02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4039 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þeir, sem hér hafa talað um þetta frv., hafa gert svo skýra grein fyrir efnisatriðum málsins, að ég hef þar engu við að bæta og ætla mér ekki að lengja umr. með því að endurtaka neitt af því, sem aðrir hafa sagt. En það hefur komið fram í þessum umr., að þeim, sem talað hafa, ber ekki alveg saman um, hvað fram hafi komið í menntmn. Það er óviðkunnanlegt að nm. greini mjög á um þetta, og út af því vil ég segja það, að það er nokkuð langt síðan þessi brtt., sem nú verður væntanlega gengið til atkv. um, voru sýndar og teknar til umr. í menntmn., og þær hafa verið ræddar á allmörgum fundum í n. A.m.k. á einum nefndarfundi sagði ég, að ég hefði getað fallist á að mæla með frv. óbreyttu. Ég er ekki viss um, hvort 1. þm. Vestf. var á þeim fundi, en þetta mun vera ástæðan til þess, að hv. 6. þm. Reykv. hefur haft orð á því, að þetta hafi komið fram í n. Þetta vil ég því staðfesta hér í d. Hins vegar var ég ekki upphaflega flm.brtt., en þær lágu fyrir og voru fluttar inn í n. af öðrum, og við skýrðum frá því, bæði ég og hv. 1. þm. Vestf., að við hefðum tekið þær til athugunar og haft samráð við þá, sem að Samvinnuskólanum standa, um málið, og að því athuguðu lýstum við því yfir, að við gætum fallist á brtt. í því formi, sem þær eru nú orðnar. Ég veit, að allir, sem starfa í hv. menntmn.. vilja í raun og sannleika hafa það sem sannast reynist, og þess vegna þykir mér rétt að taka þetta fram, til þess að það liggi ljóst fyrir, hvernig ég hef staðið að þessu í nefndinni.