgu leyti okkur hagstæð, þar sem þau kaupa af okkur ýmsar útflutningsafurðir. Ber að sjálfsögðu við nýja samningagerð að hafa þessi atriði í huga.

Það er skoðun okkar flm., að hér sé um að ræða mjög þýðingarmikið mál, sem núv. Alþ. þurfi að álykta um, og er það von okkar, að hér sé ekki um ágreiningsmál að ræða og allshn., sem við leggjum til að málið fái til athugunar, geti fljótt og vel afgreitt þetta mál og þá jákvætt.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.