02.05.1974
Neðri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Á fundi utanrmn. í fyrradag bar ég fram þá ósk, að þau skjöl, þau bréfaskipti, sem farið hefðu á milli rn. og sendiráðs Þýska alþýðulýðveldisins á Íslandi, yrðu birt, — bréfaskipti, sem farið hefðu á milli um þau áhafnaskipti, sem ríkisstj. Íslands leyfði á sínum tíma, að fram færu á Austur-þýskum togurum, og mjög hafa verið til umr. undanfarið hér á hinu háa Alþ. og í fjölmiðlum og meðal þjóðarinnar. Ég endurtók þessa ósk á fundi í Sþ. í umr., sem urðu utan dagskrár í fyrradag. Hæstv. utanrrh. tók því vel að verða við þeirri ósk.

Ég hefi nú í morgun fengið ljósrit af þessum bréfaskiptum. Þau varpa nýju ljósi á þetta mjög svo umrædda og mikilvæga mál og því miður mjög myrku ljósi, — ekki daufu ljósi, heldur mjög alvarlegu ljósi, sem sýnir, að öll viðhorf í þessu máli eru önnur en þing og þjóð hafa haldið og málið allt mun alvarlegra.

Hinn 25. febr. sendir sendiráð Þýska alþýðulýðveldisins á Íslandi utanrrn. eftirfarandi bréf, með leyfi hæstv, forseta:

„Sendiráð Þýska alþýðulýðveldisins á Íslandi vottar íslenska utanrrn. virðingu sína og leyfir sér að leita samþykkis þess fyrir því, að mega í mánuðunum apríl og maí 1974 skipta á 3–31 áhöfnum, 255 sjómönnum, á úthafsflota Þýska alþýðulýðveldisins. Ef íslenska utanrrn. veitir samþykki sitt, mun Interflug í Þýska alþýðuveldinu sjá um þrjár flugferðir, hinn 12.– 13. apríl, 23.–24. apríl og 3.–4. maí 1974. Sendiráð Þýska alþýðulýðveldisins væri mjög þakklátt utanrrn. Íslands fyrir upplýsingar um, hvort það samþykkir áhafnaskiptin í Reykjavík. Ef leyfið verður veitt, mun fulltrúi Interflug og VVB Hochseefischerei koma til Reykjavíkur til þess að skýra viðskiptahlið og tæknihlið málsins. Sendiráð Þýska alþýðulýðveldisins notar þetta tækifæri til þess að fullvissa íslenska utanrrn. enn á ný um fyllstu virðingu sína.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta er fyrsta bréfið. Ég vek athygli á því, að þýska sendiráðið sækir um leyfi til þess að mega skipta á 3–4 áhöfnum á úthafsflota þýska alþýðulýðveldisins. Utanrrn. sendir þetta bréf til umsagnar samgrn. og sjútvrn. Samgrn. sendir bréfið til umsagnar flugmálastjórnar. Sú umsögn er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til viðtals við hr. Ólaf Steinar Valdimarsson í dag varðandi umsókn frá Alþýðulýðveldinu Þýskalandi um leiguflug til Íslands, skal tekið fram, að frá hálfu flugmálastjórnarinnar er ekkert því til fyrirstöðu, að leyfið verði veitt. Þar sem í umsókninni er óskað lendingar á Reykjavíkurflugvelli, án þess að tilgreind sé tegund flugvélar, sem nota á, gæti verið um takmarkanir að ræða vegna brautarlengdar og burðarþols. Reglugerð nr. 107 1972 um komu, brottför og yfirflug flugfara í millilandaflugi yfir íslensku yfirráðasvæði, 9. gr., skýrir frá forsendum til leyfisveitinga fyrir loftför, sem skráð eru í ríkjum, sem ekki eru aðilar að Chicago-sáttmálanum.“

Á grundvelli þessarar umsagnar svarar samgrn. með þessu örstutta bréfi, enn með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísun til bréfs utanrrn., dags. 27. f.m., varðandi lendingarleyfi á Reykjavíkurflugvelli, sendir rn. hér með ljósrit af umsögn flugmálastjóra ásamt fylgiskjali. Rn. fellst fyrir sitt leyti á þá niðurstöðu flugmálastjóra, að ekkert sé því til fyrirstöðu að veita umrætt leyfi, en vekur athygli á, að þar sem upplýsingar vantar um flugvélategundina, liggur ekki ljóst fyrir, hvort mögulegt er að nota Reykjavíkurflugvöll.

Ég vek athygli á, að þessi umsögn er tæknilegs eðlis varðandi hvar flugvélin geti lent.“

Sjútvrn. svarar utanrrn. með bréfi, dags. 21. mars 1974. Það bréf hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til fylgibréfs utanrrn., dags. 19. mars 1974, dagbók 65 A 42,“ — en þetta fylgibréf er umsókn sendiráðs Þýska alþýðulýðveldisins, sem ég las áðan, — hún er send sjútvrn. með bréfinu, sem biður um umsögn, og þess vegna segir sjútvrn.: „Með tilvísun til fylgibréfs utanrrn., dags. 19. mars 1974, varðandi lendingarleyfisumsókn Austur-Þjóðverja í því skyni að skipta um áhafnir á úthafstogurum, staðfestir rn. samþykki sitt við því, að umrætt leyfi verði veitt í þau þrjú skipti, sem tilgreind ern í bréfi sendiráðs Þýska alþýðulýðveldisins frá 25. febr. 1974.“

Ég vek athygli á því, að sjútvrn. mælir með því, að austur-þýskum stjórnvöldum verði veitt leyfi til að skipta um áhafnir á úthafstogurum almennt. Það fer ekki á milli mála.

Að fengnum þessum tveimur umsögnum skrifar utanrrn. þýska sendiráðinu á þennan veg, með leyfi hæstv. forseta:

„Utanrrn. vottar sendiráði Þýska alþýðulýðveldisins virðingu sína. Með tilliti til orðsendingar sendiráðsins frá 25. febr. 1978, þar sem beðið er um flug- og lendingarrétt í Reykjavík fyrir 3 flugvélar frá Interflug, flugfélagi Þýska alþýðulýðveldisins, til þess að skipta um áhafnir á vissum skipum, hefur rn. þann heiður að skýra sendiráðinu frá því, að leyfið hefur verið veitt í grundvallaratriðum. Hér með fylgja nauðsynlegar upplýsingar um Reykjavíkurflugvöll. Nákvæmar upplýsingar um fyrirhugað flug er nauðsynlegt að fá sem fyrst. Rn. notar þetta tækifæri til þess að votta enn á ný sendiráði þýska alþýðulýðveldisins fyllstu virðingu sína.“

Ég vek athygli á því, að leyfi utanrrn. er til þess að skipta um áhafnir á austur-þýskum úthafstogurum án nokkurrar takmörkunar.

Þessu bréfi svarar sendifulltrúi Þýska alþýðulýðveldisins með bréfi 26. mars eða 6 dögum síðar:

„Ég viðurkenni með þökkum móttöku orðsendingar yðar nr. 3. Um leið og ég vísa til símasamtals okkar í gær, þykir mér leitt að þurfa að tjá yður, að flugvélar af gerðinni IL-18, sem geta flutt um það bil 90 farþega, geta hvorki lent né hafið sig til flugs á Reykjavíkurflugvelli. Þess vegna fer ég vinsamlega þess á leit, að leyfinu verði breytt á þann veg, að það veiti rétt til lendingar á Keflavíkurflugvelli í stað Reykjavíkurflugvallar. Ég væri mjög þakklátur, ef þér veittuð mér svar sem fyrst, þannig að fulltrúi Interflug gæti hafið viðræður við flugvallarstjórann á Keflavíkurflugvelli. Ég vona, að ákvörðun yðar liggi fyrir á morgun.“

Strax daginn eftir svarar utanrrn. með eftirfarandi bréfi:

„Utanrrn. vottar sendiráði Þýska alþýðulýðveldisins virðingu sína og leyfir sér að vitna til orðsendingar sendiráðsins frá 26. mars 1974, þar sem leitað er lendingarleyfis í Keflavík fyrir IL-18 flugvélar í sambandi við áhafnaskipti á togurum úr fiskveiðiflota Þýska alþýðulýðveldisins. Þótt íslensk yfirvöld séu í grundvallaratriðum andvíg því að veita lendingarleyfi í áðurnefndu skyni, er leyfið veitt sem undantekning fyrir þrem löndunum í Reykjavík 12.– 13. apríl, 23.–24. apríl og 3.–4. maí 1974. Það er skoðun íslensku flugmálastjórnarinnar, að skilyrði séu á Reykjavíkurflugvelli til lendingar og flugtaks fyrir IL-18 flugvélar. Eins og tekið er fram í orðsendingu rn. 21. mars 1974, er farið fram á nákvæmar upplýsingar um flugvélarnar á flugi, sem beðið er um leyfi fyrir. Rn. notar þetta tækifæri til þess að fullvissa sendiráð Þýska alþýðulýðveldisins um fyllstu virðingu sína.“

5 dögum seinna eða 2. apríl fer eftirfarandi bréf frá utanrrn. til sendifulltrúa þýska alþýðulýðveldisins:

„Utanrrn. vottar sendiráði þýska alþýðulýðveldisins virðingu sína og vísar til orðsendingar rn. nr. 5, dags. 27. mars 1974, og til samtals 1. apríl milli ráðuneytisstjóra þessa rn. og sendifulltrúa þýska alþýðulýðveldisins varðandi lendingarrétt fyrir IL-18 flugvélar í Keflavík í sambandi við áhafnaskipti á togurum úr fiskveiðiflota Þýska alþýðulýðveldisins. Ákvörðun hefur nú verið tekin um að leyfa sem undantekningu 3 landanir IL-18 flugvéla í Keflavík 12.–13. apríl, 23.–24. apríl og 3.–4. maí með því skilyrði, að nákvæmar upplýsingar um flugvélarnar og flugið verði látnar í té á venjulegan hátt. Þessa leyfisveitingu ber ekki að skilja sem vilyrði fyrir frekari lendingarleyfum til þess að skipta um áhafnir á togurum. Rn. notar þetta tækifæri til þess að votta enn á ný sendiráði Þýska alþýðulýðveldisins fyllstu virðingu sína.“

Ég vek athygli á því, að þetta endanlega leyfi utanrrn., dags. 2. apríl, leyfir áhafnaskipti á togurum úr fiskveiðiflota Þýska alþýðulýðveldisins án nokkurrar takmörkunar.

Hinn 29. apríl skrifar sjútvrn. utanrrn. að síðustu bréf, eftir að það er komið í ljós, að þeir togarar, sem veiða í móðurskipið, sem tvívegis hefur komið til þess að skipta um áhafnirnar, hafi verið að veiðum við Ísland, — eftir að það er upplýst af íslensku landhelgisgæslunni nú fyrir nokkrum dögum, eins og rætt hefur verið um hér á hinu háa Alþ. oftar en einu sinni, — skrifar sjútvrn. utanrrn. eftirfarandi bréf:

„Þar sem orðrómur hefur verið um það, að fiskveiðifloti Þýska alþýðulýðveldisins, sem fengið hefur loforð um lendingarleyfi þriggja flugvéla hér á landi í sambandi við mannaskipti á úthafsveiðiflota, muni e.t.v. stunda veiðar á fiskimiðum við Grænland, þá óskar sjútvrn. eftir því, að leitað verði þegar í stað eftir yfirlýsingu fulltrúa Þýska alþýðulýðveldisins hér á landi um það, að þann tíma, sem umrædd mannaskipti fara fram hér, stundi floti þeirra fiskveiðar á Kanada- og Nýfundnalandsmiðum, en hvorki á Íslands- né Grænlandsmíðum. Fáist ekki slík yfirlýsing, leggur sjútvrn, til. að lendingarleyfi verði þegar í stað afturkölluð, enda var umsögn rn. um mannaskiptin byggð á upplýsingum um, að hér væri eingöngu um að ræða veiðar á Kanada- og Nýfundnalandsmiðum og upp í fastákveðinn kvóta af fiski.“

Ég vek athygli á því, að hér er talað um orðróm um, að fiskveiðiflotinn sé á fiskimiðum við Grænland. Þegar þetta bréf barst í utanrrn. kl. 5 í fyrradag, þá lá fyrir vitneskja frá Landhelgisgæslunni um, að togararnir væru við veiðar nær Íslandi en Grænlandi, þ.e.a.s. á Íslandsmiðum. Ég vek enn fremur athygli á því, að utanrrn. er beðið um að leita upplýsinga hjá þýska sendifulltrúanum um málið, en ekki hjá Landhelgisgæslunni. Í bréfinu segir enn fremur, — ég vek í þriðja og síðasta lagi athygli á því, — að umsögn rn. hafi verið „byggð á upplýsingum um, að hér væri eingöngu um að ræða veiðar á Kanada- og Nýfundnalandsmiðum og upp í fastákveðinn kvóta af fiski“. En eins og ég hef rakið í fyrri bréfaskiptum, var upphafleg beiðni austur-þýskra stjórnvalda um leyfi til að skipta um áhafnir á úthafstogurum almennt og leyfi utanrrn, að fengnum meðmælum í sjútvrh. til þess að skipta um áhafnir á þýskum úthafstogurum almennt, en ekki bundið við veiðar á neinum sérstökum hafsvæðum.

Herra forseti. Að síðustu vil ég aðeins segja þetta. Ég tel þing og þjóð eiga rétt á þessum upplýsingum, því að þær eru aðrar en áður höfðu verið gefnar bæði þingi og þjóð. Staðreyndir málsins eru aðrar en þing og þjóð hefur að fengnum upplýsingum frá stjórnvöldum talið, að væri sannleikurinn í málinu. Þessi bréf varpa skýru ljósi á allar staðreyndir málsins. Það gerir það að verkum, að málið allt verður að líta mjög alvarlegum augum. Staðreyndir málsins eru þessar:

1) Austur-Þjóðverjar sóttu ekki um leyfi til að skipta um áhafnir á togurum, sem stunda veiðar á Kanada- og Nýfundnalandsmiðum, eins og þing og þjóð hefur verið sagt frá, heldur til að skipta um áhafnir á úthafstogurum í Þýska alþýðulýðveldisins almennt.

2) Í meðmælum sjútvrn. eru ekki sett nein skilyrði um, að leyfið skuli bundið við áhafnaskipti á skipum, sem stunda veiðar við Kanada eða Nýfundnaland.

3) Leyfi utanrrn. er ekki bundið við áhafnaskipti á slíkum skipum, heldur tekur almennt til togara í úthafsflota Austur-Þjóðverja, eins og sótt var um, þ.e.a.s. eiga jafnt við um togara, sem stunda veiðar við Kanada, Nýfundnaland, Noreg, Grænland og Ísland.

4) Nú er upplýst, að skipt hefur verið um áhafnir á Austur-þýskum togurum, sem stundað hafa og stunda nú veiðar á miðum við Ísland.

5) Það var auðvitað skylda sjútvrh, að vera á verði um íslenska hagsmuni í þessu efni. Þessari skyldu hefur sjútvrh, brugðist á hinn hörmulegasta hátt. Hér er um að ræða mjög alvarleg og óafsakanleg afglöp, Í nálægum löndum mundi ráðherra, sem orðið hefði slíkt á, segja af sér eða forsrh. biðja um lausn fyrir hann.

Ég lýk þessum orðum mínum, herra forseti, með því að beina þeirri áskorun til sjútvrh., að hann taki afleiðingum mistaka sinna og segi af sér af þessu tilefni. Geri hann það ekki, tel ég, að forsrh. eigi að biðja um lausn fyrir hann.