29.04.1974
Efri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (3545)

200. mál, landgræðslustörf skólafólks

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmrh. hefur haft til athugunar þetta frv. um landgræðslustörf skólafólks, og leggur n. til einróma, að frv. verði samþ. Frv. þessu fylgir nokkuð löng grg., og við 1. umr. þessa máls gerði ég allnákvæma grein fyrir efni frv. og tilgangi með flutningi þess. Ég sé því ekki ástæðu til að fara nú við þessa umr. langt út í efnisatriði málsins, en vil geta þess, að n. sendi frv. til umsagnar nokkrum aðilum, og hef ég hér með höndum umsagnir sem 4 aðilar hafa sent eða standa að.

Það er í fyrsta lagi umsögn frá Landssambandi framhaldsskólakennara. Hún er á þessa leið: „Stjórnarfundur í Landssambandi framhaldsskólakennara hefur fjallað um frv. til l. um landgræðslustörf skólafólks. Undirtektir voru mjög jákvæðar, án þess þó að nokkur samþykkt væri gerð.

Í öðru lagi barst umsögn frá Sambandi ísl. barnakennara, og hún er svo hljóðandi: „Stjórn Sambands ísl. barnakennara hefur borist til umsagnar frv. til laga um landgræðslustörf skólafólks, sbr. bréf menntmn. Ed. Alþingis, dags. 22, febr. 1974. Stjórn Sambands ísl. barnakennara lýsir stuðningi sínum við frv. þetta, en leggur þó til, að orðin „og ófatlaður“ í lok 1. gr. falli niður.“

Landgræðsla ríkisins og Landvernd kusu að hafa samvinnu um athugun á málinu, og liggur hér fyrir umsögn, sem er undirrituð af Sveini Runólfssyni landgræðslustjóra og Hauki Hafstað fyrir hönd Landverndar. Umsögn þeirra er svo hljóðandi:

„Gunnarsholti, 8. mars 1974.

Með tilvísun til bréfs yðar frá 22, febr. 1974, þar sem óskað er umsagnar Landverndar og Landgræðslu ríkisins vegna frv. til l. um Landgræðslustörf skólafólks, flm. Páll Þorsteinsson o.fl., viljum við taka fram eftirfarandi:

Við teljum, að hér sé um mjög athyglisvert mál að ræða, sem geti skipt sköpum í þeim verkefnum, sem frv. fjallar um. Hins vegar er það álit okkar, að til frv. sem þessa þurfum við að vanda mjög vel, svo að þeim tilgangi, sem til er ætlast, verði náð. Við frv., eins og það er, teljum við að þurfi að gera nokkrar veigamiklar breytingar og ekki síður að fá fram reynslu þeirra aðila, sem að þessum málum hafa unnið, og skoðanir þeirra, sem koma til með að hafa framkvæmd málsins með höndum. Það er till. okkar, að skipuð verði milliþn. til að gera till. um frv. til laga um landgræðslustörf og umhverfisvernd skólafólks og í þessa n, eða til starfa með henni verði valdir þeir menn, sem koma til með að hafa framkvæmd laganna með höndum og nokkra reynslu hafa í skipulagningu sjálfboðastarfa.“

Eftir að þessar umsagnir bárust tók n. málið til umr. Ég lét uppi þá skoðun í n, og vil taka það fram hér, að mér virðist, að sú till. að setja þurfi milliþn, í þetta mál, eða sú uppástunga þeirra manna, sem annars eru mjög velviljaðir hugmyndinni, hljóti að vera á nokkrum misskilningi byggð, þ.e.a.s. þeim misskilningi, að til þess sé ætlast og þannig kveðið á í frv., að störf samkvæmt því, ef að lögum verður, skuli koma til fullra framkvæmda þegar í stað. Ég vil við þessa umr. leggja sérstaka áherslu á, að það er ekki hugsun flm. Þess vegna er það tekið skýrt fram í 1. gr. frv., að hér er um heimild að ræða, en ekki skyldu, heimild, sem hægt er að láta koma til framkvæmda smátt og smátt, eftir því sem störf eru undirbúin, og það er mjög skýrt tekið fram í grg. frv., að þetta sé tilgangurinn, því að þar segir á bls. 3 á þskj.:

„Í frv. þessu felst heimild til að kveðja til landgræðslustarfa nemendur í skólum, sem kostaðir eru af ríkinu að einhverju eða öllu leyti. Ekki verður skylt að láta þetta koma til fullra framkvæmda þegar í stað. Ákvæði frv., ef að lögum verða, má framkvæma í áföngum, eftir því sem störfin verða undirbúin og skipulögð samkv. 3. gr. Kemur þá í ljós, hvort hugmynd sú, sem hér er reifuð, stenst próf reynslunnar.“

Þetta tel ég ástæðu til að taka sérstaklega fram, að það hefur frá upphafi verið hugsun flm., að ef þetta yrði að lögum, þá yrði sú heimild, sem í frv. felst, framkvæmd í áföngum, eftir því sem verkefnin verða undirbúin og tilefni þykja gefast til. Það varð því niðurstaða n. að leggja til, að frv. verði samþykkt, og n. sá ekki ástæðu til að leggja til, að þetta eina orð í 1. gr. frv., þar sem segir: „enda sé nemandinn hraustur og ófatlaður,“ — hún sá ekki ástæðu til að gera till. um, að þetta. orð, ófatlaður, sé fellt niður.