02.05.1974
Neðri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (3699)

46. mál, jarðalög

Frsm. minni hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., er frv. þetta komið frá hv. Ed. og tók þar nokkrum breyt. Þær breyt. voru þó ekki veigamiklar, og verður þeirra ekki getið hér sérstaklega.

Frv. þetta á sér orðið alllanga sögu. Það er samið af n., sem skipuð var af landbrh. hinn 18. ágúst 1971 til þess að fjalla um það verkefni að semja frv., er tæki til meðferðar nokkra lagabálka, þ.e. lög um kauprétt á jörðum, ábúðarlög, nr. 36 29. mars 1961, lög um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða frá 1962, lög um Jarðeignarsjóð ríkisins. Til viðbótar má geta þess, að inn í þetta frv. hefur veríð felldur verulega veigamikill þáttur af verkefnum Landnáms ríkisins eða úr l. nr. 46 frá 1971, þar sem fjallað er um hlutverk Landnáms ríkisins.

N. skilaði frv. þessu til jarðalaga, þar sem fjallað er um þá þætti málsins, sem snerta jarðeignir og meðferð á þeim, Jarðeignasjóð, sem í frv. er nefndur Jarðasjóður, og um kauprétt á jörðum og enn fremur um óðalsjarðir. N. skilaði öðru frv.: frv. til laga um ábúð á jörðum og verður það rætt síðar, en það er einnig á dagskrá þessa fundar.

Ég skal ekki um það dæma, hvort það sé hyggileg skipan að fella saman í ein lög fleiri þætti af þeim málum, sem þetta frv. fjallar um. En það kemur þó að mínu mati mjög til álita. Frv. eins og það liggur fyrir er hins vegar með margháttuðum annmörkum, sem hér verður lýst nánar, en þeirra er einnig getið í áliti minni hl. landbn. á þskj. 811, sem er undirritað af Eyjólfi K. Jónssyni auk mín. Frv. þetta er enn fremur lykillinn að því að samþykkja sum önnur þau frv., sem hér eru á dagskrá, í þeirri mynd, sem meiri hl. landbn. vill samþykkja þau og hv. stjórnarmeirihl. hér á Alþingi hefur ætlast til.

Ég skal nú víkja fyrst að því, að frv. þetta var af hv. landbn. Ed. sent til umsagnar allmörgum aðilum. Þessir aðilar voru í fyrsta lagi Landnám ríkisins, í öðru lagi skipulagsstjórn ríkisins, í þriðja lagi Samband ísl. sveitarfélaga, í fjórða lagi samtök sveitarfélaga í landinu og í fimmta lagi búnaðarsamböndin öll. Mjög margir af þessum aðilum skiluðu umsögnum um frv., þ.e. landnámsstjóri, skipulagsstjórn ríkisins, Samband ísl. sveitarfélaga, sum landshlutasamtökin, þ.e. Fjórðungssamband Norðlendinga, Samtök sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi, Samtök sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi, og af búnaðarsamböndunum Búnaðarsamband Snæfellinga, Búnaðarsamband Vestur-Húnvetninga, Búnaðarsamband Skagfirðinga, Búnaðarsamband Eyjafjarðar, Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga og Búnaðarsamband Suðurlands. Enn fremur bárust umsagnir um frv. frá stjórn Landeigendafélags Austur-Húnavatnssýslu og frá Landeigendafélagi Mosfellssveitar. Hér verður ekki horfið að því að rekja þessar umsagnir að neinu marki. Það hefur verið gert allitarlega í umr. og í þskj. í hv. Ed., og enn fremur birtast þessar umsagnir allar með nál. minni hl. n. á þskj. 811. Hjá því verður þó vart komist, að reyna að draga út úr þessum umsögnum þá megindrætti sem þar koma fram.

Í fyrsta lagi verður að segja það, að umsagnir þessar fela í sér margháttaða gagnrýni. Þær leiða enda sumar til þeirrar niðurstöðu að leggja til, að frv. þessu verði vísað frá og það ekki afgreitt á þessu Alþingi. Þær umsagnir, sem hafa jákvæða niðurstöðu, eru þó með því marki brenndar, að í þeim er að finna sterkar ábendingar um fjölmörg efnisatriði, sem umsagnaraðilar telja, að betur megi fara, og þar er að finna það sterkar ábendingar, sem ætla mætti að verði til þess að færa frv. þetta til betra horfs, að ég undrast það nokkuð, að hv. meiri hl. n. skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að taka ýmsar þeirra til greina. Í umsögnum landeigendafélaganna er um mjög sterka gagnrýni og ákveðna andstöðu að ræða gegn frv. þessu, og þar er eindregið lagt til, að því verði vísað frá.

Þetta eru þær meginskoðanir, sem fram koma í þeim umsögnum, sem prentaðar eru sem fskj. með nál. minni hl. á þskj. 811. Það er og athyglisvert við þessar umsagnir, að í sumum þeirra er að finna mjög sterkar athugasemdir við nokkur efnisatriði frv., og enn fremur, að lagt er til, að frv. verði vísað frá á þessu Alþingi og það endurskoðað til næsta Alþingis, og slíkar umsagnir undirritaðar af mönnum, sem áður hafa lýst fylgi við frv. á þingum bændasamtakanna. Eins og kom fram við 1. umr. þessa máls hér í hv. d., er þar meira að segja að finna undirskrift stjórnarmanns í tilteknu búnaðarsambandi, sem áður hafði skipað þingnefnd á Búnaðarþingi, er sérstaklega hafði um málið fjallað þar og mælt með samþykkt þess, en nú eftir að hafa kynnt sér málið til hlítar leggur hann til ásamt öðrum stjórnarmönnum í því búnaðarsambandi, að frv. verði vísað frá á þessu Alþingi, svo að meira tóm gefist til að athuga nokkur efnisatriði þess, sem gagnrýni valda.

Þetta sannar það, að jafnvel þeir ágætu forustumenn bændasamtakanna, sem hafa látið þá skoðun í ljós á aðalfundi Stéttarsambands bænda og Búnaðarþingi, að rétt sé að afgreiða þetta frv. í því formi, sem það er nú, eða svipuðu, telja við nánari athugun ýmsir hverjir, að rétt sé að taka málið enn til nýrrar endurskoðunar og hrapa ekki að afgreiðslu þess á yfirstandandi Alþingi.

Þetta þarf vitaskuld engum að koma á óvart. Frv. þetta er viðamikið og flókið. Það þarf meira en fáa daga til þess að kynna sér þetta mál með þeim hætti, að komist verði til botns í því, svo að menn geti verið tilbúnir til að taka afstöðu til þess, sem stenst endanlega gagnrýni. Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel, að þeim mönnum, sem þannig hafa breytt um afstöðu við nánari athugun, beri hrós og heiður fyrir að láta ekki fyrri afstöðu, sem hefur verið tekin eftir ónóga íhugun, ráða til loka, heldur hafa það, er sannara reynist, við nánari athugun.

Það vekur enga furðu, að frv. þetta hefur valdið deilum hér á hv. Alþ. bæði í hv. Ed. og í þessari hv. d., þegar landbn. hafa fjallað um afgreiðslu þess. Þau atriði, sem valda mestu um, að landbn, hv. Nd. hefur klofnað um þetta frv., eru fyrst og fremst, að okkur sýnist, að þeim tilgangi, sem ætlað er að ná með þessu frv., verði alls ekki náð, og í annan stað, að þær leiðir, sem fara á í því að ná þeim tilgangi, sem talað er um, að tryggja hagkvæma meðferð lands utan þéttbýlissvæða, séu alls ekki með þeim hætti, að viðunandi sé fyrir þá, sem þar eiga við að búa.

Ég skal nú fara örfáum orðum um þessi höfuðatriði í andstöðu minni hl. n. við frv.

Í 1. gr. frv. er greint frá þeim tilgangi þessara laga að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi víð hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda. Þetta er tilgangur, sem allir geta tekið undir, að sé góðra gjalda verður og væri í sjálfu sér æskilegt að styðja. Ef það er athugað nánar, hvernig félaginu, þ.e. hinna svokölluðu byggðaráða, sem þessum tilgangi á að ná, þá er ætlunin í fyrsta lagi að setja upp nýtt kerfi stofnana í þjóðum er fjallað í II. kafla frv., og fela þeim allmikil völd. Í brtt, meiri hl. n. kemur fram, að þar er lagt til, að breytt verði um uppbyggingu byggðaráðanna frá því, sem frv. hefur gert ráð fyrir. Í brtt. n. er gert ráð fyrir því, að byggðaráðin skipi stjórnir búnaðarsambanda og séu starfssvæði þeirra hin sömu og starfssvæði búnaðarsambands. Ákvörðun byggðaráðs sé gild, ef 8 byggðaráðsmenn séu sammála um tiltekin atriði.

Ég vil taka fram, að ég tel, að þessi brtt. sé fremur til bóta frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Hún er til bóta að því leyti, að hún tryggir, að byggðaráðin séu í höndum heimamanna, en ekki skipuð af ráðh., eins og frv. gerði ráð fyrir, og hún tryggir, að stjórnir búnaðarsambandanna fjalla um þessi mál og með því sé tryggt, að saman fari skrifstofukostnaður búnaðarsambands og byggðaráðs. Að öðru leyti er það kannske fremur til hins verra við þessa skipan, að starfssvæði sumra búnaðarsambanda eru svo stór, að það mundi valda bændum nokkrum erfiðleikum, t.d. á Austurlandi norðan Smjörvatnsheiðar eða suður í Álftafirði, að þurfa að leita til búnaðarsambands eða byggðaráðs, sem væri sama og búnaðarsambandsstjórn á Egilsstöðum, og t.d. bændum í Vestur-Skaftafellssýslu að leita til byggðaráðs á Selfossi, en þar hygg ég, að aðsetur Búnaðarsambands Suðurlands sé. Þrátt fyrir þessa annmarka tel ég, að þessi breyting sé fremur til bóta frá því, sem frv. gerir ráð fyrir.

Byggðaráðunum er ætlað að hafa afskipti af hvers konar meðferð lands og jarðefna, enn fremur allri mannvirkjagerð og eigendaskiptum á fasteignum í strjálbýli. Þessi verkefni byggðaráðs eru því viðamikil. Svo er að sjá sem bóndi megi eigi reisa hliðstólpa eða girðingarspotta án samþykkis byggðaráðs, og er ekki annað sýnna af því, hvað verkefni byggðaráðs eru viðurhlutamikil og nákvæm, að hvorki megi koma á nokkrum framkvæmdum né taka nokkur jarðefni eða skipta um eigendur á tilteknu landssvæði, án þess að afskipti byggðaráðs komi til. Nú er það svo, að sum af þessum verkefnum, sem fela á byggðaráði, eru þegar í höndum annarra aðila. Má þar fyrst og fremst nefna sveitarstjórnirnar í landinu, enda er það svo, að ef ætti að fella í strangar skorður öll þau atriði sem byggðaráð ættu að fjalla um, þá væri eðlilegt, að það væru fyrst og fremst sveitarstjórnirnar, sem hefðu þar úrslitaáhrif. Enn fremur er í sumum greinum, sem byggðaráð eiga að fjalla um, gert ráð fyrir í gildandi lögum, að Landnám ríkisins hafi þar afskipti af.

Byggðaráðin eru að mínum dómi óþarfar stofnanir. Ef ætti að styrkja tök sveitarstjórna og opinberra aðila á þeim málefnum, sem byggðaráði er ætlað að fjalla um, væri einfalt að gera það með því í fyrsta lagi, að sveitarstjórnirnar hefðu í sínum höndum fleiri skipulagsatriði en nú er, svo sem mundi gerast, ef landið yrði allt gert skipulagsskylt, og í öðru lagi að gera landnámsnefndirnar virkari, en þær starfa sem kunnugt er sem ráðgefandi n. fyrir Landnám ríkisins. Ég vil minna á það enn, hvernig landnámsnefndirnar eru byggðar upp. Þær eru skipaðar 3 mönnum í hverri sýslu, og eru tveir kosnir af hlutaðeigandi búnaðarsambandi, en einn skipaður af landnámsstjórn, og skal hann vera jarðræktarráðunautur í hlutaðeigandi héraði. Þar er því um að ræða menn, sem ekki síður en búnaðarsambandsstjórn þekkja nákvæmlega þau viðfangsefni, sem um á að fjalla í hverju héraði. Á því verður vart fundinn munur, hvort landnámsnefnd eða byggðaráð, miðað við það, að um búnaðarsambandsstjórn sé að ræða, fjall um málefni, því að hlutaðeigandi búnaðarsamband hefur öll tök á því og þar með bændurnir í því héraði, hverjir skipa þessar n. Ef t.d. búnaðarsambandi þætti jarðræktarráðunautur sinn vera lélegur og ekki hafa kunnugleika eins og vera þyrfti, væri einfalt að víkja honum úr starfi og ráða annan hæfari í hans stað. En til þess hygg ég, að sjaldan mundi koma, vegna þess, að jarðræktarráðunautar eru yfirleitt þeir menn, sem hafa yfirgripsmesta þekkingu á högum bænda á sínu starfssviði. Það væri því miklu einfaldara, ef ætti að fella þau ákvæði, sem fjallað er um í II. kafla þessa frv., þar sem segir um verkefni byggðaráðs, að efla landnámsnefndirnar og fela þeim og sveitarstjórnum að fjalla um þessi viðfangsefni, og þyrfti þá ekki að setja upp svokölluð byggðaráð. En m.a. nafnið og orðið byggðaráð er gagnrýnt af a.m.k. einum þeim aðila, sem sendir umsögn um þetta frv., talið óþarft og jafnvel óíslenskulegt.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að takmarka mjög réttindi bændastéttarinnar umfram aðrar stéttir þjóðfélagsins, hvað snertir ráðstöfunarrétt yfir eignum sínum og söluverði fasteigna. Þess er áður getið, að ekki er að sjá, að bóndi t.d. mætti reisa hliðstólpa eða girða girðingarspotta án samþykkis byggðaráðs. Það kemur einnig fram, að bændur verða að sæta því, að leyfi fáist fyrir sölu á jörð, að hann fái leyfi fyrir sölu á jörð sinni, og hann kann að þurfa að sæta mati á verði hennar. Þetta ern ákvæði, sem ekki gilda um aðra þegna þjóðfélagsins. Það er að okkar dómi, sem skipum minni hl. n., óviðurkvæmilegt að setja lög, sem skipta þegnum þjóðfélagsins í mismunandi flokka, — flokka, sem eru með því marki brenndir, að einn flokkurinn hefur frjálsræði til ákveðinna athafna og viðskipta, sem svo aftur þeir, sem skipa annan flokk eða þriðja flokk, eins og bændum er ætlað í þessu frv., hafa ekki rétt til. Ég tel, að það þurfi að finna leið að því markmiði, sem tilætlunin var, að fundin yrði með þessu frv., — leið, sem veitir öllum þegnum þjóðfélagsins sambærilegan rétt og takmarkar réttindi þeirra með sama hætti, hvort sem þeir búa í sveit eða við sjó. Ég tel ekki rétt að samþykkja frv., sem kveður á um það, að bændur einir allra þjóðfélagsstétta skuli búa við leyfakerfi og matsverð í sambandi við söluverð fasteigna, meðan aðrir búa við frjálsræði.

Þetta eru höfuðatriði þess, að minni hl. n. getur ekki fallist á að samþykkja þetta frv. í því formi, sem það er. Það setur upp óþarft kerfi byggðaráða, færir í hendur þeirra vald, sem með eðlilegum hætti ætti að vera í höndum annarra aðila, og það kveður á um, að hinar ýmsu stéttir þjóðfélagsins skuli búa við mismunandi réttindi. Frv. þetta er samið með það takmark fyrir augum, eins og önnur þau frv. um landbúnaðarmálefni, sem lögð hafa verið fram sem fylgifrv. þessa frv., að leggja niður Landnám ríkisins. Nú er hins vegar svo komið, að meiri hl. hv. landbn. hefur flutt brtt., sem kveða á um það, að Landnám ríkisins skuli starfa áfram. Þessar brtt. eru þó með því marki brenndar, að ekki er annað sýnna en að Landnám ríkisins eigi einungis að starfa áfram að nafninu til, en verkefnum þess skuli ráðstafað til annarra aðila.

Í þessu frv., sem hér er til umr., eru tekin upp ýmis af þeim ákvæðum, sem nú eru nálega eins eða samhljóða í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, nr. 45 frá 1971, þ.e.a.s. þeim kafla þeirra laga, sem fjallar um Landnám ríkisins og verkefni þess. Ef Landnám ríkisins á að starfa áfram, og því er ég mjög meðmæltur, þá er það þó skilyrði fyrir slíkri starfsemi þess, að það haldi sínum verkefnum, sem vel hefur gefist, að það hafi í sínum höndum. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi ekki töluvert eftir af ræðu sinni. Ég hef hug á því að slíta senn fundi, því að ég hef gert ráð fyrir, að fundur verði ekki mikið fram yfir fjögur.) Þá er ágætt tækifæri að fresta nú, því að ég á mikið eftir af ræðunni.