29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3997 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það hefur ekki mikla þýðingu að vera að ræða þetta mál við hv. 7. þm. Reykv. Hann getur jafnvel sagt slíkar furðusögur eins og það, að skip skilji eftir trollið eins og ekkert sé á floti og komi svo að því aftur. Það væri ansi gaman að sjá menn gera þetta. En hvað um það, við skulum ekki vera að ræða um það. En það er líka afskaplega merkileg skilgreining á ryksugutogara, þegar menn hafa fundið þetta ágæta nafn: ryksuga, og svo sogar hún ekkert, svo veiðir hún alls ekki. Það var meiri ryksugan 1 Nei, við þekkjum vel þessi skip, sem menn hafa stundum kallað ryksugutogara. Það er alveg rétt, að þar er um sérlega stór skip að ræða, sem yfirleitt hafa verið búin miklu stærri og öflugri veiðarfærum en þessi almennu skip hafa og hafa þótt ganga nær stofninum en aðrir. En þetta er ekki það, sem skiptir máli. Það hefur komið nógu skýrt fram, hvernig þessu er varið. En það, sem ég ætlaði fyrst og fremst að víkja hér að, voru nokkur orð, sem komu hér fram hjá hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen.

Hann sagðist ekki vera fyllilega ánægður með orðalag í bréfi sjútvrn., sem sent var í dag, þar sem talað var um að fá ský lausa yfirlýsingu fulltrúa Þýska alþýðulýðveldisins um, að þessi skip stunduðu ekki veiðar, hvorki á Íslandsmiðum né Grænlandsmiðum. Ástæðan til þess, að þetta var orðað á þennan veg, var, eins og segir í bréfinu, að það sé orðrómur um, að þessi skip stundi veiðar á þessum slóðum. Víð gátum ekki sagt neitt annað en þetta, því að þær fréttir, sem þá höfðu borist, einmitt sögðu, að það léki grunur á því, að þau stunduðu þarna veiðar, en fréttastofur útvarpsins höfðu þá ekki fengið nánari sannanir fyrir þessu. Vegna þess að orðrómur var um þetta, vildum við fá skýlausar yfirlýsingar um það frá þessum aðila, sem hér var milligöngumaður, að skipin stunduðu ekki veiðar á þessum slóðum. Við gátum vitanlega ekki í krafti þeirra upplýsinga, sem lágu fyrir um hádegi í dag, sagt, að þau stunduðu þarna veiðar. Við höfðum ekki sannanir um það.

Ég get tekið undir með hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, að liggi það fyrir staðfest af íslensku Landhelgisgæslunni, að þessi skip hafi stundað veiðar á þessum slóðum, þá álít ég, að engin yfirlýsing frá umboðsmanni Austur-Þjóðverja hér á landi dugi, þá eigi að svipta þá þeim leyfum, sem þeir hafa fengið, af því að þá hafi þessi leyfi fengist út á rangar upplýsingar. En það var vitanlega engin ástæða til þess, þegar við skrifuðum bréfið úr hádegi í dag, að við slægjum því föstu, að þetta væri svona. Vænti ég, að hv. þm. viðurkenni þetta. En sem sagt, sé það staðfest af íslensku Landhelgisgæslunni, að skipin stundi veiðar á þessum slóðum, tel ég sjálfsagt að svipta þau þessu leyfi. Það hefur verið alveg skýrt af okkar hálfu í sjútvrn., að þetta var miðað við það, að þessi skip væru að veiða í tiltölulega mjög litinn og mjög takmarkaðan kvóta, sem þau áttu á miðunum við Nýfundnaland og Kanada, og kæmu því hvergi nærri okkar miðum. Þá sáum við ekki ástæðu til að amast við þessu, ekki í þetta skipti, og þannig voru leyfin veitt.

Ég hef skýrt frá afstöðu okkar og tel, að við höfum gert það eitt í þessu máli, sem eðlilegt var, og við höfum brugðið eins fljótt við og við gátum. Við höfðum fulla ástæðu til þess að trúa því, sem fyrir okkur var lagt af þessum aðilum, þar sem það kom líka heim við okkar upplýsingar annars staðar frá, og þeir áttu úthlutaðan kvóta á þessum miðum, sem þeir áttu rétt til að veiða á þessu tímabili.

Ég þarf svo ekki að ræða þetta mál frekar. Það verður eflaust athugað nánar, hvernig á því stendur, að gefnar hafa verið rangar upplýsingar um veiðar þessara skipa, eða þá það, að einhverjir aðilar á þeirra vegum, skipstjórnarmennirnir, hafa brotið þær reglur, sem þeir áttu að vinna eftir.