24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3930 í B-deild Alþingistíðinda. (3484)

150. mál, bætt skipulag tónlistarnáms

Frsm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er mér ánægja að fylgja úr hlaði þessu nál. um till. til þál. um bætt skipulag tónlistarnáms. Allshn. Sþ. var sammála um að mæla með samþykkt þessarar till. Kom fram í n., að menn voru sérstaklega hlynntir því, sem fram kemur í grg. þessarar till. um nauðsyn þess að gera tónlistina að almenningseign, og eins og hv. flm. till. segir: „að almennu tjáningartæki með beinni kennslu í nótnalestri og hljóðfæraleik.“ — Mig langar til að fá að bæta hér einu atriði við, sem ég vildi gjarnan mega leggja sérstaka áherslu á og tel raunar, að hafi mjög mikið gildi í almennri fræðslu, og það er að gera tónlistina meira að almenningseign á þann hátt að kenna nemendum að hlusta á tónlist. Ég held, að það sé ótrúlega mikill fjöldi manna, sem hefur ekki tekist að komast inn í hinn fjölbreytta og fagra heim tónlistarinnar vegna þess eins, að þeir hafa ekki komist upp á að hlusta á tónlistina á unga aldri og telja á einhvern hátt, að þarna sé um að ræða list, sem einungís standi þeim til boða, sem séu sérfróðir í greininni.

Í því sambandi langar mig til að rifja upp lítið atriði, sem ég var svo heppin að njóta sjálf, þegar ég var í menntaskóla, og tel, að ég eigi margt að þakka því, sem við fengum að læra á þessu sviði. Það var einfaldlega, að félagsskapur í skólanum bauð til sín á nokkra fundi dr. Páli Ísólfssyni, og hann hlustaði með okkur á nokkur tónverk, nokkrar sinfóníur Beethovens, og útlistaði fyrir okkur verkin jafnharðan, síðan hlustuðum við á þau í heild. Ég held, að við, sem þarna vorum viðstödd, höfum verið upp og ofan það, sem kallað er ósköp lítið músíkalskt fólk. En ég held, að það sé allra mál, sem þessarar fræðslu eða handleiðslu dr. Páls nutu, að þarna hafi okkur verið með nokkrum hætti opnaðar dyr að þessum heimi tónlistarinnar á þann veg, að við höfum alla tíð búið að því síðan. Þetta er ekkert stórt atriði, en ég vildi gjarnan í sambandi við þetta mál láta koma fram, að eitthvað í þessa áttina, fræðsla á svipaðan hátt og þarna var uppi höfð, þyrfti að standa til boða nemendum á skyldunámsstigi, strax og mér er kunnugt, að þó nokkrir tónlistarkennarar í barnaskólum hafa farið inn á þessa braut nemendunum til mikils gagns og gleði. Og ég vildi benda á, að gera þyrfti þessa leið að enn stærri þætti í tónlistarnámi en nú er, og að öðru leyti taka undir þær leiðir, sem bent er á í þessari þáltill.