29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (3609)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur fram komið hér, ritaði sjútvrh. í dag bréf til utanrrn. varðandi þetta mál. Mér þykir rétt að lesa upp þetta bréf, sem sent var upp úr hádeginu í dag. Það er — með leyfi hæstv. forseta — þannig:

„Þar sem orðrómur hefur verið um það, að fiskveiðifloti Þýska alþýðulýðveldisins, sem fengið hefur loforð um lendingarleyfi þriggja flugvéla hér á landi í sambandi við mannaskipti á úthafsveiðiflota muni e.t.v. stunda veiðar á fiskimiðum við Grænland, þá óskar sjútvrn, eftir því, að leitað verði þegar í stað eftir yfirlýsingu fulltrúa Þýska alþýðulýðveldisins hér á landi um það, að þann tíma, sem umrædd mannaskipti fara hér fram, stundi floti þeirra fiskveiðar frá Kanada- og Nýfundnalandsmiðum, en hvorki á Íslands- né Grænlandsmiðum. Fáist ekki slík yfirlýsing, leggur sjútvrn. til, að lendingarleyfin verði þegar í stað afturkölluð, enda var umsögn rn. um mannaskiptin byggð á upplýsingum um, að hér væri einvörðungu um veiðar á Kanada- og Nýfundnalandsmiðum að ræða og veiðar upp í fastákveðinn kvóta af fiski“

Þetta er það bréf, sem sjútvrn. sendi í dag, eftir að fréttir höfðu borist um það, að grunur léki á, að þessi skip hefðu stundað veiðar á miðunum við Austur-Grænland. Ég get ekki sagt um það, hvað frekar hefur gerst í málinu, hef ekki haft aðstöðu til að afla mér upplýsinga um það, hvort utanrrn. hefur kallað fyrir sig þennan fulltrúa í dag eða gerir það á morgun, en ég vænti, að það verði sem fyrst. Mér sýnist það, sem hér er um að ræða, vera að liggi ekki fyrir skýlaus yfirlýsing um, að skipin veiði á þeim slóðum, sem upplýsingar voru gefnar um, að þau mundu veiða, beri að afturkalla lendingarleyfi flugvélanna. Um annað er ekki að ræða. Við höfum ekki aðstöðu til þess að banna þeim mönnum, sem komnir eru hér á land, að stíga út í skip, sem kemur á ytri höfnina í Reykjavík. Um það er ekki að ræða. Það er ekki í okkar valdi á einn eða neinn hátt.

En í sambandi við þetta mál vil ég aðeins taka það fram til frekari áherslu á því, sem ég hef sagt áður, að þegar þetta mál var borið undir okkur í sjútvrn., voru okkur veittar þær upplýsingar, að hér væri, eins og fram hefur komið áður í umr., um að ræða veiðar þessa úthafsflota þeirra upp í tiltekinn kvóta, sem við vissum mætavel um, að samningar lágu fyrir um, og veiðar þessa flota færu fram á Nýfundalands- og Kanadamiðum. Það var, eins og ég hef áður sagt, út frá þessu, sem við töldum, að hér gæti ekki verið um slíkt mál að ræða, að ástæða væri fyrir okkur í sjútvrn, að amast sérstaklega við þessu, enda lá það auðvitað alveg ljóst fyrir, að Þjóðverjar gátu komið hingað, eins og aðrir sjómenn gera í sambandi við veiðiflota annarra þjóða, þeir gátu að sjálfsögðu komið hingað til lands með farþegaflugvélum, þó að þeir kæmu ekki með sínum eigin flugvélum, og þeir gátu að sjálfsögðu gengið hér um borð í sín skip, eins og gerist með breska sjómenn, vestur-þýska sjómenn og aðra í mörgum tilfellum. Okkur fannst sem sagt ekki ástæða til að standa gegn þessu miðað við þessar forsendur.

Ég hygg, að það hafi verið lögð fyrir utanrmn. á sínum tíma, enda gerð grein fyrir því hér á Alþ., þau bréf, sem hér fóru á milli og okkur varðaði. Í því bréfi, sem barst frá þýska alþýðu lýðveldinu um þetta efni og dags. er 25. febr. 1974 og við höfum fengið afrit af, er aðeins farið fram á leyfi í þessum efnum, en síðan tilgreint, að sérstakur fulltrúi frá fiskveiðideild þeirra komi hingað og muni gera nánari grein fyrir þessari starfsemi. Það var í gegnum austurþýsku skrifstofuna hér, sem þessar upplýsingar voru gefnar, sem við miðuðum okkar umsögn við. Ég vil einnig í þessu sambandi vitna í það, að íslenska útvarpið og sjónvarpið höfðu nákvæmlega sömu fréttir eftir þessum aðilum um veiðar þessara skipa og okkur höfðu verið gefnar áður.

Það var vitanlega alltaf ljóst, að það var ekki á okkar valdi að veita neitt öryggi um, að það yrði ekki brotið, sem okkur hafði verið sagt í þessum efnum, og reynist svo vera, að hér hafi verið farið að á annan veg en yfir var lýst, tel ég sjálfsagt að kippa leyfunum til baka, eins og ég hef þegar lagt til og gerði um leið og ég heyrði fréttina um þetta í hádegisútvarpi.

Það er hins vegar alveg rangt, sem hv. 7. þm. Reykv. er alltaf að klífa á, að ég hafi gefið rangar upplýsingar bæði á Alþ. og í sjónvarpi um þetta mál. Þær umr., sem hér fóru fram á Alþ., liggja fyrir skriflegar, og það er auðvelt að sýna það og sanna með því að lesa það, sem hér var haft yfir, og það, sem hann sagði um málið, hv. 7, þm. Reykv. Gylfi Þ. Gíslason, þar sem hann lagði í löngu máli út af því, að hér væri um sérstakt ryksuguskip að ræða, 10 þús. tonn að stærð, og á þann hátt væri verið að veita hér aðstöðu til miklu stórkostlegri veiða en áður hefði þekkst. Þessu mótmælti ég og sagði, að þetta væri rangt, enda höfðu okkur verið gefnar upplýsingar um, að þetta væri hinn almenni skuttogarafloti þeirra, en verksmiðjuskip þeirra eru af stærðinni 1500–3000 tonn. Hins vegar, að þessum flota hafi fylgt sérstakt móðurskip, sem ekki stundar veiðar samkv. þeirra eigin upplýsingum og tekur afla úr minni skipum sem ekki eru verksmiðjuskip, vitanlega hef ég ekki haldið neinu fram um það. Ég hafði enga aðstöðu til þess, og það var engin ástæða til þess, að þessir fulltrúar upplýstu okkur um alla hluti og einnig stærð á því skipi, sem kynni að koma hingað inn í höfnina. En veiðarnar átti að stunda af þessum skipum, sem hér var um að ræða, og það reyndist vera rétt, en ekki af neinu 10 þús. tonna skipi. Það er því algerlega ástæðulaust fyrir hv. 7. þm. Reykv. að vera að stagast á þessu, því að þessi gögn liggja hér fyrir. Hann hélt því fram í umr., að stefnubreytingin, sem hann vildi halda fram, að hér hefði verið tekin upp til breytinga frá þeirri grundvallarstefnu, sem mótuð var með l. frá 1923, hún lægi einmitt í því að veita svona stóru skipi aðstöðu til þess að veiða hér miklu meira magn. En það var vitanlega ekki um neina slíka stefnubreytingu að ræða.

Ég skrifaði eftir hv. þm., að hann sagði m.a. um þetta, þegar hann var búinn að lýsa þessu stóra ryksuguskipi, sem veiddi af þessari óskaplegu orku, þá sagði hv. þm. orðrétt: „Það er í þessu, sem hin nýja stefna er fólgin, að slíkum ryksugum er með þessu leyfi gert auðveldara að veiða meira magn.“ Það var þetta, sem var rangt og ég benti á, svo að það er vitanlega alveg óþarfi að vera að staglast á þessu sí og æ. Þó að hann hafi fundið, að hann hafi farið eitthvað halloka í útvarpsþætti, þarf hann ekki að koma hér upp sí og æ út af þessu sama atriði.

Það, sem ég hef sagt um þetta mál, er fullkomlega rétt, og mér er vel kunnugt um, að þeir aðilar í sjútvrn., sem höfðu með mál þetta að gera, byggðu álit sitt á þessum upplýsingum, sem veittar voru. Þær voru ekki aðeins veittar okkur, heldur kom það, eins og ég sagði, greinilega fram í fréttum, bæði hjá útvarpi og sjónvarpi, að þeir höfðu einnig fengið þessar fréttir frá sömu aðilum. Reynist það rangt, hafi hér verið gefnar rangar upplýsingar eða staðið síðan að framkvæmdinni á annan hátt en ætlast var til, þá ber vitanlega að snúast hart við, fella leyfið niður.

Hér hefur ekkert stórt gerst. Það er alrangt og aðeins gert í pólitískum tilgangi að reyna að mála hér skrattann á vegginn, eins og oft áður hjá þessum hv. þm., að tala um, að hér hafi einhver stóratburður gerst, rétt eins og það sé eitthvað nýtt, að erlendur togarafloti, bæði frá Austur-Þýskalandi og öðrum löndum, stundi hér veiðar 90 mílur frá landi. Ekki er það á okkar valdi að stöðva slíkt. Það er vitanlega ekkert nýtt. Það er alveg rétt, að í þetta eina skipti, sem þeir hafa þegar fengið leyfi til þess að skipta hér um skipshöfn, hafi þeir breytt á þann hátt, sem nú litur út fyrir, að sé, þá eru þeir að misnota það leyfi, sem þeir fengu, a.m.k. miðað við þær forsendur, sem við í sjútvrn. miðuðum við. Það var ekki okkar ætlan að greiða fyrir þeim á einn eða neinn hátt á þeim fiskimiðum, þar sem við Íslendingar stunduðum veiðar. En hv. 7, þm. Reykv. og aðrir geta auðvitað haft það eins og þeir vilja. Ef þeir vilja þrástagast á því og halda því fram, að það hafi verið ætlun okkar í sjútvrn. að ryðja braut fyrir þessar sérstöku veiðar hér við land þrátt fyrir okkar yfirlýsingar, þá þeir um það, en ég óttast ekki mikið, að landsmenn almennt leggi trúnað á slíkan málflutning.

Ég skal svo ekkert um það segja, hvaða gögn liggja í utanrrn. varðandi þetta mál. Við höfum fengið frá utanrrn. eitt lítið bréf, þar sem við í sjútvrn, erum beðnir um umsögn um það, hvort rétt sé að veita lendingarleyfi fyrir þessar flugvélar í þessu skyni, og fengum þá um leið afrit af hinni formlegu beiðni Þýska alþýðulýðveldisins, sem komið hafði til utanrrn. En af skiljanlegum ástæðum bæði öfluðum við okkur upplýsinga um málið og það munu þeir að sjálfsögðu hafa gert líka í utanrrn., og leyfin voru byggð á þeim forsendum, sem hér hefur verið greint frá.

Það er svo sjálfsagt, að þessi mál verði könnuð frekar og það fái að koma í ljós, hvort hér hafi verið staðið að málum á annan veg en ætlast var til. Reynist það vera svo, þá er stefna okkar í sjútvrn. skýr. Þá teljum við, að það eigi að svipta þá þessu leyfi tafarlaust.