29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4001 í B-deild Alþingistíðinda. (3618)

324. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. þetta til breyt. á l. um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins er flutt samkv. beiðni samninganefnda L.Í.Ú. og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands, en þessir aðilar gerðu sín á milli samkomulag í sambandi við síðustu kjarasamninga um það, að ákveðnar breyt. skyldu gerðar á þessari deild Aflatryggingasjóðs, hinni svonefndu áhafnadeild, en hún greiðir tiltekinn hlut af fæðiskostnaði sjómanna á fiskiskipum. Eins og segir í grg. frv. eru í frv. teknar óbreyttar óskir þessara aðila, eins og þær eru settar fram í bréfum til sjútvrh., dags. 9. mars og 3. apríl 1974, en þessi bréf eru undirrituð af Kristjáni Ragnarssyni f.h. L.Í.Ú., Ingólfi Stefánssyni f.h. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Jóni Sigurðssyni f. h. Sjómannasambands Íslands.

Efni þessa frv. er í stuttu máli það, að gert er ráð fyrir nokkurri hækkun á greiðslu upp í fæðiskostnað og nokkuð breytilegri hækkun í hinum ýmsu skipaflokkum. Þannig eru fæðisgreiðslur í stærsta skipaflokknum, sem voru á s.l. hausti kringum 210 kr. á dag, en gert var ráð fyrir, að mundu verða 240–260 kr. á næsta ári samkv. vísitölu, — það er gert ráð fyrir því, að þær hækki upp í 320 kr. á dag. Þetta á við skip, sem eru 150 rúmlestir eða stærri. Á sama hátt er um að ræða hliðstæða hækkun í næsta stærðarflokki, þar sem eru skip frá 12 rúmlestum upp í 150 rúmlestir að stærð. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á fæðisgreiðslunum til minnstu skipanna, þ.e.a.s. til trillubáta eða smábáta undir 12 rúmlestum.

Ég tel, að það verði að athuga sérstaklega, þegar kemur til athugunar í n., hvort rétt sé að halda sér við þessar till. alveg óbreyttar, þó að þær hafi verið teknar óbreyttar upp í frv. Það er sem sagt gert ráð fyrir mjög hliðstæðum fæðisgreiðslum og nú er til þeirra, sem eru á minnstu bátunum, og jafnvel er þar frekar um lækkun að ræða.

Það er ekki fullkomlega séð, hvort áhafnadeildin stendur undir þessum auknu útgjöldum miðað við þá tekjustofna, sem hún býr við, en þó er talið líklegt, að svo geti orðið á árinu, en á s.l. ári mun hafa orðið um nokkurn tekjuafgang að ræða hjá áhafnadeildinni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. að þessu sinni, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.