02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4068 í B-deild Alþingistíðinda. (3704)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sá vandi, sem nú er fyrst og fremst við að glíma í íslensku þjóðfélagi, er verðbólgan. Sá verðbólguvöxtur, sem átt hefur sér stað að undanförnu og fyrirsjáanlegur er fram undan að öllu óbreyttu, er meiri en svo, að þjóðarbúskapurinn geti undir honum risið. Hinn viðsjárverði verðbólguvandi er að nokkru leyti af útlendum toga spunninn og að nokkru leyti heimatilbúinn eða sprottinn upp í heimahögum. Hvers konar innfluttar vörur, svo sem matvörur, járn, timbur, rekstrarvörur ýmiss konar og þá ekki hvað síst olían, hafa hækkað svo mjög í verði á þessu og s.l. ári, að slíks eru fá dæmi. Slíkar hækkanir eru okkur auðvitað með öllu óviðráðanlegar, en hafa óhjákvæmilega óhagstæð áhrif á alla verðlagsþróun hér innanlands. En hin öra verðbólguþróun á einnig rætur að rekja til kostnaðarhækkana af innlendum ástæðum og þá ekki hvað sist til kauphækkana, sem ekki hefur verið stillt nægilega í hóf, ofbjóða greiðslugetu atvinnuveganna og stofna framleiðslu til útflutnings í beinan voða, sem ekki verður komist hjá að horfast í augu við.

Í stefnuræðu minni s.l. haust varaði ég við því,að menn spenntu bogann of hátt í kaupkröfum. Um það mál sagði ég þá m.a.:

„Hin öra aukning kaupmáttar tekna almennings s.l. þrjú ár ætti að vera góð undirstaða skynsamlegrar hófstillingar við gerð hinna almennu kjarasamninga, sem nú standa fyrir dyrum. Afstaða ríkisvaldsins til kjarasamninga við BSRB og BHM mun að sjálfsögðu einnig mótast af þessum viðhorfum. Vonandi tekst einnig að ná samkomulagi um endurskoðun á núgildandi fyrirkomulagi vísitölubindingar kaupgjalds, sem í senn takmarkar svigrúm stjórnvalda til hagstjórnar og veldur á margan hátt óeðlilegri mismunun. Vísitölubindinguna má þó auðvitað ekki skoða einangraða út af fyrir sig, heldur sem hluta af aðferðinni við kaupgjaldsákvarðanir í heild. Þegar vel er skoðað, er ákvörðun launa eitt mikilvægasta stjórntæki hagkerfisins. Mikið er því i húfi, að vel sé á þessu valdi haldið af handhöfum þess, samtökum verkalýðs og vinnuveitenda.“

Í áramótaávarpi og áramótagrein lagði ég áherslu á það sama, enda var þá enn ríkari ástæða til varnaðarorða. Ég benti á þá óvissu, sem fram undan væri í öllum áttum. Þá höfðu þó verið gerðir kjarasamningar á milli ríkisins og starfsmanna þess i BSRB, sem lofuðu góðu um sanngjarna hófstillingu i þessum efnum. Varnaðarorð mín í þessum efnum við þessi tækifæri og önnur virðast því miður ekki hafa borið tilætlaðan árangur.

Í hinum almennu kjarasamningum í febrúar og þá ekki síður þeim, sem síðar hafa verið gerðir, hefur verið samið um mun meiri launahækkanir en skynsamlegt var samkvæmt útreikningum og spám hagrannsóknadeildar. Í þeim hefur verið farið út fyrir þau mörk, sem samrýmanleg voru væntanlegri greiðslugetu velflestra atvinnugreina. Í þeim virðist heldur eigi hafa tekist að draga úr launamismun, þ.e. að lyfta hinum lægri launum meira en hinum hærri, en það var sú stefna, sem Alþýðusambandið hafði mótað mjög skýrt f samþykktum sinum, áður en gengið var til kjarasamninga, og það var markmið, sem ríkisstj. vildi stefna að og byggt var á í samningunum við opinbera starfsmenn. Niðurstaðan virðist i mörgum tilfellum hafa orðið, að launabilið hafi verulega breikkað, þrátt fyrir skýrar stefnuyfirlýsingar launþegasamtakanna.

Í áætlunum um væntanlega afkomu atvinnuveganna um s. l. áramót var miðað við, að meðallaunahækkun við fiskiðnaðinn yrði um 10% fyrstu 5 mánuði ársins. En niðurstaða rammasamninga ASÍ og vinnuveitenda fyrir verkamenn iðnaðar- og verslunarfólk er metin nálægt 20% meðalhækkun grunnkaupstaxta, og eru þá metin áhrif taxtatilfærslna, sérstakar láglaunahækkanir o.s.frv. Kaupgreiðsluvísitalan hækkaði um 6.18% 1. mars s.l., og þar með höfðu laun þá hækkað frá áramótum um 27–28%. En í sérsamningum einstakra starfsstétta, sem gengið hefur verið frá eftir gerð febrúarsamningsins, hafa veríð ákveðnar launahækkanir, sem fara langt fram úr þessum tölum. Talið er t.d., að meðalhækkun grunnlauna iðnaðarmanna sé um 25–30% og þar með 33–38% að meðtalinni hækkun kaupgjaldsvísitölu frá 1. mars s.l., og enn eru á ferðinni samningar, sem hefur ekkí verið gengið frá, þar sem enn frekar er sótt í hækkunarátt. Þegar jafnframt er haft í huga, að frá áramótum hafi viðskiptakjör versnað mjög verulega frá því, sem reiknað var með um s. l. áramót og jafnvel fram undir mars lok, þarf engan að undra, þó að endum verði ekki náð saman.

Ég skal aðeins nefna það, að meðalverð á freðfiskafurðum og heilfrystum fiski hefur lækkað um 6–7%. Kauphækkanir og aðrar tilkostnaðarhækkanir hafa, eins og alkunna er, farið jafnharðan út i verðlagið hér innanlands og haft í för með sér óhjákvæmilegar og tilfinnanlegar verðhækkanir. Samkv. hinu sjálfvirka vísitölukerfi mun svo vísitalan innan tíðar að öllu óbreyttu hækka mjög verulega eða frá 1. júní væntanlega um 13–15% og samkv. lauslegri áætlun um 7–8% frá 1. sept. Með slíkri þróun verður framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuveganna orðinn þeim algerlega ofviða, jafnvel þótt markaðsverð erlendis héldist í því horfi, sem nú er.

Ég skal aðeins til skýringar nefna þá breyt., sem orðin er og blasir að öllu óbreyttu við á afkomu hraðfrystihúsanna. Um s. l. áramót var reiknað með því, að hreinn hagnaður frystihúsa í heild gæti á ársgrundvelli orðið um 250–300 millj. kr., en í dag er launakostnaður orðinn um 19% hærri en reiknað var með um áramót, markaðsverð 6–7% lægra, eins og áður er sagt, auk ýmiss annars, sem gerir stöðu atvinnuveganna verri, en ég fer hér ekki út í. Dæmið hefur því snúist þannig við, að miðað við ástandið i dag er samkv. útreikningum hagrannsóknadeildar um 1100–1200 millj. kr. tap á hraðfrystihúsunum á ársgrundvelli. Geta menn þá gert sér hugmynd um útkomuna, ef væntanlegar vísitöluhækkanir 1. júní og 1. sept. ættu að bætast við.

Ég skal ekki fara lengra út í einstök atriði. Ég vil aðeins segja þetta almennt: Það er nú augljóst, að þær sveiflur í efnahagsmálum, sem fram undan virtust í árslok 1973, verða miklu sneggri og hastarlegri en þá var búist við. i fyrsta lagi er komin fram lækkun á verðlagi frystra fiskafurða í Bandaríkjunum og á fiskimjöli. Í öðru lagi virðist nú líklegast, að hið geysiháa olíuverð haldist fram eftir árinu. Í þriðja lagi fer almennt innflutningsverðlag hækkandi. Og siðast, en ekki síst fela hinir nýju kjarasamningar í sér launahækkanir langt umfram það, sem atvinnuvegirnir geta staðið undir á óbreyttu verðlagi á afurðum þeirra, hvað þá við lækkandi markaðsverð. Meðan þessum samningum er stefnt í alvarlegan halla á viðskiptum við útlönd. Að gerðum þessum samningum og að óbreyttum framkvæmda- og útlánaáformum fara þjóðarútgjöldin að öllu óbreyttu langt fram úr því, sem þjóðartekjur og eðlilegur innflutningur fjármagns leyfir. Það er því augljóst mál, að ef ekkert er að gert, blasir við háskaleg verðbólguþróun til viðbótar þeirri, sem orðin er, sem stefnir atvinnuöryggi landsmanna, lánstrausti þjóðarinnar erlendis og áframhaldandi framförum og hagvexti á komandi árum i hættu. Viðtækar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu og til þess að stuðla að jafnvægi f efnahagsmálum eru því óumflýjanlegar að mínum dómi, ef koma á i veg fyrir taprekstur atvinnufyrirtækja, stöðvun í einstökum atvinnugreinum og samdrátt i atvinnu.

Stjórnin hefur í dag lagt fram frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Frv. þetta er að verulegu leyti byggt á hugmyndum, sem ég lagði fram í tillöguformi í ríkisstj. 18. mars s.l., en hefur að öðru leyti mótast við umr. og skoðanaskipti í ríkisstj. En rétt er þó að geta þess, að stjórnarflokkarnir hafa áskilið sér að hafa óbundnar hendur um einstök atriði frv.

— Þær ráðstafanir, sem að mínu mati eru nauðsynlegt að gera í fyrsta áfanga og felast eiga í þessu frv. eða gerast eiga á annan hátt, eru í meginatriðum þessar:

1. Öflugt viðnám gegn almennum verðhækkunum, verðhemlun fram yfir 30. nóv. 1974.

2. Binding kaupgreiðsluvísitölu fram yfir 30. nóv. 1974. Ríkisstj. er þó heimilt að ákveða fasta verðlagsuppbót á lægri launin eða á allt að 30 þús. kr. mánaðarlaun.

3. Binding launaliðar verðlagsgrundvallar búvöru fram yfir 30. nóv. 1974 og sérstakt aðhald að verðákvörðun búvöru.

4. Sérstakt aðhald að fiskverðsákvörðunum fram yfir 30. nóv. 1974.

5. Frestun fram yfir 30. nóv. 1974 á gildistöku allra grunnlaunahækkana umfram 20% í fyrsta áfanga nýgerðra kjarasamninga, en það tekur þó ekki til láglauna samkv. nánari skilgreiningu, þ.e.a.s. 36 þús. kr. mánaðargrunnlauna miðað við fulla dagvinnu.

6. Hækkun útgjalda ríkissjóðs tilniðurgreiðslna vöruverðs á fjárlögum.

7. Hækkun árlegra fjölskyldubóta úr 12 þús. kr. í l5 þús. kr.

8. Lækkun ríkisútgjalda frá fjárl. um allt að 1500 millj. kr., er fyrst og fremst fari til að kosta hækkun niðurgreiðslna og fjölskyldubóta.

9. Álagning 4% skyldusparnaðar á skattgjaldstekjur tekjuskattsskyldra manna 1974 umfram 400 þús. kr.

10. Skuldbinding viðskiptabanka og sparisjóða, lífeyrissjóða, atvinnuleysistryggingasjóðs og líftryggingafélaga til kaupa á skuldabréfum Framkvæmdasjóðs eða ríkissjóðs fyrir a.m.k. 15% ráðstöfunarfjár.

11. Skuldbinding lífeyrissjóða til að kaupa skuldabréf ríkissjóðs, Byggingasjóðs ríkisins eða Framkvæmdasjóðs fyrir alls 35% ráðstöfunarfjár, og er þá meðtalin skuldbinding samkv. næsta lið á undan.

Gert er enn fremur ráð fyrir, að ríkisstjórn og Seðlabankinn beiti sér fyrir eftirfarandi ráðstöfunum :

1. Endurskoðun lánskjara allra lánastofnana í landinu og verði m.a. stefnt að verðtryggingu útlána fjárfestingarlánasjóða.

2. Samkomulag verði gert við viðskiptabankana um 22% hámarksaukningu útlána á árinu 1974.

3. Samkomulag verði gert við viðskiptabankana um að létta á skuldum þeirra erlendis, svo að þær aukist ekki á árinu 1974 miðað við meðaltal ársins 1973.

4. Sett verði hámark fyrir nýjum erlendum lántökum á árinu 1974 og stefnt að því, að skuldaaukning erlendis fari ekki yfir 5 þús. millj. kr. á árinu 1974, miðað við núgildandi gengi.

5. Að fylgt verði áfram sveigjanlegri gengisstefnu sem þætti f heildarstjórn efnahagsmála til þess að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega, en ekki er gert ráð fyrir, að verði þörf á neinni verulegri sveiflu, ef framangreint frv. verður að lögum.

Þessum ráðstöfunum er, eins og áður sagði, fyrst og fremst ætlað að skapa nauðsynlegt svigrúm til undirbúnings frekari aðgerða. Það er mikilvægt, að þetta svigrúm verði notað til þess að leita varanlegra úrræða á sviði launa- og verðlagsmála, opinberra fjármála, peningamála og til að brjóta verðbólguhugsunarháttinn á bak aftur. Meðal mikilvægra atriða, sem athuga þarf í þessu sambandi, eru nýjar aðferðir við gerð kjarasamninga með það fyrir augum að tryggja sanngjörn launahlutföll á öllum vinnumarkaðinum og koma í veg fyrir launakapphlaup stétta i milli, jafnframt því sem sniðnir væru varanlega vankantar af núgildandi kerfi vísitölubindingar launa. Annað atriði, sem taka þarf til rækilegrar athugunar, er almenn verðtrygging hvers konar fjárskuldbindinga. Jafnframt þarf að fara fram gagnger endurskoðun á skattmeðferð verðhækkunarhagnaðar og vaxta.

Þó að þær viðnámsaðgerðir, sem felast f þessu frv., feli í sér nokkra kjaraskerðingu í bili, ætti það ekki að verða neinum ofraun, þegar tillit er tekið til þess, að við búum við meiri velmegun og almennt betri lífskjör en nokkru sinni og reyndar eins og þau þekkjast nú best hjá öðrum þjóðum. En þessar viðnámsaðgerðir eru nauðsynlegar til þess að tryggja forsendur áframhaldandi velmegunar og framfara, þ.e. atvinnureksturinn og atvinnuöryggi. Og eitt er víst, að ákvæði frv. eru byggð á og í samræmi við þá jafnajafnaðarstefnu, sem lýst var yfir af launþegasamtökunum á sínum tíma. Um þessar viðnámsaðgerðir og þó enn fremur um frambúðarráðstafanir þyrfti að nást sem víðtækust samstaða. Fyrir þjóðarnauðsyn þurfa þröngir stundarflokkshagsmunir að víkja. Menn þurfa að líta lengra en rétt fram fyrir tærnar á sér. Ég lít á afgreiðslu þessa frv. um viðnámsaðgerðir gegn verðbólgu sem prófstein á það, hvort Alþ. og ríkisstj., hið sameinaða þjóðfélagsvald, á að stjórna í þessu landi eða hvort sérhagsmunaklíkur eiga að ráða hér lögum og lofum.

Á þessu þjóðhátíðarsumri ættu landsmenn fyrst og fremst að hugsa sem Íslendingar, en ekkí aðeins sem flokksmenn. — Góða nótt.