24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3929 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

123. mál, nýting raforku til húshitunar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. um þetta mál eftir þá ítarlegu framsöguræðu, sem hér var flutt af hendi frsm. fjvn. Ég þakka n. fyrir að afgreiða málið frá sér. Þó að við hefðum sjálfsagt frekar kosið að fá það samþ., þá er eðlilegt undir þeim kringumstæðum, sem nú ríkja um orkumálin almennt, að þessu máli sé vísað til ríkisstj.

Síðan þessi till. var flutt hér snemma í haust, hafa orkumálin mjög verið hér á dagskrá, og stjórnvöld virðast hafa gert sér fulla grein fyrir, að hér á hinu háa Alþ. er mikill þrýstingur frá þm., sérstaklega úr dreifbýlinu, um, að gerðar verði róttækar ráðstafanir, til þess að úr verði bætt orkuþörf landsmanna, þannig að við verði komið rafhitun í sambandi við upphitun íbúðarhúsa og húsnæðis almennt, þar sem ekki verður við komið hitun með jarðvarma, sem allir telja þó, að æskilegra sé, ef slíkar aðstæður eru fyrir hendi.

Það er ekki á þessu stigi ástæða til þess að fjölyrða frekar um þetta mál, en ég vil endurtaka það, að ég þakka n. fyrir að hafa afgreitt málið frá sér og tel eðlilegt, að það sé gert á þann veg, sem hún leggur til, að því sé vísað til ríkisstj. til athugunar í sambandi við orkumálin í heild. Ég tek undir það, sem hv. frsm. sagði í upphafi máls síns, að við væntum þess, að þetta mál eins og önnur, sem snerta orkumálin, verði tekið þar til jákvæðrar afgreiðslu.