02.05.1974
Neðri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (3698)

46. mál, jarðalög

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á Búnaðarþingi 1971 var samþ. ályktun um að fela Búnaðarfélagi Íslands að hlutast til um við landbrh., að hann skipaði n. til þess að endurskoða eftirtalin lög: Lög um kauprétt á jörðum, nr. 40 frá 6. apríl 1948, ábúðalög, nr. 36 frá 29. mars 1961, lög um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða, nr. 102 frá 21. des. 1962, og lög um Jarðeignasjóð ríkisins, nr. 54 frá 27. apríl 1967.

Hlutverk n., sem skipuð yrði, skyldi vera að semja frv. til nýrra laga um framangreind efni eða breyt. á gildandi l., þar sem þess yrði m.a. gætt, að aðstaða sveitarfélaga og einstaklinga búsettra innan þeirra við að ná og halda eignar- og umráðarétti í landi innan viðkomandi sveitarfélaga yrði tryggð sem best; einnig að ábúðar- og erfðaábúðarl. verði gerð einföld og réttlát í framkvæmd.

Hinn 18. ágúst 1971 skipaði landbrh. n. til þess að starfa að þessu verkefni. N. skipuðu Ásgeir Bjarnason alþm., sem var form. n., Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri og Árni Jónsson fulltrúi. Aðstoðarmaður n. var Gaukur Jörundsson prófessor.

N. samdi þetta frv., og síðan hafa bæði Stéttarsamband bænda og Búnaðarþing fjallað um frv. og voru sammála um að mæla með samþykkt þess.

N. hafði samband við ýmsa menn og stofnanir, t.d. búnaðarmálastjóra og Stéttarsamband bænda og ýmsa aðra. N. aflaði sér einnig upplýsinga um það, hvernig þessum málum er fyrir komið í nágrannalöndunum, Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Þá hefur n. farið yfir ábúðarlög, lög um ættaróðul, ættarjarðir, óðalsrétt og erfðaábúð. N. kynnti sér, hver væri fjöldi skráðra ættaróðala og ættarjarða við öll sýslumannsembættin. Niðurstaða þeirra athugana er sú, að mjög fáir bændur hafa gert jarðir sínar að ættaróðulum aðrir en þeir, sem keypt hafa jarðir af ríkinu, en þá er það skylda. Allmörg dæmi eru þess, að bændur, sem eiga eða átt hafa óðalsjarðir, hafa fengið jarðir sínar leystar undan ákvæðum óðalslaga, samkv. heimild í l. nr. 18 frá 1968. Ættarjarðir eru sárafáar skráðar, þó að vitað sé, að mikill fjöldi jarða hefur verið lengur í eigu eða ábúð sömu ættarinnra en í 75 ár. Og við athugun n. upplýstist, að andstaða er meðal eigenda fjölda jarða gegn því, að þær verði gerðar að ættarjörðum.

Að fengnum upplýsingum og eftir athugun á gildandi lagaákvæðum um framanskráð efni var ákveðið að leitast við að stytta ábúðarlögin frá 1961, auk efnisbreytinga, sem á þeim yrðu gerðar. Ákvæði um ættaróðul, óðalsrétt og erfðaábúð haldast lítið breytt, en kaflinn um ættarjarðir er felldur úr gildi. Í jarðalög eru tekin ákvæði um byggðaráð, hvernig fara skuli með hvers konar aðildarskipti að umráðum yfir fasteignum og fasteignaréttindum, auk þess ákvæði um forkaupsrétt á jörðum, jarðir í opinberri eign, Jarðeignasjóð og óðalsjarðir.

Það er athyglisvert, að í þeim upplýsingum, sem n. aflaði sér frá Norðurlöndunum, kemur í ljós, að Norðurlönd hafa farið inn á þá braut, sem ætlast er til, að við förum inn á, í því frv., sem hér liggur fyrir, og má segja, að n. hafi að verulegu leyti farið eftir þeim reglum og hugmyndum, sem eru um þetta á Norðurlöndum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rifja það upp hér, nema tilefni gefist þá sérstaklega til, hvernig þessu er fyrir komið að öðru leyti á Norðurlöndum.

Þetta frv. er búið að fara gegnum hv. Ed., og voru þar gerðar á því dálitlar breytingar. Hv. landbn. Nd. tók þá afstöðu í sambandi við þessi frv. um landbúnaðarmál, sem liggja fyrir og eru hér nú á dagskrá, að fella niður úr þeim að leggja niður Landnám ríkisins. Þær brtt., sem meiri hl. n. leyfir sér að bera fram, eru einmitt miðaðar við þessar niðurstöður.

N. ræddi þetta mál á mjög mörgum fundum, og þeir, sem standa að þessu meirihlutaáliti, eru auk mín hv. þm. Hannibal Valdimarsson, Eðvarð Sigurðsson og Ágúst Þorvaldsson. Hv. þm. Pálmi Jónsson og Eyjólfur Konráð Jónsson skila minnihlutaáliti, en hv. þm. Benedikt Gröndal var fjarstaddur við afgreiðslu málsins.

1. brtt. er við 5. gr. Gr. orðist svo:

„Í sveitum landsins skulu vera starfandi byggðaráð. Starfssvæði hvers byggðaráðs skal vera það sama og búnaðarsambands, í byggðaráði eiga sæti sömu menn og eru í stjórn viðkomandi búnaðarsambands. Byggðaráð er ákvörðunarhæft, séu 3 menn mættir af þeim, sem eiga sæti í því.“

Það má segja það, að í þessari brtt, felist mikil breyt. frá því, sem frv. gerði upphaflega ráð fyrir.

Eins og hv. þm. vita, eru stjórnir búnaðarsambandanna kosnir af bændunum á viðkomandi svæði, og með þessu fyrirkomulagi eru það sem sagt bændurnir, sem kjósa byggðaráðin. Áður var það í frv., að landbrh. skipaði byggðaráðin, eftir tilnefningu búnaðarsambands og sýslunefndar, og skyldu þau vera þriggja manna. Miðað við frv. eins og það kom frá Ed., var gert ráð fyrir því, að svæði hvers byggðaráðs væri afmarkað af sýslunum, en í þessari till. er miðað við starfssvæði hvers búnaðarsambands, þannig að t.d. á Suðurlandi nær Búnaðarsamband Suðurlands yfir allt Suðurland og Búnaðarsamband Austurlands nær yfir þann landshluta allan. Það má líka benda á, að með þessari breytingu er ekki verið í sjálfu sér að setja upp neina nýja stofnun. Það hefur verið gagnrýnt af ýmsum, að með byggðaráðunum skipuðum eftir 5. gr. í frv., eins og hún var, sé verið að setja þarna á stofn nýja stofnun, sem mundi hafa mikinn kostnað í för með sér.

2. brtt. n. er við 21. gr., að tvær fyrstu málsgr. falli niður. Það er eingöngu í sambandi við það, sem ég áður sagði, að leiðir af 1. brtt. við 5, gr. 3. brtt. er um, að 22. gr. orðist svo:

„Kostnaður við störf byggðaráðs greiðist að hálfu af búnaðarsambandi og að hálfu af ríkissjóði. Landbrh. ákveður þóknun byggðaráðsmanna“

Breyt. er ekki önnur í þessari gr. Áður voru það búnaðarsamband og sýslusjóður, sem áttu að borga á móti ríkinu, en þetta er eðlileg breyt. miðað við hinar breytingarnar.

4. brtt. er svo við 29. gr.: Síðari málsgr. falli niður. Í 29. gr., eins og hún var í frv., var gert ráð fyrir, að allar eigur ríkissjóðs á landi og lausafé, sem hafa verið í vörslu Landnáms ríkisins féllu undir forræði jarðeignardeildar landbrn. Þessi breyt. er því vegna þeirrar afstöðu, sem n. tók, að leggja til, að Landnámið starfaði áfram.

5. brtt. er við 31. gr., að 1. tölul. orðist svo: „Hafa búið á jörðinni minnst 8 ár. Þetta er til samræmingar við aðrar gr. annars staðar í frv., þar er miðað við 8 ár, og er verið að leiðrétta það með þessari brtt. Og 4. tölul. sömu gr. orðist svo: „Leggja fram meðmæli hlutaðeigandi byggðaráðs með kaupum.“

6. brtt. er svo við 40. gr., að 1. málsgr. orðist svo: „Jarðasjóður ríkisins er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum af ónytjuðum jörðum sjóðsins, öðrum en fasteignagjöldum og kostnaði við fjallskil. Öll skjöl, sem gefin eru út af sjóðnum og í hans nafni, skulu undanþegin stimpilgjaldi og þinglýsingargjöldum.“ Breyt., sem felst í þessari gr., er eingöngu sú, að Jarðeignasjóður eigi að standa undir kostnaði af í fallskilum.

7. brtt. er við 41. Kr. C-liður orðist svo: „Að á jörðinni hvíli ekki aðrar veðskuldir en þær, sem kann að hafa verið stofnað til í Stofnlánadeild landbúnaðarins, veðdeild Búnaðarbankans, Lífeyrissjóði bænda og Orkusjóði, vegna þeirra framkvæmda á jörðinni, sem þessar stofnanir lána til eða lánastofnanir, sem koma kunna í þeirra stað.“

C-liðurinn er svona, eins og frv. var: „.Að á jörðinni hvíli ekki aðrar veðskuldir en þær, sem kunna að hafa verið teknar í stofnlánadeild Búnaðarbankans“ Það heitir ná ekki stofnlánadeild Búnaðarbankans, heldur landhúnaðarins, og svo settum við þarna inn: „veðdeild Búnaðarbankans,“ en okkur þótti rétt, að maður sem byggi á óðalsjörð, gæti fengið lán í veðdeild Búnaðar bankans, t.d. þegar hann tæki við óðalsjörð, en eins og frv. var, þá var ekki leyfilegt að láta hann hafa lán úr veðdeild Búnaðarbankans.

8. brtt. er við 51. gr. Gr. orðist svo: „Heimilt er að taka lán með veði í óðali, þegar eigendaskipti verða á því, enn fremur til húsahóta eða annarra varanlegra umbóta á jörðinni, í veðdeild Búnaðarbanka Íslands, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Orkusjóði og Lífeyrissjóði bænda, samkvæmt þeim reglum, sem um slík lán gilda á hverjum tíma.“

Það sama gildir um þessa breyt. og um breyt. við 41. gr.

9. brtt. er við 55. gr. Síðari málsgr. falli niður. En síðari málsgr. 55. gr. er þannig: „Nú treystist enginn, sem rétt hefur til óðalsins, að taka við því og skal þá sýslumaður ráðstafa jörðinni ásamt fylgifé hennar sem ættaróðali í samráði við fráfarandi óðalseiganda eða maka hans, ef á lífi eru, annars sýslunefnd. Söluverð jarðarinnar má ekki fara yfir fasteignamat hennar, en skal þó ekki vera lægra en áhvílandi veðskuldir, og greiðist með jöfnum afborgunum á 10 árum.“

Við leggjum líka til, að 56. gr. falli niður, en greinin er þannig: „Nú tekur maður af annarri ætt við ættaróðali, og falla þá minjagripir ættarinnar til erfingja fráfarandi óðalsbónda ásamt andvirði jarðarinnar að frádregnum veðskuldum og kostnaði.“ Við teljum þessar gr. alveg óþarfar, og í raun og veru fannst n. eða meiri hl. n. vera eðlilegt, þegar enginn af ættingjunum vill taka við óðali, að þá ætti að létta af kvöð um óðal, en það er hægt að gera samkv. 63. gr. Af þessum ástæðum leggur meiri hl. n. til, að þetta falli úr frv.

Þróun í þessum málum á undanförnum árum hefur verið slík, að það væri mikill ábyrgðarhluti, ef hv. d. vísaði þessu frv. frá, eins og hv. minni hl. n. leggur til, að gert verði. Þróunin í þessum málum hefur verið þannig, að það má til, að okkar dómi, að gera tilraunir til þess, að sú þróun, sem hefur orðið á undanförnum árum, stöðvist. Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða neitt um það að svo komnu, hvort við náum því marki, sem ætlast er til. þó að þetta frv. verði að lögum. Það verður reynslan ein að sýna. Hinu er enginn vafi á, að þarna er verið að setja töluvert miklar skorður á t.d. skiptingu og sölu jarða, og ef þetta frv. verður að lögum, þá hlýtur það að verka þannig, að það verði frekar hægt að nýta það land, sem er nú nýtt til landbúnaðar, það sé frekar hægt að koma í veg fyrir, að það fari til annarra nota. Okkur þykir eðlilegast, að það séu þeir aðilar, sem bændurnir kjósa sjálfir, þ.e. búnaðarsamböndin, sem fjalla um þessi mál á hverjum stað, enda ættu stjórnir búnaðarsambandanna að vera þessum málum kunnugastar, hver á sínum stað.