29.04.1974
Efri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

286. mál, ávana- og fíkniefni

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. um ávana- og fíkniefni og leggur einróma til, að það verði samþ. óbreytt. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru þeir Ásgeir Bjarnason, Eggert G. Þorsteinsson og Geir Gunnarsson.

Meginefni þessa frv. kemur fram í 1. gr. þess, og er talað um það, að ríkisstj. er heimilt fyrir Íslands hönd að gerast aðili að alþjóðasamningum um ávana- og fíkniefni. Þá er í 2, gr. getið um, að versla og meðferð ávana- og fíkniefna sé óheimil á íslensku forráðasvæði. Og í 3. gr. segir, að ráðh. sé heimilt að ákveða í reglugerð, að efni, sem geti haft hættu í för með sér vegna eiginleika þeirra sem ávana- og fíkniefna, sé þó heimilt að nota í vísindalegum tilgangi og í læknisfræðilegum efnum. Þá segir 5. gr. þessa frv., að brot á l. þessum og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkv. þeim varði sektum allt að 1 millj. kr. og varðhaldi eða fangelsi allt að tveim árum.

Frv. er sett raunverulega til að samræma og búa til heillegri löggjöf um ávana- og fíkniefni en verið hefur. Hér á landi voru fyrst sett lög um ávana- og fíkniefni 1923. Þá voru sett lög 1968 og 1970, en það eru lög nr. 77 frá 1970, sem nú eru í gildi hér á landi. Með l. 1973 var síðan ákveðið að setja sérstakan dómara rannsóknardeildar ávana- og fíkniefna, og sem sagt meiningin með þessu er að búa til heillegri löggjöf um þessi efni. Sannleikurinn er sá, að alþjóðasamstarf er eina von mannkynsins að ráðast gegn því böli, sem ávana- og fíkniefnaneyslan er í dag, og Sameinuðu þjóðirnar hafa um langan tíma unnið ötullega að þessum málum, þótt segja megi, að árangurinn sé kannske ekki stórkostlegur. En því er ekki að neita, að það virðist nú rofa til í þessum efnum víða um heim og það samræmda starf, sem nú fer fram víða um heim, sé að bera einhvern árangur.

Þetta frv. hefur annars verið kynnt hv. deild, og sé ég því ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það, en við leggjum einróma til, að frv. verði samþ.