29.04.1974
Neðri deild: 113. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3976 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hef margoft áður í umr. um þetta mál lýst skoðunum mínum á þessu frv. og upphaflega frv. um tekjuöflunina og tel ekki ástæðu til þess að endurtaka þær skoðanir hér. Ég hef bent á galla þessa máls og gagnrýnt málsmeðferðina, og er skemmst frá því að segja, að nú hefur borist bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem þessi gagnrýni er undirstrikuð og áréttuð. Framkvæmd á þessum lögum, ef þau verða samþ., mun leiða til mismununar, stórkostlegs kostnaðar og bjóða upp á alls kyns spillingu, sem samfara er slíku styrkjakerfi. Ítreka ég það ekki frekar hér.

Mér finnst í sjálfu sér vera ábyrgðarhluti fyrir þessa hv. d. að afgreiða mál þetta hér með slíkum hraða gegnum d., þegar upplýst er, að borist hefur umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem tekur svo sterkt til orða sem upplýst var hér áðan, og væri eðlilegra, að n., sem með þetta mál hefur farið, skoðaði frv. betur með hliðsjón af erindi eða umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga.

En þar sem mér sýnist svo, að það sé meiningin að keyra þetta mál hér í gegn, þá vildi ég aðeins kveðja mér hljóðs og ítreka fyrri skoðanir mínar og láta það koma fram, að ég mun greiða atkvæði gegn þessu máli.

Í sambandi við þá till., sem nú hefur verið kynnt af hálfu viðkomandi n., og jafnframt þá brtt., sem fram hefur komið frá hv. 10. þm. Reykv., þá er auðvitað ekkert áhorfsmál, að það er góður tilgangur, sem býr að þaki þessum till. En það hlýtur alltaf að vakna sú spurning, hvort gera eigi meira fyrir einn hóp þjóðfélagsins frekar en annan, og ég vek athygli á því, að enda þótt gamalt fólk hafi ekki lengur tekjur, þá er það auðvitað misjafnlega efnað og getur reyndar verið í mjög góðum efnum, þrátt fyrir að það sé hætt að vinna fyrir beinum tekjum. Af því leiðir, að þetta aukna framlag til gamla fólksins getur auðvitað leitt til aukins misræmis og aukinnar mismununar, eins og frv. allt felur reyndar í sér. Tilgangurinn getur verið góður, en við verðum að muna, að tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið.

Ég er ekki á móti þessum till. í sjálfu sér, heldur aðeins vek athygli á því, að þær aðeins árétta það, sem ég hef sagt og Samband ísl. sveitarfélaga hefur undirstrikað, að málið býður upp á alls kyns misnotkun og ranglæti og mun draga slíkan dilk á eftir sér, að stjórnvöld eru ekki búin að bita úr nálinni með það.

Þessi sjónarmið vildi ég láta koma á framfæri hér á lokastigi málsins í þessari d. og endurtek það, að ég mun á þessum forsendum greiða atkvæði gegn þessu frv.