29.04.1974
Neðri deild: 113. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3978 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa vonbrigðum mínum yfir því, hvaða afgreiðslu þetta mál hlaut hér við 2. umr., og ég vil benda á það í sambandi við þær brtt., sem hér hafa komið fram, brtt. n., að hér er verið að reyna að klóra í bakkann. Það er viðurkennt, að þarna sé óréttlæti á ferðinni, og það er reynt að bæta úr einum þætti þess óréttlætis, sem óhjákvæmilega verður við þetta kerfi.

Mér þótti nokkuð merkileg yfirlýsing eða orð hv. 6. þm. Austurl., Vilhjálms Hjálmarssonar, þegar hann sagði, að honum þætti eðlilegra að leggja ábyrgðina, ómakið og kostnaðinn á sveitarfélögin en olíufélögin. Það er umhyggjan fyrir olíufélögunum, sem ræður ferðinni í þessu máli, og það er nokkuð nýtt að heyra frá hv. stjórnarliðum. Væntanlega mun hæstv. ráðh, vera sama sinnis. Það er sem sagt komið á daginn. Því var haldið fram hér áður, að það væri ekki hægt að greiða olíuna niður. Olíufélögin töldu það ófæra leið. Nú er sem sagt talið eðlilegra að leggja allt þetta ómak, ábyrgð og kostnað á sveitarfélögin fremur en olíufélögin, en sennilega er það þó hægt. Á þetta vil ég sérstaklega benda.

Hæstv. viðskrh. taldi vafasamt að fara inn á þá braut, sem brtt. gera ráð fyrir, en fylgír þeim þó. Ég er honum alveg sammála. Vafasamt er að fara inn á þessa braut. Það er verið að gera málið allt enn þá flóknara, og er það þó nóg fyrir.

Ég vek alveg sérstaka athygli á nokkrum þáttum, sem drepið er á í bréfi framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er í fyrsta lagi það, að ríkið hefur alla tíð haft með svona niðurgreiðslumál að gera, en ekki sveitarfélögin. Ég vek sérstaka athygli á þeim mörgu vafatilvikum, sem hljóta að koma upp við framkvæmd laganna, og allri þeirri fyrirhöfn, sem sveitarfélögin hljóta að verða fyrir. Það verður ekki hægt að fara eftir íbúaskránum eins og þær eru gefnar út miðað við 1. des. Það verður að kanna þetta sérstaklega, nánast í hverju húsi, ef menn ætla að reyna að gæta réttlætis í þessu máli. Sveitarfélögin verða að meta, hvaða íbúar búa við olíuupphitun, og kanna það í hverju einstöku tilfelli. Þarna er svo auk þess um að ræða ný verkefni, sem sveitarfélögunum er falið að leysa, náttúrlega án þess að þau fái nokkurn kostnað við það greiddan. Á þetta vildi ég leggja áherslu, og ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, að ég vona, að hv. Ed. sjái til þess, að verstu agnúarnir verði sniðnir af þessu frv.