29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3988 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. í fréttum hljóðvarpsins í hádeginu í dag og aftur í kvöld og í fréttum sjónvarpsins í kvöld voru upplýsingar, sem þegar í stað munu hafa vakið þjóðarathygli. Þær upplýsingar voru um ferðir austurþýska verksmiðjuskipsins Junge Welt, sem ríkisstj. veitti fyrir fáum vikum leyfi til að koma tvívegis til Reykjavíkurhafnar til þess að skila af sér áhöfnum austur-þýskra togara og taka við nýjum áhöfnum, sem austur-þýskar flugvélar fengu leyfi til þess að fljúga með til Keflavíkurflugvallar.

Þegar um þessa leyfisveitingu fréttist fyrir nokkrum vikum, var haldinn fundur í utanrmn., þar sem gefnar voru upplýsingar um málið, og sama dag fóru fram ítarlegar umr. hér á hinu háa Alþ., í Sþ., um þetta mál. Þar var því haldið fram af hálfu hæstv. ríkisstj. og þó alveg sérstaklega af hálfu hæstv. sjútvrh., Lúðvíks Jósepssonar, að þessi leyfi hefðu verið veitt vegna þess, að hinir austur-þýsku togarar, sem veiddu í þetta móðurskip, stunduðu veiðar sínar við Kanada, við Nýfundnalandsstrendur, en fjarri Íslandi og Íslandsmiðum og þess vegna snerti það að engu leyti íslenska hagsmuni, sverti að engu leyti íslenska fiskveiðihagsmuni, þótt þessi fyrirgreiðsla væri veitt.

Auðvitað leyfði enginn sér að bera á móti því, að hér væri um stórkostlega fyrirgreiðslu fyrir austur-þýska togveiði að ræða. En þessi fyrirgreiðsla var varin með því, að íslenskum fiskveiðihagsmunum væri hún í sjálfu sér algerlega óviðkomandi, því að ekkert væri tekið af þeim fiski, sem íslendingar gætu veitt hvort eð væri. Á það var samt sem áður bent, að í öllu falli væri það lítið drengskaparbragð við eina helstu bandalagsþjóð okkar í baráttunni fyrir aukinni landhelgi að auðvelda austurþýskum togurum og austur-þýsku verksmiðjumóðurskipi veiðar nálægt ströndum þess lands, jafnvel þó að um kvóta væri að ræða, vegna þess að engin trygging væri fyrir því, að hægt væri að veiða upp í kvótann, nema sérstök fyrirgreiðsla kæmi til, og þá fyrirgreiðslu hefðu Íslendingar nú veitt.

Við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, sem töluðum, gagnrýndum þetta harðlega, átöldum þetta harðlega, töldum þetta vera hin mestu mistök og í raun og veru í algerri andstöðu við þá stefnu, sem fylgt hefur verið í slíkum og hliðstæðum málum í meira en hálfa öld á grundvelli fiskveiðilaganna frá 1922. Ég leyfði mér jafnvel að staðhæfa, að telja mætti, að hér væri ekki aðeins um nýtt fordæmi að ræða, heldur jafnvel, að telja mætti þetta brot á fiskveiðilöggjöfinni.

Síðan gerist það nokkru seinna, að sjónvarpið býður okkur hæstv, sjútvrh. til orðaskipta í einum fréttaskýringaþætti um þetta mál. Þar endurtók ég þá almennu gagnrýni, sem ég hafði lýst hér á hinu háa Alþ., taldi þessa leyfisveitingu vera í ósamræmi við þá stefnu, sem fylgt hefði verið í meira en hálfa öld, og jafnvel brot á henni, og að leyfisveitingin væri ekki aðeins skaðleg, heldur hefði hún í raun og veru verið algerlega ástæðulaus. Hæstv, sjútvrh. endurtók fyrri ummæli sín, að hér væru íslenskir hagsmunir að engu leyti skertir, vegna þess að skipin væru á veiðum víð Nýfundnalandsstrendur og þessar veiðar því Íslendingum og íslenskum hagsmunum algerlega óviðkomandi. Ég sagði í þessu sjónvarpsviðtali, að ég hefði um það öruggar fregnir frá íslenskum skipstjóra, að hann hefði séð þetta verksmiðjumóðurskip og austur-þýska togara í kringum það, bæði fyrir vestan og austan ísland, bæði vestur af Víkurál og líka fyrir austan landið.

Við höfum deilt um það, hversu stórt skipið hafi verið. Ég hef haldið því fram hér á hinu háa Alþ., að skipið væri yfir 10 þús. lestir, hæstv. sjútvrh. hefur haldið því fram, að skipið væri venjulegur austur-þýskur skuttogari, einhvers staðar á milli 1500 og 3000 lestir að stærð. Þegar skipið kom hingað, gátu allir gengið úr skugga um, að það var rétt, sem ég hafði sagt, að skipið er rúmar 10 þús. lestir. Hann endurtók ummæli sín samt í sjónvarpinu, hæstv. sjútvrh., og ég leiðrétti það ekki þá, sem ég hefði þó getað, að togararnir, sem veiða í móðurskipið, eru ekki af þessari stærð, heldum miklu minni, einhvers staðar frá 600–800 tonn, svo að það er allt rangt, sem hæstv. ráðh. sagði hér í þinginu um málið og í sjónvarpinu. Hann nefndi aldrei réttu stærðina á móðurskipinu, sem er rúmar 10 þús., og aldrei réttu stærðina á togurunum, sem veiða í það, sem eru 600–800 tonn. Hann var alltaf að tala um 1500–3000 tonna skipastærð, sem aldrei hefur verið til í þessu sambandi.

Þegar ég upplýsti eftir íslenskum skipstjóra, að hann hefði séð þetta verksmiðjumóðurskip og togað í kringum það við Ísland, þá sagði hæstv. ráðh., að það væri ekkert undarlegt, þótt hann kynni að hafa séð það, því til þess að komast frá Austur-Þýskalandi til Nýfundnalands þyrfti að fara fram hjá Íslandi, — það væri ekkert undarlegt, þótt skipið hefði sést. Að vísu er þetta stórmerkilegur krókur, sem skipið tekur á sig, ef það er bara að sigla frá Austur-Þýskalandi til Nýfundnalands. Það er óneitanlega afskaplega undarleg leið að sigla jafnnálægt íslandi, bæði vestan megin og austan megin, og þessi skipstjóri sagðist hafa séð þetta skip gera.

Ég sagði í þessu sjónvarpsviðtali, að ég skyldi auðvitað ekki draga í efa þær upplýsingar austurþýskra stjórnarvalda og hæstv. sjútvrh., að þegar beðið hefði verið um leyfið, kynni þetta skip og togararnir, sem veiða í það, að hafa verið við Nýfundnalandsströnd. En hvaða tryggingu hefði ráðh. fyrir því, hvaða tryggingu hefði ríkisstj, fyrir því, að þessi floti, veiðiskipin og verksmiðjuskipið, flytti sig ekki á leyfistímanum frá Kanadaströnd og nær Íslandsströndum? Það væri alls ekki ósennilegt, það gerðist einmitt oft á þessum árstíma, að þetta ætti sér stað. Við þessu fékkst ekkert svar, engin viðbrögð við þessu. En nú er það komið í ljós, það hefur komið í ljós í dag, að undanfarið hafa þessi veiðiskip verið að veiðum vestur af Vikurál, um 9U sjómílur frá landi, og þetta umrædda móðurskip, sem búið er að koma einu sinni til að skipta um áhafnir, hefur verið þar og tekið við afla frá þessum austur-þýsku togurum. Þetta er upplýst og staðfest af opinberum aðilum, af Landhelgisgæslunni, sem hefur séð skipið, og skipið er núna á þessari stundu á siglingu frá veiðisvæðinu vestur af Víkurál, sem tvímælalaust verður að teljast til Íalandsmiða, og til Reykjavíkur og er væntanlegt til Reykjavíkur um tíuleytið í kvöld.

Ég vek máls á þessu hér vegna þess, að ég tel ekki koma til nokkurra mála, að skipið fái afgreiðslu hér, hliðstæða og það fékk fyrir skömmu, nema mái þetta verði að fullu upplýst.

Það er nú þegar orðið augljóst mál, að sjútvrh. hefur farið með rangt mál hér á hinu háa Alþ. og hafði farið með rangt mál í sjónvarpi frammi fyrir þjóðinni allri. Hann fór með rangt mál um stærð verksmiðjuskipsins og stærð veiðiskipanna. Látum það vera, það má segja, að það sé aukaatriði, en það, sem skiptir meginmáli, er, að hann fór með rangt mál að því leyti, að þessi floti væri og veiddi eingöngu við Nýfundnaland. Nú er það sannað og upplýst af íslenskum yfirvöldum, að skipið og flotinn hefur að undanförnu verið að veiðum á Íslandsmíðum.

Það kom fram í sjónvarpinu í kvöld, að hæstv. sjútvrh. hefur skrifað utanrrn. og krafist þess eða óskað þess við utanrrn., að það léti austurþýska stjórnarfulltrúa hér gefa upplýsingar um málið, hvort það væri raunverulega rétt, að skipin hefðu verið að veiðum á þeim stað, sem Landhelgisgæslan telur þau hafa verið. Í bréfinu er óskað eftir því, að utanrrn. afturkalli leyfið, ef þetta reynist rétt. Þessari ráðstöfun ráðh. fagna ég mjög, tek mjög undir hana og fagna henni einlæglega. Hún er satt að segja það fyrsta rétta, sem ráðh. gerir í málinu, og mátti það ekki lengur dragast, að hann gerði eitthvað rétt í því hneykslismáli, sem hér er um að ræða. En ég legg á það áherslu, að skipið verði ekki afgreitt fyrr en austur-þýski sendifulltrúinn er búinn að svara og gefa tæmandi skýringar á málinu, því að hér er satt að segja um eitt furðulegasta mál að ræða, sem komið hefur upp hér á undanförnum árum.

Mér er kunnugt um, að það hefur verið boðað til fundar í utanrmn. á morgun. Fulltrúar Sjálfstfl. í n. hafa óskað eftir fundi í n., eins og ásinum tíma, og verður málið vonandi þar skýrt rækilega. En ég tel ekki nóg, eins og málum nú er komið, að upplýsa bara utanrmn. um sannleikann í málínu. Eitthvað hefur hér farið alvarlega úrskeiðis einhvers ataðar, og það er ekki nægilegt, eins og málum er komið, að bara utanrmn, fái trúnaðarupplýsingar um málið. Það, sem ég tel nauðsynlegt og vil skora á hæstv. ríkisstj. að gera, er að birta Alþ. strax á morgun öll skjöl, sem farið hafa á milli varðandi þetta mál. Beiðni austur-þýsku stjórnvaldanna um lendingarleyfið, — það var eina leyfið, sem þau þurftu á að halda, — hlýtur að hafa verið skrifleg, og þing og þjóð verða að fá að sjá, hvernig þessi beiðni hefur verið orðuð, hvað í henni segir. Svör íslensku ríkisstj;. hljóta að hafa verið skrifleg. Þau hljóta að hafa verið byggð á ákveðnum forsendum, og þau hljóta að hafa verið háð tilteknum skilyrðum, ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. hafa sagt um þetta mál hér á hinu háa Alþ. og hæstv. sjútvrh, sagði í sjónvarpinu. Það væri auðvitað fullkomlega ósæmilegt, ef annað eins mál og þetta hefði verið afgreitt með munnlegum samtölum milli annaðhvort ráðh. og stjórnarfulltrúa eða starfsmanns í stjórnarráðinu og erlends stjórnarfulltrúa. Það væri fullkomlega ósæmileg afgreiðsla, og ég trúi því ekki, að það hafi átt sér stað. Hér hljóta að hafa farið plögg á milli, og þau plögg eiga þm. að fá að sjá og þau plögg á þjóðin að fá að sjá. Ef munnlegar viðræður skipta verulegu máli í þessu sambandi, þá á að gera frásögn af þeim og afhenda alþm. hana líka, þannig að fjölmiðlar geti fengið hana og skýrt þjóðinni frá henni.

Hér er sannarlega um alvarlegt mál að ræða. Hér gæti verið um það að ræða, að erlend ríkisstj. gefi íslenskri ríkisstj. rangar upplýsingar um staðreyndir, segi rangt til um það, hvar flotinn hafi verið að veiða og hvar hann ætli sér að veiða, og fái því stórkostleg fríðindi á röngum forsendum. Það er ekkert smámál í milliríkjaviðskiptum, ef ein ríkisstj. segir annarri ósatt og herjar út úr henni stórkostleg fríðindi með röngum upplýsingum. Það er ekkert smámál. Hitt væri ekki síður alvarlegt, ef það kynni að koma í ljós, — ég fullyrði ekkert um það heldur, því að ég hef ekki séð plöggin, — en það væri ekki síður alvarlegt, ef það kynni að koma í ljós, að íslenska ríkisstj, hefði ekki sagt þingi og þjóð allan sannleikann um þetta mál. Það væri líka og ekki síður alvarlegt.

En mergur málsins er auðvitað sá, og þess vegna kveð ég mér hljóðs hér strax á þessum kvöldfundi, að leggja áherslu á, að ef í ljós kemur, að leyfin hafi verið veitt á röngum forsendum, ef í ljós kemur, að skipin hafi verið að veiðum fyrir vestan Víkurál, þá eigi að afturkalla þau tvö leyfi, sem enn eru óafgreidd, og ekki afgreiða skipið, sem hingað kemur kl. 10 í kvöld. Ég treysti því, að hæstv. sjútvrh. treysti sér til þess að gefa jákvæð svör við þessum tilmælum.