07.11.1973
Efri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

73. mál, almenn hegningarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv., sem hér liggur til umr., fjallar um vernd manna gegn því, að veist sé að þeim á opinberum vettvangi vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða. Tilefni þess, að lagt er til, að sett verði sérákvæði í almennum hegningarlögum um þetta efni, er það, að Ísland hefur gerst aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna frá 21. des. 1965 um útrýmingu alls kynþáttamisréttis. Samningur þessi var fullgiltur af Íslands hálfu 13. mars 1967, en hann tók gildi 4. jan. 1969. Vegna aðildar Íslands að samningnum var hegningarlaganefnd svokallaðri falið að gera könnun á, hverra breytinga væri þörf á íslenskum refsilögum, og er frv., sem hér liggur fyrir, árangur af þeirri athugun.

Samkv. 4. gr. áðurnefnds samnings skuldbindur aðildarríkið sig til þess að lýsa refsiverða hvers konar starfsemi, sem útbreiðir skoðanir um yfirburði eins kynþáttar yfir öðrum, svo og starfsemi, sem hvetur til kynþáttamismunar eða til ofbeldisverka gagnvart kynþætti eða tilteknum hópi manna vegna litarháttar eða þjóðernis. Þetta lagafrv. er fram borið til að fullnægja þessari samningsskyldu, og er ekki talið, að þörf sé frekari lagasetningar vegna aðildar að samningnum. Samkv. frv.-textanum varðar einungis háttsemi, sem beinist að hópi manna, refsingu, en ummæli, myndagerð eða því um líkt, sem beint er að einstaklingi, varðar við ákvæðið, ef með því er gefið til kynna háð, smánun eða rógur um ákveðinn hóp eða flokk manna. Til brota gagnvart einstaklingum tekur þetta út af fyrir sig ekki, nema þá einstaklingurinn væri skoðaður sem tákn hóps eða fjölda, en eftir atvikum gæti auðvitað þvílík brot sem þessi gegn einstaklingum varðað við ákvæði um ærumeiðingar eða um röskun einkalífs.

Sem betur fer, hefur ekki hér á landi verið mikið um háttsemi, sem undir þetta lagaboð mundi falla. Samt sem áður er, eins og þegar hefur verið tekið fram, talið rétt og sjálfsagt að breyta hegningarlögunum svo sem skylt er í samræmi við þennan samning, sem við höfum gerst aðilar að.

Einnig er þess að geta, að tekið er upp í þennan frv.-texta, sem er efnislega ein gr., ákvæði, sem ekki snertir þann samning, sem hér hefur verið nefndur.

Í norrænum refsilögum hafa um nokkurt skeið verið refsiákvæði um atlögur að hópi manna vegna trúarbragða. Slíkt ákvæði hefur skort í íslensk hegningarlög. Hefur því þótt ástæða til að fella inn í frv.-textann „atlögur vegna trúarbragða“.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta í sjálfu sér litla frv., sem hér liggur fyrir, og til þess er þeim mun minni ástæða frá minni hendi, þar sem frv. fylgir mjög ítarleg greinargerð. Sú greinargerð, sem hefur verið prentuð með frv., er þó ekki nema hluti af þeirri greinargerð, sem fylgdi frv. frá hegningalaganefndinni, og var það af hagkvæmisástæðum, að ekki var lagt í að prenta hana í heild. En nefnd sú, sem frv. fær til athugunar, getur að sjálfsögðu fengið þá greinargerð frá rn.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.