02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. í lok febrúarmánaðar á þessu ári voru samþ. lög um sérstakt gjald, sem leggja skyldi á söluskattsstofn í því skyni að afla fjár til þess að draga úr áhrifum olíuverðhækkana. Síðan þessi lög voru sett og reyndar nokkru lengur, hefur verið fjallað um það hér á Alþ. og í samstarfsnefnd þingflokka, með hvaða hætti eðlilegast væri að koma þessu fjármagni, sem innheimt verður samkv. þessum gjaldstofni, til þeirra aðila, sem harðast verða úti í sambandi við upphitun íbúðarhúsa vegna olíuverðhækkana.

Það frv., sem hér liggur fyrir og hefur þegar hlotið afgreiðslu í hv. Nd., gerir sem sagt ráð fyrir því, að þessum fjármunum skuli varið á sérstakan hátt. Till. eru gerðar um það, að gjaldinu verði skipt eftir meðlimafjölda í hverri fjölskyldu og að gjaldið renni eingöngu til þeirra, sem verða að nota olíu til upphitunar á íbúðarhúsnæði sínu.

Það er að sjálfsögðu ljóst, að í slíku tilfelli sem þessu gat verið um að ræða nokkrar mismunandi leiðir til þess að ná því marki, sem að var stefnt með fyrri lagasetningunni.

Í fyrsta lagi gat verið um það að ræða að nota þá fjármuni, sem innheimtir eru með fyrrnefndu gjaldi, til þess að greiða niður verð á olíu, að lækka olíuna beinlínis í útsöluverði og ná markinu með þeirri leið. En í ljós hefur komið, að á því eru miklir annmarkar, vegna þess að það er mjög erfitt að greina á milli olíu, sem notuð er til upphitunar íbúðarhúsnæðis, og olíu, sem afgreidd er svo að segja samhliða til annarrar húsahitunar, eins og til upphitunar verslunarhúsnæðis, skrifstofuhúsnæðis, verkstæða eða vinnustofa og ýmissa annarra aðila. En sams konar olía er notuð í báðum tilfellum og yfirleitt afgreidd mjög með sama hætti.

Þá kom að sjálfsögðu upp sú hugmynd, hvort ekki væri hægt að nota þetta fjármagn til þess að greiða niður kyndingarkostnað allra þessara aðila, þ.e.a.s. bæði í sambandi við upphitun íbúðarhúsnæðis og einmitt til annarrar upphitunar eða til annars þess, sem sams konar olía er notuð til. En þá kom í ljós, að það fjármagn, sem um er að ræða, er svo knappt, að það mundi skerða mjög aðstoðina við þá, sem þurfa að hita upp íbúðarhúsnæði sitt með olíu, og þeir yrðu að búa við allmiklu hærra verð, ef fjármagninu yrði varið á þennan hátt. Það er hins vegar ljóst, að þó að allt þetta fjármagn renni til þeirra einna, sem hita upp íbúðarhúsnæði sitt með olíu, verður ekki hægt að ná því marki að lækka olíuverðið þannig, að fullur jöfnuður náist á milli þeirra, sem verða að búa við þessa aðstöðu, og hinna, sem búa við þann möguleika að hita upp húsnæði sitt með jarðvarma eða rafmagni.

Það er gert ráð fyrir því, að heildartekjur samkv. gjaldstofninum, sem ákveðinn var með l. frá því í febrúar, muni nema um 800 millj. kr. á ári. Það er hins vegar talið, að þeir aðilar í landinu, sem þurfa að hita upp íbúðarhúsnæði sitt með olíu, séu rúmlega 100 þús. talsins. Sé þessari fjárhæð skipt eftir höfðatölunni, gæti komið hér styrktargreiðsla, sem næmi í kringum 8 þús. kr. miðað við einstakling. Fyrir 6 manna fjölskyldu mundi þetta þá nema kringum 40 þús. kr. á ári og að sjálfsögðu tilsvarandi lægra eða hærra eftir fjölda þeirra einstaklinga, sem teljast til hverrar fjölskyldu eða hverrar íbúðar í þessu tilfelli.

Það kom auðvitað einnig til athugunar, hvort hægt væri að miða þessar styrktargreiðslur við stærð þess húsnæðis, sem hitað er upp með olíu. Við þá athugun kom í ljós, að það mundi vera mjög erfitt að fá nákvæmar upplýsingar um stærð slíks húsnæðis í hverju einstöku tilviki. Fáar skýrslur eru fyrirliggjandi um það og fremur óábyggilegar. Og þá kom það einnig í ljós, að alloft væri það þannig, að í tiltölulega stóru húsnæði væru þeir búandi, sem betur mættu sín, og nytu þeir þá tiltölulega meiri niðurgreiðslu en ef miðað væri við fjölda einstaklinganna.

Það hefur einnig verið bent á, að það er galli við beina niðurborgun á olíuverðinu, að á þann hátt verður minni tilhneiging til þess hjá þeim, sem hlut eiga að máli, að gera sér raunverulega grein fyrir kostnaði þeirrar vöru, sem hér er um að ræða, og minni áhugi að leita eftir öðrum leiðum til upphitunar á húsnæði sínu. En að sjálfsögðu eru í mörgum tilfellum einhverjir möguleikar til þess að skipta frá olíukyndingu til hitaveitu eða jarðvarma og einnig til rafhitunar eitthvað umfram það, sem nú er. Það þykir því ógott að nota beina niðurborgun, og því hefur þessi leið verið valin: Að miða þessa niðurgreiðslu við fjölda þeirra einstaklinga, sem hlut eiga að máli í hverju tilviki.

Í hv. Nd. tók frv. þeim breyt., að gert var ráð fyrir því, að þeir lífeyrisþegar, sem búa við þær tekjur einar, sem þeir hafa frá almannatryggingunum samkv. þeim lágmarkstekjureglum, sem gilda og einnig þeir aðrir lífeyrisþegar, sem búa við svipaðar eða hliðstæðar heildartekjur, án þess að þeir fái greiðslu frá almannatryggingunum, skyldu fá nokkru hærri styrk en meðalstyrk, og kemur það fram í 2. gr. frv., eins og hún er nú. Er gert ráð fyrir því, að sá háttur verði hafður á, að viðskrn., sem hefur með framkvæmd þessara mála að gera, leiti til bæjar- og sveitarstjórna í landinu eftir upplýsingum um, hverjir það eru og hversu margir á hverjum stað, sem á umliðnum mánuðum hafa þurft að hita upp híbýli sín með olíu, og síðan yrði greiðslan innt af hendi með milligöngu bæjar- og sveitarstjórnanna. Því er auðvitað ekki að neita, að hér er verið að fara fram á minni háttar þjónustu af hálfu bæjar- og sveitarfélaganna, en ég er sannfærður um það, eftir að hafa athugað það mál nokkuð, að þær munu reynast fáar sveitarstjórnirnar í landinu, sem kvarta undan því að taka við fé í þessu skyni og koma því til réttra aðila og taka þannig þátt í því að leiðrétta hlut þeirra, sem hafa orðið hart úti vegna gífurlegrar hækkunar á kyndingarkostnaði. Ég held því, að það sé ekki nein ástæða til þess að mikla það fyrir sér, að þessi leið sé farin.

Þetta mál hefur, eins og ég sagði, verið hér fyrir þingflokkunum á Alþingi í langan tíma og verið lengi til athugunar. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um málíð frekar við þessa umr. Ég veit, að allir hv. þm. þekkja orðið vel til málsins, og ég legg áherslu á það, að sú n., sem nú fær málið í þessari hv. d. til athugunar, afgreiði það fljótlega, eins fljótt og tök eru á, því að komið er að síðustu dögum þingsins og búið er að draga afgreiðslu þessa máls úr hófi fram að mínu mati. Þó að það kunni að vera nokkuð skiptar skoðanir um, hvaða leið sé heppilegust til þess að koma þessum fjármunum til þeirra aðila, sem flestir eru sammála um, að eigi að fá þessa fjárhæð, ætti ekki að þurfa að draga afgreiðslu málsins lengi, úr því sem komið er. Að sjálfsögðu vænti ég þess, að þessi hv. d. geti fallist á afgreiðslu frv. óbreytts frá því, sem það kemur frá Nd., svo að hægt sé að hefjast handa um að greiða þessar bætur þeim aðilum, sem á þeim þurfa að halda.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til, að þegar þessari umr. er lokið, verði frv. vísað til hv. fjh: og viðskn. til fyrirgreiðslu.