24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

121. mál, z í ritmáli

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mál þetta er að vísu allmikið rætt, þannig að af þeim sökum er e.t.v. ástæðulaust að setja á langar tölur um það.

Hv. 6. landsk., sem nú síðast talaði, lét þess getið, að fólk hefði til sín komið til þess að láta hann leiðrétta sendibréf, sem það gjarnan vildi senda, og það hefði ekki verið vegna þess, að það óttaðist svo mjög, að þar í vantaði setu. Ég er næstum því viss um, að þessi hv. þm., kennari frá Reyðarfirði, hefur sjálfsagt fengið margar slíkar beiðnir til sín, alls ekki vegna z eða y, heldur sérstaklega vegna þess, að fólk þar um sveitir hefur og ekki að ástæðulausu óttast, að framburður þess kynni að hafa villt um fyrir því í stafsetningunni. Mega þeir, sem vilja nú og hafa haldið fram áður, að rita ætti eftir framburði, taka nokkurt mið af þessu.

Það er sannfæring mín, eftir að hafa kynnst því sjálfur, að ef t.d. á s.I. öld hefði verið ritað eftir framburði, þá væri svo komið, að Vestfirðingar og Austfirðingar skildu ekki hverjir aðra, hvorki meira né minna. Hljóðvillunnar, sem mjög var landfleyg um hríð, gætir mjög lítið eystra nú orðið. En ef það hefði verið tíðkað hér um aldamót að rita eftir framburði, þá er mér nær að halda, að í ógöngur væri komið. (Gripið fram í.) Hvað var það, sem hæstv. fyrrv. skólastjóri minn var að kalla fram í? (Gripið fram í.) Þá fyrst sjá menn, hver skaði væri að.

Hæstv. menntmrh. hefur litlar röksemdir heyrt fyrir því, að z skuli rituð í íslensku máli. Það er ómótmælanlegt, að þetta er þáttur í gagnsæi málsins. Þetta sýnir okkur skyldleikatengsl. Það er hægt að nefna ótal dæmi, t.a.m. varðandi lítil orð, sem detta dauð niður við það, að þessi breyt. á sér stað. Hafa menn litið á litla orðið „að hittast“, „hafa hist“ í sjónvarpi, — „hist“, eins og segir á dönsku: hist og her? Hvað verður um það orð? Þeir hafa „hist“. Og „best“ verður einhver afkáraskapur, sem er auðvitað verðmætt orð, sem maður kærir sig ekkert um lengur. Og hvernig ætlar hæstv. menntmrh. að fara að því að segja, sem er auðvitað að jafnaði mikið leyndarmál: þau hafa kysstst. Hann vill rita þetta með k y að vísu enn þá, en þegar bestu menn hafa haft nýja yfirsýn, eins og hann nefnir þá, þá munu þeir sjálfsagt leggja til, að það verði einfalt: k í s t, — þau hafa „kysst“, hvern, hvar og hvenær? Þau hafa kysst eitthvað einhvern tíma. Ef hann vill segja þetta, eins og hann vildi e.t.v. segja: þau hafa kysst hvort annað — og rita það þannig, hann getur ekki gert það nema með því að segja fullum fetum: Þau hafa kysst hvort annað, — en hann vill svo segja um eitthvert fólk og ljóstrar þá jafnvel upp leyndarmáli. (Menntmrh.: Hvernig vill hv. þm. bera sér þetta orð í munn?) Ja, hæstv. ráðh. þarf líka að rita fyrir utan að tala.

Það var eitt, sem hv. 6. landsk. kom inn á hér, hina fáránlegu fullyrðingu þessara yfirsýnarmanna, að hið ritaða mál sé alls óskylt hinu talaða. Hæstv. ráðh. gat þess, að fyrir lægi einróma álit n. um þetta efni, þessarar frægu n., sem skipuð var. Að vísu kom það fram þannig opinberlega, þó ekki án þess, að hinn hæfasti af þeim, — eða kannske er það fullmikið sagt að segja hæfasti, — en sá langskólagengnasti og hinn lærðasti af þeim tók það þó fram, að honum dytti ekki í lifandi hug að hætta að skrifa z. Af hverju er það? Af hverju í ósköpunum tók hann þetta fram? Dettur einhverjum í lifandi hug, að það sé vegna þess, að hann sé einlæglega þeirrar skoðunar að leggja til að fella þennan staf í stafrófinu niður? Því fer vitanlega víðs fjarri.

Hæstv. ráðh. hefur orðið þess var, að ýmsir úr sama menntamannahópi eru á sama máli og vitnar í barnakennara og nemendur í Kennaraháskólanum. Við höfum fengið að sjá skoðanakannanir hér undanfarið og niðurstöður úr þeim, og það er kannske þess vegna, sem hæstv. ráðh. hefur fengið hæstv. forseta vorn til þess að taka þetta ekki á dagskrá vikum saman — að biða eftir því, að það væri safnað saman einhverjum skoðanakönnunum út í bæ, þannig að hér mætti hafa nægjanleg áhrif á ístöðulitla þm. Athygli mína vakti niðurstaðan í Menntaskólanum við Hamrahlíð, að þar voru 300 og eitthvað manns, sem rituðu undir, að jafnaði undir nöfn kennara sinna fyrst, um það, að þeir vildu fella z brott. Og grg. var með mjög sérkennilegum hætti. Hún var með þeim hætti, að ef hv. alþm. ætluðu sér að fara að fjalla um mál eins og þetta, þá væri það álíka eins og íslenskufræðingar tækju fyrir að ræða frystihúsarekstur, ef ég man rétt, og skiluðu áliti sínu eftir því, hvernig fiskur væri í laginu eða hvernig hann liti út á fati. Þetta er svona hugnanleg aðrétta fyrir hv. 3. þm. Vestf., minn gamla skólastjóra, sem var kennari og skólastjóri við mikinn orðstír um árabil, og fyrir hv. 6. landsk., hv. þm. Jónas Árnason, kennara um áratugaskeið, og hv. þm. Pál Þorsteinsson og enn fleiri. Ég hygg, að e.t.v. helftin af þm. hafi nærri því komið að vera uppfræðarar, þannig að þeir kunni skil á þessu, svo að óþarft er fyrir þessi lítt lærðu ungmenni að setja sína röksemdafærslu fram með þeim hætti, sem þau gerðu, og er auðvitað ekkert nema fyrirlitning, sem við því miður verðum of oft varir við hér á hinu háa Alþ.

Ómótmælanlegt er það að vísu, að z hefur ekki verið kennd í skyldunámi, og það er kannske slys, sem gerir það að verkum, að við þurfum að berjast um á hæl og hnakka fyrir því, að þessari málskemmd og ritskemmd skuli ekki komið á. Það er það óhapp, þegar árið 1934, hygg ég, að það hafi verið, að undanþága var gefin frá því að kenna z í barnaskólum. En ef þessi till. okkar yrði samþ., er alveg ljóst, að hún hlýtur að hafa í för með sér, að því verði breytt, svo eindregin afstaða sem ég vænti að tekin verði til okkar till. um að hrinda þessari skjótbráðu ákvörðun hæstv. menntmrh. að undirlagi þeirra, sem ég vil kalla, að hafi ekki bestu manna yfirsýn, en hann er á öðru máli um.

Það er talað um, að þetta taki mikinn tíma. Hér var kennari, hv. 6. landsk., sem bar vitni um allt annað. Ég hélt því fram hér við umr. fyrir alllöngu, að það tæki ekki nema örskamma hríð að kenna meðalgreindu fólki að rita z, þannig að sómasamlega færi því úr hendi. Það er alveg eins og með y, það er hægt að finna orð, sem eiga sér svo flókinn og langdreginn uppruna, að með engum rétti er hægt að krefjast þess, að jafnvel þeir, sem hafa lokið stúdentsprófi, geti með fullri vissu sýnt fram á, hvort rita eigi y eða i. Rétt það sama og þó í enn miklu færri tilfellum gildir um setuna, — í miklu færri tilfellum. En það er þá allajafna svo, að það heyrir til hreinnar undantekningar, ef menn eru svo færir í ritun íslenskrar tungu, að þeim geti aldrei orðið á misbrestur um neitt. Þeir menn eru áreiðanlega teljandi á fingrum annarrar handar, sem ekki eiga það til að gera skyssu í þeim sökum.

Tíminn, sem til þessa fer, er auðvitað ekki til þess að telja eftir. Og ef byrjað er fyrr, er þetta enn þá auðveldara. Og að halda því fram, að þessi bókstafur hafi stolið nauðsynlegum tíma frá öðrum mjög mikilvægum þáttum móðurmálskennslu, eru auðvitað röksemdir út í hött. Hæstv. menntmrh. nefndi ýmis atriði, ýmsa þætti í móðurmálinu, þjálfun og meðferð þess í ræðu og riti, sem eru ákaflega mikilsverðir. En ef á skortir um kennslu í þessum þáttum, þá er það alls ekki vegna þess, að setan hafi verið þar fyrir, heldur vegna þess, að þessu er ekki gefinn nægur tími eða engin alúð við það lögð.

Það er alveg rétt, að maður verður þess var, að ungmennum hefur orðið ósýnna um að setja fram hugsun sína í ræðu t.d. en maður jafnan átti að venjast. E.t.v. verður maður gagnrýnni á þetta en var, þegar árin líða. En svo kann að vera, og þá er að leita orsakar til þess arna hjá skólunum vissulega. En að finna upp á þeirri tylliástæðu, að það sé vegna þess, að svo frekur tími fari til kennslu setunnar, er vitaskuld út í hött.

Svo kom hæstv. menntmrh. að atriði, sem mér kom gersamlega í opna skjöldu, ef ég hef þá skilið hann rétt, að meðferð þessa bókstafs væri blátt áfram til þess að kljúfa íslenskt málsamfélag í tvennt eða skipta þjóðinni jafnvel í tvennt, í lærða menn og ólærða. Tók ég rétt eftir þessu atriði? (Menntmrh.: Lærða og ólærða í þessu atriði.) Í þessu atriði? Já, þá er þetta ekki nálægt eins alvarlegt og ég hugði við það að hlýða á ræðu hæstv. ráðh., enda ofhasaði mér gersamlega á þetta að hlýða. Ég hélt, að hæstv. ráðh. væri þarna að tala um það, að þetta smáatriði, eitt hið allra smæsta atriði varðandi íslenska tungu, ritaða og talaða, það út af fyrir sig væri einn þáttur í því að skipta fólki niður í lærða menn og ólærða o.s.frv., svo að ég sé, að það er þá ekki eins alvarlegt og ég hugði.

Í lok ræðu sinnar gat hæstv. ráðh. þess réttilega, að hann hefði um meðferð málsins farið eftir þeirri venju, sem tíðkast hefur, að þetta sé reglugerðaratriði, sem ráðh. hafi leyfi til að beita. Það hefur enginn dregið það í efa, að hann hafi farið eftir venju í þessu, eftir lögformlegri venju, sem skapast hefur um áratugi. Það hefur enginn borið brigður á, að hann hafi haft fullkominn rétt til að taka þessa ákvörðun. Hitt var verra, að ákvörðunin skyldi þurfa að vera röng. En að því búnu, að hið háa Alþ. tekur ákvörðun um, að þessari ákvörðun skuli hrundið, þá þarf ekki að fara í grafgötur um, að vitanlega fer hæstv. ráðh. að þeirri viljayfirlýsingu.