29.04.1974
Neðri deild: 113. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér hefur nú verið lýst tveimur brtt. við frv., þar sem gert er ráð fyrir því í fyrsta lagi, að þeir lífeyrisþegar, sem búa við tekjutryggingartekjur eða tekjutryggingarlaun, fái nokkru ríflegri styrk samkv. frv. en aðrir, og svo er komin hér önnur till. á þskj. 782 um það, að þessi viðbótargreiðsla nái einnig til annarra lífeyrisþega, sem búa við svipaðar tekjur og þeir, sem búa við tekjutryggingalaunin. Ég tel fyrir mitt leyti, að það hafi verið vafasamt út af fyrir sig að fara inn á þessa braut, en þó ekki óeðlilegt. Þeir eru a.m.k. mjög maklegir að fá einhverjar viðbótargreiðslur, sem hér um ræðir. Og þar sem meiri hl. þeirrar n., sem hefur fjallað um frv., leggur þetta til, eða öll n., þá vil ég ekki fyrir mitt leyti standa gegn því. Mér sýnist þá líka einsýnt, að það sé rétt að samþ. till., sem var síðast lýst, brtt. á þskj. 782, því að það er full sanngirni í því, að þeir aðilar fái þá sams konar viðbótargreiðslu. Í till. er að vísu talað um lífeyrisþega, sem hafi svipaðar heildartekjur. Þetta er nokkuð óákveðið. En ég geri ráð fyrir því, þar eð heimild er í frv. til þess að setja reglugerð um framkvæmdina, að þetta yrði tekið þar fram nánar og þá sennilega helst miðað við það, að hér væri um nákvæmlega sams konar tekjur að ræða eða sem sagt tekjumörkin væru þá hin sömu hjá þessum aðilum og hinum, sem búa við tekjutryggingarlaunin.

Ég legg áherslu á það, eins og ég hef sagt hér áður, að þetta mál fái hér fljóta afgreiðslu. Það á eftir að fara í gegnum Ed. Í rauninni er málið búið að vera svo lengi fyrir þinginu, að það er okkur öllum til vansæmdar. Það er búið að vera hér meira og minna á vegum þingsins síðan í desembermánuði, og það er búið að draga þá, sem eiga að verða þessara greiðslna aðnjótandi, alveg óhæfilega á afgreiðslu málsins. Ég mæli því fyrir mitt leyti með báðum þessum till., að þær nái fram að ganga og málið verði nú afgreitt út úr þessari deild og þannig verði þá von um það, að málið fái fullnaðarafgreiðslu á þinginu.