02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4077 í B-deild Alþingistíðinda. (3706)

Almennar stjórnmálaumræður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir íslendingar. Það var daufur ráðh., en samt reiður, sem var að ljúka máli sínu. Ræða hans bar þess glöggan vott, að honum er nú orðið ljóst, að valdaferli hans er að ljúka. En af hverju er hann reiður? Hann er reiður af því, að hann hafði búist við því að geta kvatt ráðherrastólinn með geislabaug um ennið. En nú hvílir á höfði hans þung þyrnikóróna, sem hann sjálfan svíður sáran undan og þjóðin horfir á með ugg og ótta.

Ekki er ég í nokkrum vafa um, að sagan mun á sínum tíma fella þann dóm um núv. ríkisstj., að hún sé versta ríkisstj., sem setið hafi að völdum á Íslandi. Þetta er nú þegar ekki aðeins skoðun þeirra, sem í upphafi höfðu ótrú á stjórnarsamstarfinu, heldur vex þeirri skoðun ört fylgi meðal hinna, sem í upphafi voru því fylgjandi. Hvernig stendur á þessu? Skýringin er ekki flókin. Allir vita, að undanfarin þrjú ár hefur verið mesta góðæri, sem yfir landið hefur gengið. Enn í dag hafa allir atvinnu, það er meira að segja skortur á vinnuafli, og allir hafa fullar hendur fjár. Það er mikil velmegun á Íslandi. En menn skilja, að þetta er ekki að þakka góðri stjórn á landsmálum. Þetta er að þakka metverðlagi á íslenskum afurðum erlendis og miklum sjávarafla.

En er þá ekki allt eins og það á að vera? Nei, það er eitthvað annað. Ástandið á líðandi stund er ágætt, en velmegunin stendur á brauðfótum. Það er þetta, sem hæstv, iðnrh., Magnús Kjartansson, skilur ekki. Það, sem er að, er, að í góðærinu undanfarið er smám saman búið að halda þannig á málum af þeim, sem ráða, og þá ekki síst Magnúsi Kjartanssyni, að framtíðin er voveifleg, meira að segja nánasta framtíð.

Fyrir 6–7 árum dundu miklir erfiðleikar yfir þjóðina, verðfall á afurðum og aflabrestur. En þáv. ríkisstj. brást af myndarskap við erfiðleikunum. Árið 1971 var svo komið, að þjóðartekjurnar jukust meira en nokkru sinni fyrr eða um 12%. Síðan eru liðin 3 mestu góðærisár í sögu þjóðarinnar. Nú spá sérfræðingar ríkisstj. því, að á þessu ári, sjálfu þjóðhátíðarárinu, verði vöxtur þjóðartekna ekki nema sjöttungur þess, sem var, þegar ríkisstj. tók við völdum, eða ekki 2%. Hverju getur þetta verið öðru að kenna en lélegri landsstjórn? Getur nokkurt mannsbarn verið í vafa um það?

Þegar svo er komið í einstöku góðæri, að verðbólga vex um 40%, hvað ber það vott um annað en óstjórn? Þegar kaupgjald hækkar um 60% á milli ára og kaup hinna tekjuháu hækkar miklu meira en hinna tekjulágu, hvað er það annað en stjórnleysi? Þegar afkastamestu fyrirtæki þjóðarinnar, skuttogararnir, tapa milljónum á mánuði, um hvað ber það vott annað en sjúkt atvinnulíf? Þegar mikilvægasta útflutningsgrein, frystiiðnaðurinn, sem hýr við hærra verðlag erlendis en nokkru sinni fyrr, sér fram á tap á árinu, sem telja verður í milljörðum, hvað sýnir það annað en að stjórnendur landsins hafa brugðist hlutverki sínu?

Skynsamir menn hljóta að spyrja: Hvernig getur staðið á öðru eins og þessu, að einstakt góðæri skuli leiða til dæmalaus öngþveitis? Skýringarnar eru tvær. Annars vegar er ástæðan sú, að ríkisstj. hefur aldrei tekist að móta nokkra heildarstefnu í efnahagsmálum. Sem dæmi má nefna, að samfara geysilegum vexti í útflutningsatvinnuvegunum í kjölfar verðhækkana og aflaaukningar hefur ríkissjóður þrefaldað útgjöld sín. Það hefur átt að nota sömu peningana og sama vinnuaflið tvisvar. Það er auðvitað ekki hægt. Afleiðingin hefur orðið stjórnlaus verðbólga. Hin meginástæðan er sú, að ríkisstj. hefur ekki verið samhent. Frá upphafi hefur ríkt þar sundrung, meira að segja óheilindi. Um það skal ég nefna nokkur dæmi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkisstj. taldi útfærslu landhelginnar í 50 mílur eitt aðalmál sitt. Þótt flokkur minn hafi að vísu fremur kosið, að hin nýja landhelgi væri miðuð við landgrunnið, hefur hann af fullum drengskap stutt ríkisstj. í þessu máli. En hafa stjórnarflokkarnir komið drengilega fram hver við annan í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar?

Allir muna, að þegar deilan við Breta var komin á mjög alvarlegt stig, gerði forsrh. Íslands samkomulag við forsrh. Breta um hugsanlega lausn deilunnar. Auðvitað hafði íslenski forsrh. reynt að ná eins hagkvæmum samningi fyrir Íslendinga og hægt var. Hann átti rétt á því að fá stuðning þings og þjóðar. Og allir flokkar þingsins reyndust vilja styðja hann nema einn stjórnarflokkurinn. Þingflokkum Alþb, gerði samþykkt um að hafna samkomulaginu og gera forsrh, landsins ómerkan orða sinna. Hér var um einstakan ódrengskap að ræða. Að vísu sáu flestir þm. þeirra að sér, áður en lauk, en hug sinn voru þeir búnir að sýna.

Annað aðalmál þessarar ríkisstj. var uppsögn varnarsamningsins. En af einhverjum ástæðum hafa ráðh. Alþb. ekki haldið fast á skoðunum sínum í þessu máli. Þeir létu það viðgangast, að 21/2 ár liðu, áður en Bandaríkjastjórn voru sýndar fyrstu till, íslensku ríkisstj. Og nú hefur Bandaríkjastjórn verið veittur svo langur frestur til þess að svara, að engum dettur í hug, að samningnum verði sagt upp eða nýr samningur gerður fyrr en eftir kosningar, sem sjálfir Alþb: ráðh, segjast vilja, að fari fram í haust. Hver getur verið skýringin á þessum einstaka aumingjaskap í þessu aðalmáli Alþb.? Ætli hún geti verið önnur en sú að nota málið til þess að bregða samstarfsflokkunum um svik og geta haldið áfram að nota málið sem áróðursmál í kosningum? Er ekki búið að koma í ljós í ótal málum, að Alþb: foringjarnir hafa meiri áhuga á áróðri en jákvæðri lausn mála.

Í þriðja lagi skal ég nefna nýjasta hneykslismál ríkisstj., leyfin handa austur-þýsku togurunum til þess að skipta hér um áhafnir. Þessar leyfisveitingar voru réttlættar með því, að togararnir veiddu við Kanada og Nýfundnaland. Í dag las ég í Nd, orðrétt bréfaskipti austur- þýska sendiráðsins og utanrrn. Þar kemur fram, að umsókn austur-þýsku stjórnvaldanna var alls ekki bundin við togara, sem veiða við Kanada og Nýfundnaland, heldur almennt við togara, sem stunda úthafsveiðar, hvort sem er á Íslandsmiðum eða annars staðar. Hæstv. sjútvrh., Lúðvík Jósepssyni, var send þessi umsókn til umsagnar, og mælti hann með því, að hún yrði samþ. Hann stakk ekki upp á neinu skilyrði um, að leyfin yrðu bundin við þá togara eina, sem veiddu við Kanada og Nýfundnaland, og leyfið sem utanrrn, veitti samkv. meðmælum Lúðvíks Jósepssonar, var ekki bundið neinum slíkum skilyrðum. Undir þessum kringumstæðum eru þessar leyfisveitingar þvílíkt hneyksli, að ég gerði í dag kröfu til þess, að Lúðvík Jósepsson segði af sér ráðherraembætti. Það er ekki hægt að hafa í embætti sjútvrh. mann, sem hefur reynst jafn hörmulega glámskyggn á íslenska hagsmuni og hér hefur átt sér stað. Ef Lúðvík Jósepsson segir ekki af sér vegna þessara óafsakanlegu mistaka, ætti hæstv, forsrh, að biðjast lausnar fyrir hann. Slíkt mundi verða gert hvarvetna í nálægum löndum. Menn, sem fremja augljós afglöp, halda ekki ráðherraembættum sínum.

Þá kem ég að fjórða atriðinu, sem sýnir sundrungina og óheilindin í ríkisstj. Það er yfirlýsing hæstv. iðnrh, Magnúsar Kjartanssonar, um, að stjórnarflokkarnir hafi allir heimilað forsrh. að rjúfa þing og boða til kosninga í haust. Auðvitað er það forsrh. eins að gefa slíkar yfirlýsingar. Það er upplýst, að iðnrh. hafði ekkert samráð haft við forsrh., áður en hann gaf þessa yfirlýsingu. Slíkt er ekki aðeins fullkominn skortur á mannasiðum, það er fyrst og fremst ódrengskapur í garð forsrh, og samstarfsflokka. Við þetta bætist svo, að allir þm. SF, bæði formaður flokksins og ráðh. hans, hafa lýst því yfir, að hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, hafi farið með rangt mál í yfirlýsingu sinni. Er nú að undra, þótt almenningur spyrji, hvernig samstarf slíkra manna geti blessast? Og hefur það ekki í raun og veru verið svona frá byrjun, þótt nú komi það ljósara upp á yfirborðið, þegar sennilegt er, að stjórnarsamstarfið sé að sundrast? Ætli þarna sé ekki einmitt að leita einnar meginskýringarinnar á óstjórninni á Undanförnum árum?

Í fimmta og síðasta lagi skal ég víkja að meðferð ríkisstj. á hugsanlegum ráðstöfunum gegn þeim efnahagsvanda, sem við blasir. í dag lagði ríkisstj. fram frv. um efnahagsráðstafanir, sem gilda eiga til nóvemberloka. Í grg. eru þau athyglisverðu ummæli, að sjálfir stjórnarflokkarnir hafi óbundnar hendur um einstök atriði frv., en í því eru m.a. ákvæði um lögbindingu kaupgjaldsvísitölu og ógildingu kauphækkana samkv. nýgerðum kjarasamningum, ef þær hafa verið meiri en 20%. Um frv. í heild hafa staðið harðvítugar deilur innan ríkisstj. Einn daginn hafa ráðh. Alþb. samþykkt vísitölubindinguna og kaupskerðinguna,en hinn daginn hafa þeir lýst sig andvíga. Enginn veit, hvað þeir segja að síðustu í þessu máli fremur en varðandi landhelgissamningana við Breta á sínum tíma. Þessum mönnum er ekki treystandi í einu né neinu.

Ástand íslenskra efnahagsmála er nú því miður orðið þannig, að ríkisstj. ræður ekki lengur við það og á því auðvitað að segja af sér. Sundurlyndi innan ríkisstj. blasir nú einnig svo augljóslega við alþjóð, að stjórnin er ekki starfhæf. Á því öngþveiti, sem nú hefur skapast, er enginn önnur frambúðarlausn til en sú, að efnt verði sem fyrst til kosninga og þjóðinni veittur kostur á að fela ábyrgum og heiðarlegum mönnum að takast á við vandann.

Það er eflaust rétt, að ekki eru til nein töfraorð, sem leysa þann ógnarvanda, sem við blasir, og ekki nein einföld allsherjarráð heldur. En eitt er víst: Ef tekist er á við vandamálin af djörfung og kjarki, af samhug og samheldni, ef horft er á framtíðarhag þjóðarheildarinnar, en ekki stundarhag einstaklingsins, ef góðvild og drengskapur eru látin ráða ferðinni, en ekki áróðurslöngun og metingur, ef um ærlegan vilja er að ræða til þess að gera það eitt, sem talið er rétt, þá er hægt að vinna bug á vandanum og varðveita velferð og velmegun á Íslandi.