02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég skal fyrst víkja að ræðu hv. síðasta ræðumanns og vil lýsa furðu minni á því, ef hv. þm. minnist þess ekki að hafa sagt í n., að hann hefði reyndar frekast kosið, að frv. yrði samþ. óhreytt. Hann man þá kannske ekki heldur eftir því, að ég, eftir að ég hafði heyrt raddir tveggja nm. auk Þorvalds Garðars Kristjánssonar í þessa átt, spurði hvort ekki væri best að ganga til atkv. í n. um það, hverjir vildu samþykkja frv. óbreytt. Það voru fleiri mættir á nefndarfundinum, sem geta borið því vitni, ef á að fara að segja mig fara með ósannindi um þetta.

Það er þá í sambandi við ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., form. menntmn. Hann var að tala um, að það yrði alger eðlisbreyting á þessum einkaskólum tveim með því að lögbinda stuðning ríkisins við þá. Sá stuðningur er fjárhagslegs eðlis, og það er kannske rétt að rifja það upp. Eins og nú er fær Verslunarskólinn fjárveitingu á fjárlögum, hann fær styrk frá Reykjavíkurborg og hann fær skólagjöld frá nemendum. Breytingin, sem þarna verður á, er sú, að það framlag, sem Reykjavíkurborg hefur lagt skólanum, og skólagjöld sem eru innheimt af nemendunum sjálfum, falla yfir á ríkið. Ég verð að benda á, þegar hann talar um, að það sjái allir, hvað þetta sé fráleitt, að aðilar frá menntmrn. sjálfu voru algjörlega sammála um þessi ákvæði frv. Það er þá furðulegt, að hæstv. menntmrh. skuli leggja það fram í þessari mynd. Hv. þm. var að tala um, að það væri verið að ráðgera að strika yfir rétt þingsins. Það dettur engum í hug. Eins og ég sagði áðan, er bæði þeim, sem frv. sömdu, og öðrum ljóst, að það segir enginn þinginu fyrir verkum.

Þá var það varðandi stofnkostnaðinn, — ég skal ekki hafa fleiri orð um skólanefndirnar. Tel ég, að ég hafi í minni fyrri ræðu gert þeirri brtt. full skil og í ræðu hv. formanns hafi ekkert komið fram, sem ég þurfi þar að svara, nema kannske væri það, að hann taldi, að tilnefning eins skólanefndarmanns frá rn. væri nauðsynleg til þess að fylgjast með málefnum skólans. Rn. hefur öll tök á að fylgjast með málefnum skólans og fjárreiðum hans sem öðru og hefur auðvitað hönd í bagga og getur beinlínís mælt fyrir um málefni, þannig að það út af fyrir sig gerir ekki nauðsynlegt, að rn. eigi fulltrúa í skólanefndinni.

En þá var það varðandi byggingarframlögin, sem í frv. er ráðgert að skuli vera styrkir. Ég vék að því í minni fyrri ræðu, að ef slíkur skóli yrði alveg lagður niður, hætt að starfrækja hann, þá væri ekki óeðlilegt, að ríkið vildi fá til baka byggingarstyrk sinn. En ef um það er að ræða, eins og ég minntist líka á í minni fyrri ræðu, að skólinn verði fluttur til og á nýjan stað, þá getur allt annað komið út úr þessu. Þingið hefur svo sannarlega veitt byggingarstyrk mörgum þörfum stofnunum í þjóðfélaginu án þess að binda neinum skilyrðum eignaraðild ríkisins síðar meir, þannig að það út af fyrir sig væri ekkert einsdæmi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Mér fannst ég verða að svara nokkru ræðu hv. nefndarformanns og þó fyrst og fremst því í ræðu hv. 1. þm. Vestf., þar sem hann lét að því liggja, að ég hefði farið með ósannindi.