30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4006 í B-deild Alþingistíðinda. (3625)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það má með sanni segja, að nú liði enginn dagur hér á hinu háa Alþ., án þess að stórtíðindi gerist. Hér gerðust stórtíðindi í gærkvöld, hér gerðust jafnvel enn þá meiri tíðindi í dag, svo að það fer að verða gaman að sitja á hinu háa Alþ.

Ég ætla að snúa mér fyrst að þessu allra síðasta. Það vakti almenna athygli, það vakti undrun alþjóðar, þegar einn af ráðh., einn af hásetunum í ríkisstj., ekki austur-þýskri ríkisstj., heldur íslenskri ríkisstj., sem þó hefur góð tengsl við þá austur-þýsku, - þegar einn af ráðh. gefur yfirlýsingu um, að forsrh. hafi umboð allra stjórnarflokkanna til þess að rjúfa þing og efna til kosninga í haust. Það hefur mér vitanlega aldrei gerst áður, að ráðh., — ég segi: óbreyttur ráðh., ef ég má tala þannig um jafnvirðulegan mann og hæstv. iðnrh., — skuli gefa slíka yfirlýsingu að forsrh. fornspurðum, því að það er nú komið í ljós, að hann hafði ekkert samráð haft við stjórnarformann sinn, áður en hann gaf yfirlýsinguna. Þetta er óskammfeilni, sem er dæmalaus. En það er mál iðnrh. og forsrh., ég skal ekkert blanda mér í það. Það mega þeir gera upp sín á milli. Mér skilst, að þeir séu þegar byrjaðir að gera það eftir yfirlýsinga hæstv. forsrh. hér áðan að dæma. (Gripið fram í.) Nú kem ég að Hannibal, en áður ætla ég að segja örfá orð um hina merku yfirlýsingu hæstv. forsrh. í ræðustólnum rétt áðan.

Hann sagði, að hann hefði fullt umboð til þess að snúa sér til forseta íslands og rjúfa þing og efna til kosninga, en hann gæfi enga yfirlýsingu um það á þessari stundu, hvort hann gerði það eða hvenær hann gerði það. Hér talar hæstv. forsrh. sem lærður og reyndur lögfræðingur, sem fyrrv. háskólakennari í lögfræði. Hvert orð í þessu efni er formlega rétt, enda ekki við öðru að búast af hæstv. forsrh. en að það, sem hann segir hér í ræðustólnum, sé formlega rétt. Hann hefur samkv. stjórnarskrá heimild til þess sem forsrh. að rjúfa þing, hvenær sem honum sýnist, og efna til kosninga. (Forsrh.: Þetta á líka að vera efnislega rétt.) Ég er nú að reyna að afsaka hæstv. forsrh., hann skilur það kannske ekki. — En það, sem venja hefur verið að gera undanfarna áratugi, þegar samsteypustjórnir hafa verið myndaðar, er það, að gert hefur verið samkomulag, stundum skriflegt, stundum munnlegt, um það, að forsrh. noti ekki þessa lögformlegu heimild sína, nema allir aðildarflokkar að ríkisstj. samþykki. Þetta hafa allir forsrh. fram að þessu virt, hvort sem samkomulagið hefur verið skriflegt eða munnlegt.

Nú segir hæstv. iðnrh. frá því í fyrrakvöld í útvarpinu, að forsrh. hafi fengið umboð allra þriggja flokkanna, Framsfl., Alþb. og SF, til þess að rjúfa þing og efna til kosninga í haust. Hann nefndi tímann, sagði: í haust, iðnrh. (Forsrh.: Ég sagði líka í haust.) Var það? Þá sagði forsrh. svolítið annað í einni setningu en hann sagði í annarri. (Gripið fram í.) Svo gerist það á fundi hér í gærkvöld, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson kemur að máli við mig og segir mér í óspurðum fréttum, að sér hafi komið yfirlýsingin algerlega á óvart, sem hann hafi heyrt hjá hæstv. iðnrh, í kvöldfréttunum í gærkvöld, því að sinn flokkur hafi ekki veitt hæstv. forsrh. neitt umboð til að rjúfa þing og efna til kosninga, hann geti ekki talað í nafni síns flokks, og hæstv. iðnrh. hafi ekki talað fyrir hönd síns flokks, og hann staðfestir þetta í hádegisútvarpi. Nú kemur hæstv. forsrh. og segist hafa slíkt umboð. M.ö.o.: það standa þrír flokkar að ríkisstj. og segja sitt hvað. Er hægt að hugsa sér ömurlegra ástand? Er hægt að hugsa sér aumlegri ríkisstj.? Einn ráðh. kemur á einu kvöldi og gefur vissa yfirlýsingu, svo kemur formaður annars stjórnarflokksins í hádegi daginn eftir og segir ráðh. hafa sagt ósatt kvöldíð áður, og svo kemur hæstv. forsrh. núna kl. rúmlega tvö og segir það þriðja. Hann þiggur ekki afsakanir einu sinni. Maður reynir að leggja honum skynsemi og lögspeki í munn, en þá bara neitar hann að taka því. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að hann komi hér upp aftur á eftir og segi alveg skýrt, hvað hann meinar, hvað hann raunverulega meinar. En áður en hann kemur í ræðustólinn aftur, hæstv. forsrh., vildi ég helst, að Hannibal Valdimarsson fengi að koma í ræðustólinn og segja skoðun sína á málinu.

Þrjár yfirlýsingar hafa komið fram. Ég vona, að forsrh. haldi áfram að tala eins og lögfræðingur, eins og ég var að segja, að hann ætti helst að gera. En það er kjarni málsins, og með því skal ég ljúka þessum orðum mínum, að einn ráðh. segir í ríkisútvarpinu í fyrrakvöld, að forsrh. hafi umboð allra þriggja stjórnarflokkanna til þess að rjúfa þing og boða til kosninga. Formaður eins stjórnarflokksins, Hannibal Valdimarsson, segir í hádegisútvarpinu í dag, að hann hafi ekki slíkt umboð. Annar hvor hlýtur að segja satt og hinn ósatt. Ég þekki báða mennina, og ég er ekki í miklum vafa um það, hvor segir satt og hvor segir ósatt. Það kemur í ljós hér á eftir.