24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3953 í B-deild Alþingistíðinda. (3504)

315. mál, virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vona, að því megi treysta, að við Vestfjarðaþm. verðum búnir með þetta mál fyrir kl. 11, ég skal a.m.k. gera mitt til þess. Ég vildi aðeins í örfáum orðum lýsa stuðningi mínum við það, sem hv. 1. flm. þessarar till. hefur sagt um mikilvægi þessarar virkjunar, en mig langaði jafnframt til að reyna að draga fram í örfáum orðum nokkru ljósari mynd af orkumálum Vestfjarða, sem hv. 1. flm. ræddi reyndar í löngu máli.

Ég vil fyrst taka það fram, að ég lít ekki á þessa Suður-Fossárvirkjun sem mikilvæga vegna þess, að hún leysi orkuþörf Vestfjarða sem slíka. Hún bætir aðeins við um 10 gwst. og er um 2 mw. að afli. Það er ekki nema brot af þeirri orkuþörf, sem þarna verður, þegar rafhitun hefur verið upp tekin á svæðinu, og ekki nema hluti raunar af orkuþörf íbúanna sunnan Arnarfjarðar að rafhitun meðtalinni. Hins vegar er þessi virkjun að mínu viti ákaflega mikilvæg til þess að treysta það mjög svo veika dreifikerfi raforku, sem Vestfirðingar búa við. Vestfirðingar búa við dreifikerfi, sem oft er nefnt geislakerfi, þar sem geislar teygja sig út frá einni miðstöð. Annað kerfi er hringtengt kerfi, sem allir munu sjá, að er langtum öruggara. Þá má færa orku til svæðis eftir fleiri línum en einni, a.m.k. tveimur. Það er með tilliti til þessa, að ég tel, að þessi virkjun sé ákaflega mikilvæg. Og ég tel, að þetta hafi sannast með þeim bilunum, sem hafa orðið á rafdreifikerfi Vestfjarða á t.d. þessum vetri og reyndar fyrr. Tekið hefur langan tíma að bæta bilanir, sem orðið hafa, ekki síst þar sem línur fara yfir firði. En ég vildi leggja áherslu á það, að þó að þessari virkjun beri að hraða, má ekki draga úr öðrum framkvæmdum í orkumálum á Vestfjörðum. Þessu höfum við þm. Vestf. vakið athygli á, eins og hv. 1. flm. nefndi, með þál. frá 5. apríl 1971.

Hæstv. núv. ríkisstj. setti töluverðan skrið á orkumál Vestfjarða með framkvæmdum við Mjólkárvirkjun, sem gert er ráð fyrir að ljúki 1975. Vatnsafl Vestfjarðaveitu, þ.e.a.s. þess hluta Vestfjarða, sem Mjólkársvæðið þjónar, er nú 3.96 mw. en verður með Mjólká II 9.6& mw. Með því afli er gert ráð fyrir, að fáist um 58 gwst. af orku. En til að gera mönnum grein fyrir því, hve skammt þetta hrekkur til að fullnægja orkuþörfinni, vil ég nefna, að áætlað er, að á þessu svæði, þ.e. Vestfjarðasvæðinu, sé orkuþörfin með rafhitun 112 gwst., þegar árið 1975, þ.e.a.s. núv. virkjun, sem bætist við 1975, og þeim virkjunum, sem fyrir eru, gerir ekki nema að fullnægja að hálfu þessari orkuþörf. Jafnframt er áætlað, að þessi orkuþörf muni aukast 1980 upp í 129 gwst. og 1985 upp í 150 gwst. Umframþörfin verður því þegar árið 1975 54 gwst., árið 1980 71 gwst. og 1985 92 gwst. — Þessi virkjun, Suður-Fossárvirkjun, sem ég hef lagt áherslu á, að er mikilvæg, mun því hrökkva æðiskammt til þess að brúa það mikla bil, sem þarna er. En hún er, svo að ég endurtaki það, mikilvæg af öðrum ástæðum, þ.e.a.s. til að tryggja — ég vil kalla það lágmarksöryggi veitunnar á suðurhluta Vestfjarða.

Af því, sem ég hef nú rakið, má vera ljóst, að hraða verður athugunum á öllum leiðum til þess að færa orku til þessa svæðis, og ég ætla að geta hér um nokkrar athuganir, sem eru í gangi.

Áður en ég kem að þeim, vil ég þó vekja athygli á því, að Vestfirðirnir eru að sjálfsögðu stærra svæði en Vestfjarðaveita nær til. Strandasýslan, Austur-Barðastrandarsýslan og Djúpið eru fyrir utan þessa veitu. Þar eru tvær aðrar veitur, þ.e.a.s. veita frá Þverá við Hólmavík, sem nær til Austur-Barðastrandarsýslu og teygir sig raunar suður í Dalasýslu, og svo einkaveitur, sem upp hefur verið komið í Djúpinu og ná nú um Snæfjalla- og Nauteyrarhreppa og teygja sig smám saman yfir Reykjafjarðarhrepp og aðra hreppa í Djúpinu. Þessar veitur eru allar ósamtengdar. Þegar við tölum um samtengingu á rafveitukerfi landsins alls, virðist mér það því lágmarkskrafa okkar Vestfjarðaþm., að einnig verði hugað til þess að tengja saman þessar veitur í þessum eina landshluta. Samtenging þessara veitna út af fyrir sig mundi nokkuð auka öryggi orkuframleiðslunnar á þessu svæði. En Vestfjarðaveita er af þessum að sjálfsögðu langsamlega stærst. Íbúafjöldi Vestfjarðaveitusvæðisins er mestur. En við þær tölur, sem ég nefndi áðan um orkuþörf, þarf þó að bæta tölum um upphitunarþörf á svæði hinna tveggja veitnanna, og eykst þá þessi tala um, að því er mér sýnist í fljótu bragði, um það bil 20 gwst. Hvernig verður þessi vandi leystur?

Í undirbúningi hefur verið önnur virkjun á Mjólkársvæðinu, þ.e.a.s. virkjun Dynjandisár. Sú virkjun eða undirbúningur hennar er mjög langt kominn, og má segja, að hún sé fullhönnuð. Gert er ráð fyrir því, að Dynjandisá geti framleitt meðalafl 5.6 mw. en toppafl 8.4, og gwst. verði 49, þ.e.a.s. þær verða enn ekki nægilega margar til þess að brúa bilið, sem verður 1975, en með Suður-Fossárvirkjun mundi það gerast, en ekkert betur.

Um Dynjandisvirkjun er það að segja, að það er nokkuð góð virkjun. Áætlað orkuverð gæti orðið um kr. 1.10–1.20 kwst. Hins vegar er þar á sá annmarki, að fara verðum varlega í þá virkjun vegna þess foss, sem þar prýðir landslagið og er sérstakur. Því þarf að skoða þá virkjun frá náttúruverndarsjónartniðum. Hætt er við, að ef óvarlega er farið, geti mannvirki mjög spillt þessum fossi og nálægu svæði. Ég vil því leggja á það áherslu með þessum orðum mínum, að hið allra fyrsta þarf að fá umsögn þeirra manna, sem um slík náttúruverndarsjónarmið fjalla. Ég er sannfærður um, að haga megi virkjun þannig, að ekki spilli þessum fossi, og raunar hafa komið fram ábendingar um það. En vera má, að þá þurfi nokkuð að draga úr því vatnsmagni, a.m.k. yfir sumarmánuðina, sem virkjunin annars gæti nýtt, og mundi það minnka nokkuð orkuframleiðslugetu Dynjandisárvirkjunar. Það er því mjög mikilvægt, að þessi sjónarmið séu samræmd hið fyrsta.

En eins og ég sagði, þá er þetta eitt ekki nóg. Það þarf að skoða fleiri valkosti, og það hefur verið gert, að vísu, eins og kom fram hjá hv. 1, flm., lauslega víðast hvar. En við athugun hafa komið í ljós athyglisverðir möguleikar, og af þeim möguleikum, sem ég hef fengið upplýsingar um, og ég hygg, að þeir séu flestir, tel ég, að langathyglisverðust sé virkjun annars vegar Hvalár og Rjúkanda í Ófeigsfirði, sem er nokkuð stór virkjun og sú stærsta á þessu svæði, samtals 14.8 mw. að meðalafli og 22 að hámarksafli og 130 gwst. á ári. Það virðist vera langsamlega ódýrasta virkjunin með aðeins 80–85 aura verði á kwst. Þá er fall mikið og vatnasvæði mikið á hálendinu á milli Inn-Djúpsins og Stranda, Þetta er að vísu lausleg athugun, en hún bendir eindregið til þess, að þennan valkost beri að skoða nánar.

Á því svæði eru einnig aðrir virkjunarmöguleikar, sérstaklega Þverá og Hvannadalsá, og samanlagt yrði afl þeirra svipað og Hvalár og Rjúkanda, en hins vegar orkuframleiðslan nokkru minni. Þarna eru því sannarlega fyrir hendi möguleikar, sem gætu raunar verið mikilvægir, ekki aðeins fyrir Vestfirðina, heldur fyrir raforkukerfi landsins. Talið er að Dynjandi gæti orðið virkjaður 1978, þ.e.a.s. eftir 4 ár, en annar valkostur kæmi ekki til greina fyrr en í fyrsta lagi 1979 og ef til vill 1980. Þetta er æðilangur tími fyrir orkuþyrsta íbúa þessa svæðis. Orkuþörfin er þar sannarlega knýjandi, ekki aðeins til upphitunar íbúðarhúsnæðis, heldur einnig til að efla og styrkja þann mikilvæga fiskiðnað, sem á þessu svæði er, og annan iðnað, sem þar mun geta þróast. Ég hef því fyrr á Alþ. lagt á það áherslu, að jafnframt því sem ráðist er í þær virkjanir, sem nú eru tilhúnar, eins og Suður-Fossá og Dynjandisá, og jafnframt því sem aðrir valkostir eru kannaðir af fullum krafti, ber að skoða enn einn möguleika til þess að styrkja þetta svæði orkulega. Það er tenging þessa svæðis við fyrirhugaða norðurlínu.

Venjulega, þegar rætt er um samtengingu orkusvæða hér á landi, hefur Vestfjörðum verið sleppt. Virðist mönnum hrjósa hugur við þeim fjöllum og þeirri leið, sem þar er um að ræða. En ég hygg, að við athugun á landakorti muni menn fljótlega sjá, að það er ekki stórkostlegt fyrirtæki að fara með línu frá Mjólká inn í Djúpið, yfir í Reykhólasveitina, síðan yfir í Strandasýsluna og tengjast norðurlínu í Hrútafirði. Það eru samkv. mælingu, sem ég hef lauslega gert, um 200 km, og líklega yrði kostnaður við það í kringum 250–300 millj. kr. á því verðlagi, sem nú er til viðmiðunar haft við línubyggingar, en hefur að sjálfsögðu raskast og mun að öllum líkindum raskast meira. En þetta er nokkurn veginn sú tala, sem bera má saman í hlutfalli við aðrar línulagnir. Þetta er að vísu töluverður kostnaður, en ég get getið þess, að á það er skotið, að virkjun eins og t.d. Hvalár og Rjúkanda mundi kosta um 1000 mill,j. kr. Þetta er því ekki nema litill hluti af slíkri virkjun og það er, hygg ég, alveg ljóst, að slík samtenging gæti verið orðin að veruleika fyrr en flestar aðrar virkjanir, nema ef til vill Suður-Fossár. Ég hygg, að slíkri samtengingu mætti ljúka á um það bil þremur árum. Ef hafist væri handa strax, þá gæti henni veríð lokið í kringum 1977. Þetta er m.ö.o. fyrsti valkostur eða fljótvirkasti valkostur til þess að flytja nægilega orku inn á Vestf jarðasvæðið.

Það má enginn skilja orð mín svo, að með slíkri samtengingu sé vandinn allur leystur. Öryggislega er nauðsynlegt, að þarna séu góðar virkjanir á staðnum. Það er alls ekki unnt að byggja bæði atvinnuvegi og upphitun íbúðarhúsa á slíkri línu, sem liggur yfir fjallasvæði, þótt þau séu á þeirri leið, sem ég rakti áðan, ekki eins torfarin og sumir kunna að ætla. Það verður að vera viðunandi orkuframleiðsla á svæðinu, og ég hygg, að flestir geti verið sammála um það, að betur sé séð fyrir slíkri orkuframleiðslu með góðum vatnsaflsstöðvum en dísilstöðvum, þótt þær þyrftu jafnvel að vera einnig staðsettar nokkrar í einstökum þéttbýliskjörnum, eins og er annars staðar um landið. Ég vil jafnframt enn undirstrika það, að sumar þær virkjanir, sem bent er á, gætu verið mikilvægar fyrir samtengt kerfi landsins alls. Vestfirðir yrðu þá ekki aðeins þiggjandi, heldur eins og í þjóðarbúskapnum almennt mikilvægur veitandi.

Ég vildi fyrst og fremst reyna að draga upp þessa heildarmynd og með henni leggja áherslu á þetta tvennt, að orkuvinnsla fyrir Vestfirði er nokkuð sérstæð, en hana má leysa með virkjunum og hana má einnig styrkja og efla með samtengingu við orkuveitukerfi landsins, sem ég tel ákaflega mikilvæga framkvæmd og eigi að ná til Vestfjarðanna skilyrðislaust eins og annarra landshluta.