24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3935 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

121. mál, z í ritmáli

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég má til með að segja hér örfá orð sem einn af flm. till. þeirrar, sem er til umr., ekki síst vegna hinnar snjöllu ræðu, sem varamaður minn á þingi flutti hér gegn setunni á sínum tíma. Ég vildi aðeins út af orðum hæstv. ráðh. áðan gera örfáar aths.

Hæstv. ráðh, sagði, að um setuna giltu allt aðrar reglur en ypsilonið. Ypsilonið væri svo samrunnið málinu gagnvart hljóðvarpi og hljóðvarpsbreytingum öllum, að þar væri um auðveldan og auðskilinn máta að ræða, að því er manni gat skilist. Hæstv. ráðh. veit þó, að fjölmörg orð eru í dag skrifuð með ypsiloni, sem er mjög erfitt að finna stofn að og mjög erfitt að útskýra fyrir nemendum á barnaskólastigi. Nægir að nefna eitt einfalt dæmi um það, sem oft er notað, a.m.k. gagnvart börnum, og það er orðið „grýla“. Það er dálítið erfitt, þegar maður fer að segja ungum nemendum sínum, að orðið „grýla“ sé skrifað með ypsiloni af því, að í erlendum málum sé eitthvað, sem heitir „grú“, „grusom“ og annað eftir því. Á þetta hef ég aldrei rekið mig gagnvart z í stofni, að maður þyrfti svo langt að leita um stofn orða, svo að ég held, að ef við ætlum að fara út í samanburð um þetta, þá hefði z vinninginn um auðskilinn stofn.

Af því að hæstv. ráðh. sagði það áðan, að það væri m.a. röksemdin gagnvart þessu, að það væri verið að færa stafsetninguna í fyrra horf, þá er auðvitað spurningin um það, hve langt á að ganga í því að færa stafsetninguna í fyrra horf, hve langt aftur á að fara til að færa stafsetninguna í hið fyrra horf. Hverju má maður þá næst búast við af hálfu þeirrar stafsetningarnefndar, sem gerir till. til ráðh. um önnur atriði stafsetningarinnar? Það væri fróðlegt að fá einhverjar upplýsingar um það.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ritgerðarkennslan í skólunum hefur yfirleitt fallið nokkuð í skuggann fyrir stafsetningunni, fyrir stafsetningarkennslunni sjálfri, ekki setukennslunni, síður en svo. Ég t.d. vil minna hæstv. ráðh. á það og hann veit það mætavel, að í barnaskólum, þar sem z kemur nú alls ekki til greina með að drepa niður þessa hlið, sem snýr að ritgerðinni, — í barnaskólum hefur ritgerðarkennslu verið sýndur allt of lítill sómi og væri vissulega full ástæða til þess að færa það í betra horf. En hér er fyrst og fremst um starfsaðferðir við kennslu að ræða, sem hafa hreinlega verið rangar að mínu mati.

Þegar hæstv. ráðh. talar um málsamfélög, þá held ég, að það sé það hæpnasta að tala um, að þar sé z það, sem máli skiptir. Ég þekki vissulega ýmislegt fólk, sem veigrar sér að senda bréf og hefur jafnvel beðið mig um leiðréttingu og að fara yfir bréf sín, áður en það sendir þau, vegna stafsetningar. En ég man aldrei til, að það hafi minnst á það við mig, að ég þyrfti endilega að koma þeirri leiðréttingu að, að z væri alls staðar á réttum stað, heldur einfaldlega af þeirri ástæðu, að stafsetningarkunnátta þessa fólks og stafsetningarlærdómur þess á sínum tíma var slíkur, að ekki var við öðru að búast en það þyrfti kannske einhverrar leiðbeiningar við, fólk hafði hreinlega ekki hlotið þá kennslu, sem fólk nú hlýtur í þessum efnum.

Varamaður minn á þingi kom inn á atriði, eins og reyndar fleiri, um vanda og erfiði blessaðra nemendanna, og síst skal ég úr því draga. Það er rétt að skólanemendur eru ein vinnuþjakaðasta stétt þjóðfélagsins, þeir sem náminu sinna af alúð og „samvizkusemi“, og þá á ég við „samvizkusemi“ með z, því að aðra þekki ég ekki. En ég vil mótmæla því sem íslenskukennari í nær 20 ár, að setan sé eitthvert sérfyrirbæri hvað snertir erfiðleika í stafsetningarkennslu. Z í stofni orða er að minni reynslu, eins og ég nefndi áðan, eitt auðlærðasta atriði í stafsetningu, — atriði, sem ég vildi raunar kenna nemendum þegar í upphafi stafsetningarkennslu. Og af hverju skyldi þetta svo stafa af öðru en því, að svo eðlilegt og náið samband er á milli stofnsins, sem setan er af dregin, svo fljót- og auðlært það samhengi, sem þar er að finna? Ég vil fullyrða það hér úr þessum ræðustól, að z í stofni hef ég kennt nemendum mínum á 2–3 tímum, og ég hef fengið sárafáar villur á prófi hjá öllum þeim, sem á annað borð gátu eitthvað í stafsetningu, og ég hygg, að sú sé reynsla fleiri hvað þetta atriði snertir. Ég játa líka fúslega þá um leið, að það er miklu flóknara með z í sagnendingum, þó að einnig þar sé um flest auðvelt að rekja til stofns, og það hefur aldrei reynst svo sem frekar vandamál en ýmislegt annað í stafsetningunni.

Þetta um námið og setuna og góðverkið við nemendurna, — ég held, að þau yrðu svo sannarlega að verða nokkuð mörg, ef út í það væri farið að auðvelda þeim stafsetningarnámið í heild. Út af þessu detta mér í hug furðubréf, sem okkur þm. hafa borist, m.a. um kostnaðarhlið setukennslunnar og tímaeyðsluna. Hvort tveggja er jafnfráleitt og jafnundarlega heimskulegt. Hvort tveggja er, að hér er um rangar fullyrðingar að ræða, sem ekki standast, og svo hins vegar, að svona rök mætti nota gegn kennslu yfirleitt í hverju sem væri. Sér í lagi væri mínum ágætu stéttarbræðrum í Sambandi ísl. barnakennara hollt að hugleiða betur þessi mál í heild, áður en þeir fara að kvarta undan tímasóun varðandi kennslu, hvort sem það er z eða eitthvað annað. Af minni reynslu mætti þá ýmislegt fyrr niður falla, m.a. ýmsir þættir málfræðinnar, sem mínir elskulegu félagar hafa hingað til haldið í dauðahaldi. Færi betur á því að sleppa þar öllum samjöfnuði um kostnað, tíma og dýrmæti einstakra kennsluþátta, svo margt sem þar kemur til álíta löngu á undan niðurfellingu setunnar. Og mikið hefði ég nú gaman af því að sjá árangur stafsetningarkennslunnar í vetur miðað við árið á undan og sjá, hvað árangurinn er stórum glæstari nú, þegar ekki þarf að sóa gífurlega löngum tíma í setureglurnar, eins og Samband ísl. barnakennara bendir á, en er raunar kennd á öðru stigi en þeir kennarar sjálfir kenna við. Svona rök tel ég fyrir neðan virðingu minna annars ágætu stéttarfélaga.

Og út af orðum hæstv. ráðh., ég dreg stórlega í efa, að ritgerðarkennslan í skólunum hafi verið betur rækt í vetur og þeim tímum, sem varið var til setukennslunnar áður, hafi verið varið til ritgerðarkennslu í staðinn í vetur, til þess að gera nemendurna færari í meðferð móðurmálsins yfirleitt.

Ég vil ekki tefja þessar umr. um málfræðileg atriði og málþróun yfirleitt. Það hefur svo rækilega verið gert hér, að við það er ekki þörf að bæta. En þar hlýtur setan að eiga ekki minni rétt en ýmislegt annað, t.d. ypsilonið, sem einnig hefur hér komið til umr. og hefði í raun átt að falla út með setunni, ef samræmi hefði verið í hlutunum og skyndiákvörðun ekki verið látin ráða, svo sem gert var. Hvoru tveggja er ég hins vegar jafnandvígur.

Aðeins að lokum í sambandi við sjónvarpsþáttinn um setuna nú á dögunum. Furðuleg er sú kenning, að ritmál og talmál sé ekki hvort tveggja hlutar móðurmálsins. Um þýðingu hvors þáttar má deila, en báðir hljóta þar að vera fullgildir. Hitt tel ég óhæfu, að halda fram, eins og víða hefur heyrst, að ritmálið og þar með vitanlega reglur um það séu ekki þýðingarmikill hluti móðurmálsins. Eða hefur það ekki verið haft fyrir satt, að varðveisla íslenskrar tungu hafi ekki hvað síst byggst á ritmálinu, Íslendingasögunum, sem voru andlegur leiðarvísir þjóðarinnar og móðurmálsskóli um aldir? Því skyldi allt, sem snertir ritmál og endurskoðun reglna þar um, framkvæmt af fullri gát og að vandlega yfirveguðu máli. M.a. vegna aðferðarinnar við setudrápið hlýt ég að standa fast á till. okkar og fagna afgreiðslu n. á henni.