24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3949 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

315. mál, virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 721 er flutt till. til þál. um virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu. Flm. að þessari till. eru allir þm. Vestfjarða. Þessi till. gerir ráð fyrir, að Alþ. feli ríkisstj. að heimila væntanlegri Vestfjarðavirkjun eða öðrum aðila að virkja Suður-Fossá á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu í allt að 2 mw. raforkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til Patreksfjarðar til tengingar þar við aðalorkukerfi Vestfjarða. Jafnframt er ríkisstj. falið að gera nú þegar af sinni hálfu ráðstafanir til. að hraðað verði eins og frekast er unnt framkvæmdum þessum. Stefnt skal að því að ljúka virkjunarframkvæmdum fyrir lok ársins 1975.

Á undanförnum mánuðum hafa skapast þau viðhorf í orkumálum heimsins, að einskis má láta ófreistað í viðleitni landsmanna til að auka raforkuframleiðslu. Mikið veltur á, að engar ónauðsynlegar tafir verði á framkvæmd virkjana, sem þegar er hægt að byrja á, vegna þess að undirbúningsrannsóknum og athugunum er lokið. Eitt slíkt verkefni, sem bíður framkvæmda, er einmitt virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu.

Þegar árið 1951 beindist athygli manna að virkjun Suður-Fossár. Var þá gerð áætlun á vegum raforkumálastjóra um litla virkjun þar. Var hér um að ræða eina af mörgum athugunum, sem gerðar voru vegna könnunar á orkuöflun fyrir Vestfirði. Reyndist hér um að ræða hagkvæmustu orkuöflunina, sbr. grg. í ársskýrslu Sambands ísl. rafveitna 1952. Árið 1961 voru teknar upp virkjunarathuganir að nýju við Suður-Fossá. Var þá gert yfirlit yfir jarðfræðilegar aðstæður, og sama ár var enn fremur gert yfirlit yfir virkjunarmöguleika. Þá var árið 1965 mælt langsnið stíflusvæðis og gerð lausleg kostnaðaráætlun fyrir 1.75 mw. virkjun, sem áætlað var að kostaði 36.6 millj. kr.

Í júlí 1970 samþ. sýslunefnd Vestur-Barðastrandarsýslu að hafa forgöngu og frumkvæði að frekari könnun á virkjun Suður-Fossár. Þá var verkfræðifyrirtækið Virkir h/f fengið til þess að gera áætlun um virkjun í ánni. Virkjun sú, sem hér er lagt til að gerð verði í Suður-Fossá, er byggð á till. þeim og áætlunum, sem Virkir h/f lagði fram í nóv. 1970. Þar segir, að virkjun Suður-Fossár sé tæknilega einföld. Gert sé ráð fyrir að nýta afrennsli 18 ferkm. vatnasviðs og miðla vatnsrennslinu í 2 uppistöðulónum og virkja með 160 m fallhæð. Gefur þetta 2 mw. virkjun með 10 gwst. árlegri orkuframleiðslu, og áætlað var, að virkjun þessi kostaði 63.1 millj. kr., miðað við verðlag ársins 1970. Í dag er þessi kostnaður ásamt kostnaði við aðalorkuveitu til Patreksfjarðar áætlaður um 145 millj. kr.

Með þessari þáltill. er lagt til, að ráðh. heimili væntanlegri Vestfjarðavirkjun eða öðrum aðila að virkja Suður-Fossá. Er þá gert ráð fyrir, að Vestfjarðavirkjun verði sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna á samveitusvæði Vestfjarða. Slíkt væri eðlileg framkvæmd á stefnumörkun í raforkumálum Vestfjarða samkv. þál., sem samþ. var 5. apríl 1971. Samt sem áður er gert ráð fyrir í þáltill. þeirri, sem hér er flutt, að annar háttur geti orðið á um eignaraðild, ef nauðsyn þykir.

Virkjun sú, sem þáltill. þessi fjallar um, er á suðurenda samveitukerfis Vestfjarða og eykur því verulega öryggi notenda þess, einkum þeirra, er búa sunnan Arnarfjarðar. Hér er því um að ræða virkjun, sem gegnir hliðstæðu hlutverki að þessu leyti og vatnsaflsstöðvarnar á norðurenda samveitusvæðisins á Ísafirði og í Bolungarvík. Með framkvæmd þessari er því vorið að búa svo í haginn, að í framtíðinni verði síður þörf á hinum mjög svo óhagkvæmu dísilstöðvum sem vararafstöðvum á þessum hluta samveitusvæðisins.

Þó að hér sé um að ræða virkjun, sem fullnægir litlu af framtíðarorkuþörf Vestfjarða, er framkvæmd þessi mikilvægur þáttur í uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða. Virkjun þessi á að framleiða meiri orku en sem svarar núverandi raforkunotkun sunnan Arnarfjarðar, og nemur vinnslugeta hennar meira en 1/3 af raforkuframleiðslu Vestfjarða í dag.

Nauðsynlegt er, að undirbúningi verði hraðað svo við virkjun Suður-Fossár, að framkvæmdir geti hafist sumarið 1974 eða á því sumri, sem hefst á morgun. Má þá gera ráð fyrir, að hægt verði að ljúka verkinu og orkuvinnsla gæti hafist í árslok 1975. Um sama leyti mun koma í gagnið Mjólkárvirkjun II, sem nú er í byggingu og áætlað er, að gefi 29 gwst. árlega orkuframleiðslu. Báðar þessar virkjanir eru mikilvægur þáttur í heildaruppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða, en jafnframt ber nú brýna nauðsyn til að halda áfram virkjunarframkvæmdum, rannsóknum og hönnun nýrra virkjana, svo að séð verði á næstu árum fyrir raforkuþörf Vestfjarða. En þá verður að hafa í huga, að mæta verður hinni stórauknu þörf fyrir raforku til húsahitunar og aukins iðnaðar á Vestfjörðum.

Raforkumálin eru mikið til umræðu um þessar mundir og ekki síst hér á hv. Alþ. Fyrir nokkrum dögum ræddum við á þessum vettvangi skýrslu iðnrh. um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu. Í þessari skýrslu er greint frá því, að á Vestfjörðum séu nokkur álitleg virkjunarsvæði, eins og þar stendur, og bent á þau helstu, þar sem er Dynjandissvæðið, norðurhluti Glámusvæðisins og svæðið sunnan af Drangajökli. Í skýrslu þessari segir, að við fulla rafhitun Vestfjarða þurfi a.m.k. að virkja tvö þessara svæða og vart sé hægt að gera ráð fyrir, að slíkar framkvæmdir taki minna en 8–10 ár með rannsóknum, hönnun og byggingu. Hér er drepið á mikið mál fyrir framtíðaruppbyggingu Vestfjarða. Þetta gefur tilefni til þess og till. sú, sem hér er lögð fram, að víkja nokkrum orðum að þessu mikla máli Vestfjarða.

Á samveitusvæði Vestfjarða búa nú um 8 þús. manns og af þeim eru um 6 þús. norðan Arnarfjarðar, en um 2 þús. sunnan Arnarf jarðar. Á árinu 1973 var orkuvinnsla á samveitusvæðinu 26.4 gwst. Langmestur hluti þessarar orku fór til iðnaðar og almennrar notkunar eða um 25 gwst., en aðeins 1.4 gwst. til húsahitunar. Orkuþörf samveitusvæðis Vestfjarða vegna húsahitunar hefur verið áætluð um 80 gwst. á ári. Það liggja ekki fyrir áætlanir um aukningu á raforkunotkun til fiskiðnaðar eða annars iðnaðar á þessu svæði, en þess má geta, að orkuvinnslan á svæðinu hefur aukist um rúm 6% á ári að meðaltali undanfarin 10 ár. Samkv. þessu væri algert lágmark að gera ráð fyrir, að raforkuþörfin til almennrar notkunar og iðnaðar tvöfaldaðist á næstu 10 árum.

Aukning orkunotkunar er mörgum aðstæðum háð, og spá um orkuþörf langt fram í tímann verður aldrei hárnákvæm og óyggjandi. Hins vegar leikur enginn vafi á því, að hvaða markmiði ber að stefna í þessum efnum á Vestfjörðum. Viðfangsefnið í orkumálunum nú á Vestfjörðum er hið sama og annars staðar á landinu, þar sem er nýting innlendra orkugjafa til húsahitunar og annarra þarfa, en hafa verður í huga, að í þessum efnum hafa Vestfirðir sérstöðu, svo sem í mörgum öðrum málum. Þetta kemur til af því, hve takmarkaðir möguleikar eru þar til að hagnýta jarðvarma í þessu skyni. Á Vestfjörðum verður þessu markmiði í orkumálunum ekki náð með öðrum hætti en að hagnýta raforku að mestu leyti. Þetta kallar á stórframkvæmdir í raforkumálum Vestfjarða á næstu árum. Til þess að ná því markmiði að hita upp öll íbúðarhús á Vestfjörðum með raforku þarf að byggja í þessu skyni virkjanir, sem framleiða um 104 gwst. á ári. Er þá reiknað með öllum Vestfjörðum, ekki einungis núverandi samveitusvæði Vestfjarða, sem nær yfir landssvæðið frá Bolungarvík til Patreksfjarðar, heldur Strandasýslu og öðrum héruðum, sem núv. samveitusvæði nær ekki til. Þá er eftir að gera ráð fyrir aukinni orkuþörf á Vestfjörðum vegna almennrar notkunar og iðnaðar.

Ég hygg, að það þurfi ekki að orðlengja þetta mikið til þess, að öllum megi vera ljóst, hve mikil verkefni eru nú fyrir hendi í orkumálum Vestfjarða, — verkefni, sem krefjast skjótrar úrlausnar á næstu árum. Kostnaður við þessar framkvæmdir, þ.e.a.s. nýjar virkjanir og aðflutningslínur, hefur verið áætlaður ekki alls fyrir löngu, að mundi nema naumast minna en 1200–1500 millj. kr. En auðvitað er á þessum miklu verðbólgutímum, sem nú ganga yfir, erfitt að segja, hver kostnaður raunverulega verður mældur í krónum, þegar framkvæmdir verða gerðar. En þetta gefur þó nokkra hugmynd um umfang þess viðfangsefnis, sem hér er um að ræða.

En höfum við þá möguleika á Vestfjörðum til virkjana til að mæta þessari orkuþörf Vestfjarða? Því verður hiklaust að svara játandi. Við höfum möguleika til virkjunar á Vestfjörðum til þess að mæta fyrirsjáanlegri þörf Vestfirðinga fyrir raforku. Helstu svæði, sem þar koma til greina, eru Glámusvæðið að vestan, sem nú hefur verið virkjað að nokkru leyti og er verið að virkja, þar sem Mjólkárvirkjun er, Norður-Glámusvæðið og einnig Suður-Glámusvæðið. Hefur verið áætlað, að Glámusvæðið í heild, ef fullnýtt væri, gæti gefið 250–500 gwst. á ári. Auk þessa, til þess að nefna aðeins tvö helstu svæðin, þá skal ég nefna svæði sunnan Drangajökuls, þar sem talið er, að séu möguleikar jafnvel til enn meiri orkuöflunar en á Glámusvæðinu. Þessar tölur, sem ég hef hér nefnt, eru ekki nákvæmar. Sannleikurinn er sá, að það er allt of skammt á veg komið rannsóknum á þessum vatnasvæðum Vestfjarða utan þess svæðis, sem þegar hefur verið tekið fyrir, Vestur-Glámusvæðisins. En það er knýjandi nauðsyn, að það sé beitt öllu afli til þess að vinna að rannsókn þessara svæða og vinna þannig markvisst að undirbúningi og jafnframt hönnun þeirra mannvirkja, sem þarna þurfa að koma, til þess að hagnýttir verði þessir miklu möguleikar.

Eins og ég gat um áðan, verður hægt að ljúka virkjun Suður-Fossár í árslok 1975, ef okkur þm. Vestf. verður að von okkar og sú framkvæmd gæti gengið með þeim hraða, sem við vildum. Ég viðurkenni, að þar er um bjartsýni að ræða, en við erum bjartsýnir menn og við teljum þetta hægt, ef réttir aðilar einbeita sér í því efni. Eins og ég sagði áðan, er gert ráð fyrir, að um svipað leyti verði lokið virkjun Mjólkár II, og nú munu vera í undirbúningi frekari aðgerðir á þessu svæði, og það er ákaflega þýðingarmikið, að af þeim framkvæmdum verði.

Með tilliti til þess, hve hér er um risamiklar framkvæmdir að ræða, sem úrlausnar bíða á Vestfjörðum, og raunar þó að þessar framkvæmdir væru verulega minni en raun her vitni um og hverjar sem framkvæmdirnar yrðu, þá er nauðsynlegt, að unnið sé skipulega að þessum verkefnum. Og sjálfs er höndin hollust í þessu efni sem í öðrum. Þess vegna gerum við ráð fyrir því í þáltill. þeirri, sem hér er til umr., að væntanlegri Vestfjarðavirkjun verði heimilað að virkja Suður-Fossá. Við tölum um væntanlega Vestfjarðavirkjun. Þá er átt við það, að það verði komið upp sameignarfyrirtæki sveitar.. félaga og ríkisins um virkjunarframkvæmdir á Vestfjörðum á hliðstæðan hátt og nú á sér stað um Laxárvirkjun. Við gerum ráð fyrir þessu í till., sem hér liggur fyrir. En það hefur áður verið gert ráð fyrir slíku, og í því sambandi leyfi ég mér að minna enn frekar en ég gerði áðan á þáltill. um raforkumál Vestf., sem flutt var af öllum þm. Vestfjarða og samþ. var á Alþ. 5. apríl 1971. í lok þessarar ályktunar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnhliða þessum athugunum verði kannaðar óskir sveitarfélaga um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna á samveitusvæðunum.“

Þetta er stefnan, sem við flm. þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, fylgjum. Það er stefna, sem Alþ. hefur sjálft markað með þáltill. frá 5. apríl 1971, og eins og ég sagði áðan, það var enginn ágreiningur þá meðal þm. Vestf. um þessa stefnu. Þeir stóðu allir að þál. frá 1971 og við stöndum allir að þáltill. þeirri, sem hér er til umr. Þetta er stefna okkar allra. Hins vegar er okkur ljóst, að það kann að vera, að þessu verði ekki komið í kring í skyndi, og því höfum við þann varnagla í till. okkar nú, að þó að það sé talað um, að ríkisstj. heimill væntanlegri Vestfjarðavirkjun að virkja Suður-Fossá, þá er jafnframt tekið fram í till.: „eða öðrum aðila“. Þetta er sett fram til þess að fyrirbyggja það, að þessi skipulagsatriði verði á nokkurn hátt til þess að tefja hina mikilsverðu framkvæmd, sem hér er lagt til að gerð verði.

Við leggjum yfirleitt höfuðáherslu á það, að ekki verði tafir á þessu verki. Við teljum, að hér sé um svo brýnt verkefni að ræða í virkjunarmálum Vestfjarða, að það megi einskis láta ófreistað til að framkvæma þessar fyrirætlanir, sem þáltill. gerir ráð fyrir og svo fljótt sem þar er gert ráð fyrir. Ég vil leyfa mér að vona, að þessi till. fái góða og skjóta afgreiðslu í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um hana. Ég legg sérstaklega mikla áherslu á það, að þetta geti orðið, vegna þess að það er langt liðið á þetta þing. En við þm. Vestf. erum þrátt fyrir það bjartsýnir á, að það takist að fá afgreiðslu þessa máls, áður en þingi lýkur. Við hyggjum það á því, að við erum allir sammála um mikilvægi málsins og það eru allir Vestfirðingar, ekki einungis í næstu byggðarlögum við Suður-Fossá, heldur allir Vestfirðingar, sem telja, að hér sé á ferðinni mikið framfara- og hagsmunamál fyrir Vestfirði. Með tilliti til þessa vænti ég þess, að hér verði höfð skjót handtök á, og ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til fjvn.