02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4083 í B-deild Alþingistíðinda. (3708)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ábúendur, sem flosnuðu upp úr stjórnarráði Íslands eftir síðustu alþingiskosningar, höfðu orð á því, að þeir gengju frá góðu búi, spáðu, að hinir, sem við tóku, mundu reynast iðnastir við að sólunda fyrningum úr sjóðum, sem fyrirrennararnir hefðu dregið saman í forðabúr og kistuhandraða, En verði því með réttu haldið fram, að búskapur viðreisnarstjórnarinnar hafi verið að risa á réttan kjöl eftir áralanga búsveltu, um þær mundir sem hún lét af völdum, þá er ekki um að villast, að núv. ríkisstj. hefur búið stórum betur. Sjóðirnir góðu, gjaldeyrisvarasjóður og verðjöfnunarsjóður, eru á sínum stað og hafa gildnað fremur en rýrnað. En samtímis hefur bússtofninn blómgast, tækjakostur búsins eflst meira en dæmi eru til á svo skömmu skeiði og viðurgerningur við heimafólk borið af öllu, sem áður hefur þekkst á heimilinu því.

Ofan á allt þetta hefur svo landareignin verið stækkuð, svo að um munar. Vænn geiri af þrætublettinum gamla á hafinu hefur verið helgaður þjóðarbúi Íslendinga og þannig haldið á málum, að þeir, sem við er að deila, hafa ýmist dregið sig í hlé eða sætt sig við stórfellda skerðingu á fyrri nytjum. Órækastur vitnisburður um raunhæft gildi útfærslunnar eru þau ummæli eins þeirra skipherra, sem mest mæðir á að gæta hins vota vallar, að landhelgisgæsla á liðnum vetri hafi verið sú auðveldasta og árangursríkasta í manna minnum.

En ekki nægir það eitt að helga sér sjávarnytjarnar. Til að þær verði björg í bú, þarf að efla skipastólinn, sem djúpmiðin nytjar, og svo sannarlega hefur það verið gert. Enginn gerist til að mæla bót viðskilnaði fyrri húsbænda í þeirri grein, sem skildu svo við togaraflotann, að hann var drabbaður niður og vinnslustöðvar í heilum landshlutum skorti verkefni mikinn hluta ársins. Nú hefur skipastóllinn verið endurnýjaður, svo að algjör umskipti eru orðin í atvinnuskilyrðum viða um land, og á þó enn eftir að bætast drjúgum við. Svo gagnger eru umskiptin, svo rækilega hefur hlutur strjálbýlisins verið bættur og jafnvægið í þjóðarbúskapnum þar með treyst öllum í hag, að nú gætir þess í fyrsta skipti um langan aldur, að fólksflutningar beinast einkum úr þröngbýlinu í þjónustumiðstöðinni hér við Faxaflóa, til frumframleiðslustöðvanna dreifðu í öðrum landsfjórðungum.

Vinnslustöðvunum í landi, sem margfalda verðmæti aflans, hefur ekki siður verið sinnt en skipastólnum. Heildaráætlun um endurnýjun frystihúsa og umbætur á þeim er í framkvæmd. Lögð hafa verið drög að skipulegri þróun lagmetisiðnaðar. Vélvæðingu í fiskiðnaði fleygir fram. Og í sumar tengir vegur umhverfis samfellda landareign íslensku þjóðarinnar byggðirnar eystra og vestra, syðra og nyrðra í fyrsta skipti í 11 alda búsetu hennar í landinu.

Jafnframt þessum stórstigu og fjárfreku framkvæmdum hefur verið haldið uppi á Íslandi lífskjörum, sem teljast með þeim bestu, sem þekkjast, og eru tvímælalaust jafnbetri en í öðrum löndum, sem við helst berum okkur saman við. Framleiðninni, sem lífskjörin hyggjast á, hefur þar að auki verið náð, án þess að meiri háttar spjöllum valdi á umhverfi né mengun á lífslofti, þó að ljóst sé orðið, að í því efni verði héðan í frá að fara með fullri varúð og strangri aðgát.

Að sjálfsögðu er það, sem vel hefur gengið og til heilla horfir, ekki ríkisstjórn né þingmeirihluta einum að þakka nú frekar en endranær. Fram á s.l. ár var hagsveiflan í heiminum okkur Íslendingum einkar hagstæð. Verðlag á helstu útflutningsafurðum okkar sté hraðar en verð á aðkeyptum tilföngum og bætti okkur viðskiptakjörin.

En hagsveiflur á heimsmarkaði, jafnt og í okkar þrönga hagkerfi, hníga og risa með ýmsu móti. Nú hefur það gerst á liðnum vetri, að rísandi verðbólguöldur, bæði utan að og innan frá, hrannast samtímis að íslenska hagkerfinu. Verðlag þýðingarmikilla útflutningsgreina á heimsmarkaði stendur í stað eða lækkar, jafnframt því sem verð á innflutningi hækkar og í sumum ómissandi vöruflokkum hraðar en nokkru sinni áður. Leita verður allt aftur til stríðsársins 117 til að finna samjöfnuð um hækkanir innflutningsverðlags. Samtímis ber svo við í kjarasamningum, að á síðasta stigi samningsgerðar virða nokkrir hagsmunahópar að vettugi markaða stefnu heildarsamtakanna í kjaramálum. Sú stefna var í því fólgin, að við ríkjandi aðstæður bæri að leggja áherslu á kjarajöfnun á þann veg, að raunhæf kjarabót, sem um gat verið að ræða, eins og málum var háttað, kæmi fyrst og fremst í hlut þeirra lægst launuðu. Aðrir, sem betur eru settir, yrðu að svo stöddu að leggja megináherslu á að halda sínu og drýgja raungildi þess, sér í lagi með skattkerfishreytingu. En það var öðru nær en að þessi raunhæfa og réttláta stefna fengi að ráða, þegar frá voru taldir kjarasamningar BSRB og rammasamningur ASÍ. Þess í stað hófst sannkallað launakapphlaup einstakra hagsmunahópa, sem ekki er enn séð fyrir endann á og magnar verðbólguflóðið, sem fyrir var.

Á undanförnum uppgangsárum hefur verið leitast við að láta vaxandi ráðstöfunartekjur ná til allra, þó að ýmislegt skorti á, að dreifingin hafi verið eins og ákjósanlegt væri frá sjónarmiði félagslegs réttlætis. En þegar hagur þjóðarinnar þrengist miðað við þróun síðustu ára, er enn brýnna en áður, að kjörum sé þannig skipt, að það, sem aflögu er, komi þar niður, sem þörfin er mest. Sé þessa ekki gætt, komi til launakapphlaups, þar sem hver hagsmunahópur reynir að olnboga sig áfram eftir fremstu getu, hlýtur af að hljótast stóraukið launamisrétti, þar sem þeir meiri máttar hrifsa til sín af hinum, sem minna bera úr býtum.

Það ætti ekki að þurfa að brýna fyrir mönnum, að niðurstaðan af efnahagskollsteypum og verðbólguholskeflum er ævinlega að færa fjármuni frá þeim, sem lítið hafa fyrir, í hendur þeirra, sem betur eru settir. því er viðnám við vaxandi verðbólgu skylda stjórnar, sem aðhyllist sjónarmið félagslegs réttlætis.

Svo er fyrir að þakka, að enn er ekki óbætanlegur skaði skeður. Það, sem við er að fást, er í rauninni aðlögunarvandamál. Menn verða að gera sér grein fyrir, að vegna utanaðkomandi aðstæðna getur ekki sem stendur verið um að ræða eins öra aukningu á ráðstöfunartekjum og átt hefur sér stað um skeið. Sé aðvörunarmerkjunum ekki sinnt, vita allir, hvernig fer: samdráttur hefst, atvinna minnkar og verður stopul, gjaldeyrisforði þverr, lánstraust erlendis fer forgörðum, framkvæmdagetan til að búa í haginn fyrir framtíðina dvínar, og því hærra sem verðbólguholskeflan fær að risa, án þess að að sé gert, þeim mun dýpri reynist öldudalurinn, sem á eftir fer.

Í dag var lagt fram á Alþ. frv. ríkisstj, um aðgerðir til að veita verðbólgunni viðnám. Þótt þar séu einstök atriði, sem við í SF hefðum kosið að haga á annan veg, taldi ég einsýnt að standa að flutningi þess. Frv. fjallar um bráðabirgðaráðstafanir fram til nóvemberloka í því skyni að hefta fyrirsjáanlegar víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds, sem ógna mundu atvinnuöryggi og framtíðarhagvexti, væri ekkert að gert. Ákvæði frv. verða kynnt í fréttum, svo að ég tel ekki rétt að verja takmörkuðum ræðutíma í að rekja þau. En meginmarkmið með frv. eru þessi: Að stuðla að því, að full atvinna haldist. Vernda kjör hinna lægst launuðu. Tryggja innlent fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda, og reisa skorður við verðbólgubraski með sparifé þjóðarinnar.

Rétt er, að það komi fram, að stjórnarflokkarnir voru ekki á einu máli hversu haga skyldi samráði við hagsmunasamtök launþega og aðra samningsaðila á vinnumarkaði um sum þau atriði, sem í frv. felast. Slíkar viðræður eru þó hafnar og verður haldið áfram. En í mínum augum skiptir það höfuðmáli, að þjóðin á heimtingu á að fá að sjá það Alþ., sem hún kaus fyrir 3 árum, takast á fyrir opnum tjöldum við vandann, sem við er að etja.

Úr því að stuðningsflokkar ríkisstj. náðu málefnalegri samstöðu um meginefni tillögugerðar um úrræði til að mæta aðsteðjandi erfiðleikum, var að mínum dómi allsendis ótækt, að skiptar skoðanir um málsmeðferð væru látnar koma í veg fyrir, að þeir legðu frv. um viðnám við verðbólguháskanum fyrir Alþingi. Frv. það arna fjallar að verulegu leyti um bráðabirgðaráðstafanir, sem eiga að gilda um takmarkaðan tíma. Markmiðið með því er að veita tóm til að undirbúa þær kerfisbreyt., sem líklegastar þykja til að búa svo um hnúta, að verðbólguþróun verði íslensku þjóðarbúi viðráðanlegri en reynst hefur um langt skeið.

Mönnum er af langri reynslu margra ríkisstj. á mörgum kjörtímabilum fullkunnugt um ýmsa óþægilega agnúa á skipan peningamála, skattamála og kjaramála, sem unnt er að ráða bót á, ef menn taka í sig pólitískan kjark og áræða að láta heildarhagsmuni ganga fyrir sérhagsmunum, þótt rótgrónir og illvígir kunni að vera. Tími er til kominn, að við hérna í þingsölunum áttum okkur á því, að það eru sjálfstæðir einstaklingar, sem kjósa til Alþ., en hvorki fyrirtæki, sérhagsmunahópar né áróðursmálgögn þeirra. Viljinn til að víkja út af troðnum slóðum, sem reynst hafa leiða í efnahagsógöngur, a.m.k. einu sinni á kjörtímabili, er vakandi með þjóðinni, og þeir, sem hún hefur falið umboð sitt, mega með engu móti láta sinn hlut eftir liggja.

En hvaða líkur eru á, að frv. ríkisstj. nái fram að ganga, þar sem svo er komið eftir brotthlaup eins þm. úr stjórnarliðinu, að stjórnarandstaðan hefur stöðvunarvald í annarri þd.? Um það skal engu spáð á þessari stundu, enda verður ekki langt að bíða, að sú gáta ráðist. En það vil ég fullyrða, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa, síðan ríkjandi ástand kom upp á Alþ., sýnt ótvíræðan vilja til að leita samkomulags til að koma fram þýðingarmiklum málum, og svo mun enn verða í þetta skipti.

Við erum með afdrifaríkara mál í höndum en svo, að það megi koðna niður í sjálfheldu fyrir þá sök, að atkvæði geta staðið jöfn í Nd. Á þessu þingi er komið meira en nóg af pólitískri hrekkvísi, þótt tólfunum kastaði, þegar nokkrir þm. Sjálfstfl. tóku upp ofsafengna baráttu gegn bráðabirgðasamkomulaginu við Breta, til að storka þeim þm, stjórnarflokkanna, sem þeir vissu trega til fylgis við málið. Nú hefur reynslan afsannað allar hrakspár, sem þá voru í frammi hafðar, en söm er þeirra gerð, sem þá létu illum látum.

Nú fer þjóðhátíð í hönd, sem kostað hefur verið kapps um, að þannig yrði minnst, að þjóðinni væri til sóma. Það væri léleg frammistaða Alþ. á þjóðhátíðarárinu ef það léti ásannast, að fulltrúar þjóðarinnar réðu ekki við vanda, sem að drjúgum hluta er heimatilbúinn og enn er tóm til að afstýra að verulegu leyti.

Nú þurfa íslendingar, en þó sér í lagi þeir, sem hlotið hafa sæti á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, að sýna, að þeir eigi þau sterku bein, sem samkv. hinu fornkveðna þarf til að þola góða daga. Við höfum um skeið átt betri daga en nokkur önnur kynslóð, sem búið hefur í þessu landi. Nú reynir á, hvort okkur auðnast að búa svo í haginn, að vel rætist úr, þó að hagurinn þrengist í bili, hvort við kjósum að búa svo um hnúta, að þeir, sem síst geta borið hönd fyrir höfuð sér í lífsbaráttunni, hljóti, hvað sem á bjátar, sinn deilda verð, eða hvort réttur hins sterkara til að hrifsa það, sem hönd á festir, skuli ríkja.

Fleira er í húfi en það eitt, hvort félagslegt réttlæti skuli virt, þegar lífsgæðum er skipt milli landsins barna. Það verður aldrei of oft endurtekið, að efnahagslegt sjálfstæði er undirstaðan undir stjórnarfarslegu sjálfstæði. Vilji Íslendingar koma fram af fullri reisn á meðal þjóða heimsins, verða þeir að kunna að sjá sér farborða sjálfir, hafa svigrúm til að beina viðskiptum sínum þangað, sem hagstæðast er á hverjum tíma, eiga aðgang að þeim lánamörkuðum, sem best kjör bjóða. Þeir, sem óska eftir, að við getum í yfirstandandi lotu haldið fast á málstað okkar gagnvart Bandaríkjamönnum í viðræðunum um afléttingu hersetu í landinu, skyldu minnast þess, að afleiðingar gáleysislegrar fjármálastjórnar áttu sinn ríka þátt í því að auðvelda Bandaríkjamönnum að ná hér hernaðarítökum eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari.

Nú er hagur landsmanna góður og aðstaðan til að treysta hann enn betur, þegar fram líða stundir, er sterk. Orkulindir landsins vaxa að verðmæti og eru sú uppspretta, sem komandi kynslóðir eiga eftir að sækja í hagsæld öðrum fremur. Þar bíða risavaxin verkefni, sem óhjákvæmilegt er að afla aðfengins fjármagns til að leysa. En því aðeins hefur þjóðin full tök á að ákveða, hvernig orkugjafarnir eru notaðir, og tryggja, að arðurinn af þeim nýtist fyrst og fremst Íslendingum, að hún hafi fjárhagslegt bolmagn og svigrúm til að velja og hafna með þjóðarhagsmuni eina að leiðarljósi, hverja kjósa beri til samstarfs. Lengi mætti þannig rekja víðtæk og afdrifarík eftirköst þess, hvernig Alþ. auðnast að ráða til lykta því máli, sem kemur til meðferðar síðustu daga þessa þinghalds. — Þökk þeim, sem hlýddu.