29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

15. mál, orkulög

Stefán Gunnlaugsson:

Ég skal ekki verða til þess að orðlengja þessar umr. úr hófi fram, en ég hef gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls fyrr í þessum umr. Ég sé því ekki ástæðu til að endurtaka skoðun mína varðandi efni frv. Það hefur ekkert það komið fram, eftir að ég talaði í þessu máli, sem gefur mér sérstaka ástæðu til andsvara.

Tilefni þess, að ég kem hér í ræðustól nú, er að vekja athygli hv. þdm. á því, að okkur hefur borist bréf frá bæjarstjóranum í Keflavík víðvíkjandi þessu máli. Keflavíkurbær á töluverðra hagsmuna að gæta í því, að þetta mál nái fram að ganga. Það virðist a.m.k. vera álit allra bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Keflavíkur. í þessu bréfi segir, að á fundi bæjarstjórnar Keflavíkur 16. þ.m. hafi svo hljóðandi till. verið samþykkt með 9 shlj. atkv., — með leyfi hæstv. forseta er till. svo hljóðandi:

„Bæjarstjórn Keflavíkur skorar á Alþingi að samþykkja fram komið stjórnarfrv. um breyt. á l. nr. 58 29. apríl 1967, orkulögum, með brtt. á þskj. 21 og 455, enda verði tryggt, að sveitarfélögum og/eða samtökum þeirra verði veittur umráða- og hagnýtingarréttur jarðhita, sem hagkvæmt þykir að virkja til hitunar húsa í viðkomandi sveitarfélögum án gjaldtöku ríkisins, svo sem með leyfis- eða vinnslugjöldum.“

Svo mörg eru þau orð. Meginefni þeirra brtt., sem vitnað er til í þessari samþykkt varðandi till. á þskj. 21, sem ég er flm. að, er það, að sveitarfélög skuli eiga allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum, þar sem landareign er í eigu sveitarfélagsins, þrátt fyrir önnur ákvæði laganna.

Þá er brtt. á þskj. 455 frá hv. þm. Gils Guðmundssyni, sem gerir ráð fyrir því, að ef sveitarfélag eða samtök sveitarfélaga æski eftir vinnsluleyfi vegna hitaveituframkvæmda á háhitasvæði í eigu ríkisins, skuli ríkinu heimilt að veita slíkt leyfi án sérstaks leyfisgjalds.

Ég vildi sem sagt ekki láta hjá líða að vekja athygli hv. þdm. á þessari samþykkt bæjarstjórnar Keflavíkur.