02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4087 í B-deild Alþingistíðinda. (3709)

Almennar stjórnmálaumræður

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Alþjóð hlýtur að hafa komið það nokkuð spánskt fyrir sjónir, þegar forseti Sþ. fyrr í kvöld kynnti mig utan flokka, en ég er eins og kunnugt er form. Frjálslynda flokksins. Og kyndugt má það heita, að mér skuli skammtaður minni ræðutími en öðrum stjórnmálafl. Varla getur það kallast jafnrétti að gefa Frjálslynda flokknum kost á að koma skoðunum sínum á framfæri við alþjóð á helmingi skemmri tíma en öðrum flokkum. En af þessu leiðir, að ég verð að fara fljótt yfir sögu, og mun ég leitast við það hér á eftir að fara nokkrum orðum um efnahagsástandið og þörfina á endurnýjun íslenskra stjórnmála. En áður en ég sný mér að því, þykir mér rétt að víkja örstutt að tveimur stórmálum.

Hljótt hefur verið í kringum landhelgismálið eftir samningana við Breta, sem að mínu mati fólu í sér frestun á útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur. Þó gerast þeir furðulegu atburðir, að Bretar halda áfram málssókn gegn okkur Íslendingum við Alþjóðadómstólinn í Haag, þrátt fyrir samningana. Mun einstakt, þegar tveir deiluaðilar semja, að þá skuli ekki falla niður málaferli milli þeirra. Sýnir þetta glögglega, hversu slælega var frá málum gengið. Nú veltur á öllu, að við Íslendingar höldum vöku okkar í þessu máli og leiðum það til fulls sigurs.

Hitt atriðið er varnarmálin. — Eins og kunnugt er, eru Bandaríkjamenn um þessar mundir að kynna sér till. ríkisstj. Mál þetta hefur dregist furðanlega á langinn. Væri mjög æskilegt, að málsaðilar kæmust að sameiginlegri niðurstöðu, og kæmist þá nokkur kyrrð á þetta mál, sem hefur valdið svo miklu umróti í hugum Íslendinga að undanförnu. En takist ekki að leysa málið þannig, er bersýnilegt, að hin eina pólitíska lausn er þjóðaratkvæði.

Það er uggvænlegt að lesa skýrslu hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar, þar sem klifað er á því, að ástandið í efnahagsmálum sé svo háskalegt, að víð blasi á næstunni stöðvun ýmissa undirstöðuatvinnugreina og atvinnuleysi, verði ekki hið bráðasta gripið til róttækra ráðstafana. Meðal þeirra válegu tíðinda, sem skýrslan hermir frá, má telja, að þjóðartekjur vaxi aðeins um tæp 2% á árinu, en launin um 60%, kaupgreiðsluvísitala hækki um hvorki meira né minna en tæp 14% 1. júní n.k., 2–3 milljarða kr. vanti til að tryggja áframhaldandi rekstur frystihúsa, togara og þorskveiðibátaflotans, viðskiptahallinn verði um 8 milljarðar kr. á árinu, fjárfestingasjóðir séu nálega tómir, 2 milljarða vanti í tekjur til fjárlaga o.s.frv.

Venjulegir menn telja, að hér sé sannarlega vá fyrir dyrum. En til eru óvenjulegir menn, sem láta eins og ekkert sé, tala um velmegunarvandamál, þegar atvinnufyrirtæki eru að stöðvast og atvinnuleysi á næsta leiti. Og á þeirra tungu heitir stjórnleysi í fjárfestingarmálum framkvæmdagleði. En þetta má heita grátt gaman, þegar sömu menn eru að leggja til nú að skerða kjör láglaunafólks og rifta gerðum kjarasamningum til að leysa velmegunarvandann.

Hvernig má það vera, að upp skuli koma efnahagslegt hættuástand á tímum góðæris til sjávar og sveita. Ráða hér veðurguðirnir eða náttúrulögmálin? Ber enginn ábyrgðina? Undirrótin að þessum vanda er vitaskuld sú ófreskja, sem verðbólga nefnist. Henni er ekki lengur stjórnað, heldur hefur hún tekið við stjórninni í samfélaginu, gersýkt efnahagslíf þjóðarinnar, lagt í helsi vitund hennar, brenglað verðmætamat hennar og ruglað hana í ríminu. Fyrir hana og í kringum hana er dansinn stiginn, og er hann orðinn tryllingslegri en menn þekkja í annan tíma hér á landi. Verðbólgan er alþjóðlegt fyrirhæri, og það eru engar leiðir til fyrir okkur Íslendinga að kveða hana niður með öllu, en halda má henni í skefjum, svo að hún verði svipuð eða litlu meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum okkar. En hvernig hefur til tekist? S.I. ár jókst verðbólgan um tæp 30% eða þrisvar sinnum meir en í nálægum löndum, og vorum við Íslendingar í sérflokki í Evrópu ásamt Grikkjum. Og nú er gert ráð fyrir, að verðbólguvöxturinn á árinu verði allt að 50%. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, er það staðreynd, að um þriðjungur verðbólgunnar er af erlendum toga, en tveir þriðjungar af innlendum toga. Þetta er meginskýringin á þeim efnahagsvanda, sem við er að etja, þótt hér komi inn í hækkandi olíuverð og lækkandi verðlag frystra fiskafurða á Bandaríkjamarkaði.

Það er látið í veðri vaka í afsökunarskyni, að það sé engin nýlunda, þó að efnahagsöngþveiti verði með þjóðinni. En það er enginn skýring. Hér ráða ekki veðurguðirnir, ekki náttúrulög málin, heldur á slæm landsstjórn sökina. Hún verður ekki leyst frá ábyrgð, svo framarlega sem gert er ráð fyrir því, að hún eigi að stjórna landinu.

Það var vissulega vorhugur með þjóðinni, þegar núv. ríkisstj. tók við fyrir 3 árum. Að baki var viðreisnarskeiðið, tími atvinnuleysisins, landflótta, gengisfellinga og athafnatregðu, og þjóðin var svo lánsöm, að þegar núv. ríkisstj. tók við, þrefölduðust íslenskar sjávarafurðir í verði á Bandaríkjamarkaði á árunum 1971–1973. Það var því ekki að undra, að ríkisstj. hafði allar forsendur með styrkri forustu að sitja út allt kjörtímabilið og láta margt gott af sér leiða. Ég hef aldrei dregið í efa, að ríkisstj. hafi haft góðan vilja til góðra verka, og auðvitað hefur hún komið ýmsu góðu til leiðar. Má minna t.d. á eflingu, atvinnulífs víða um land og aukningu tryggingabóta. En nú var efnahagsvandinn í raun allur annar en á viðreisnartímanum. Í stað þess að berjast gegn atvinnuleysi og samdrætti í atvinnulífinu varð að fara með mikilli gát í sakirnar sökum þenslu, eftirspurnar eftir vörum, þjónustu og vinnuafli, en það var látið reka á reiðanum. Hvergi vottaði fyrir viðleitni að hamla á móti verðbólguófreskjunni, heldur þvert á móti kynt undir á margvíslegan hátt, svo sem uppsprengdum fjárlögum og stórkostlegum erlendum lántökum til ýmissa framkvæmda, þótt vinnuafl væri nýtt fyrir til hins ítrasta. Jafnframt skorti aðhald og ráðdeild í ríkisrekstrinum. Brotin var sú meginregla, að ekki er unnt að eyða meiru til langframa en aflað er, án þess að allt fari úr skorðum, og á þetta jafnt við ríkisbúskapinn, sem hvert og eitt einstakt heimili. En aðhaldsleysi ríkisstj. örvaði að sjálfsögðu þá miklu kröfugerðarpólitík, sem nú setur mark sitt á þjóðfélagið og nálgast nú fullkomið stjóraleysi. Má því til sönnunar benda á nýgerða kjarasamninga. Það má heita, að látlaus ófriður hafi ríkt á vinnumarkaðinum undanfarna mánuði, sem sýnir, að endurskoða þurfi vinnulöggjöfina.

Ríkisstj. og samninganefnd ASÍ boðuðu þá stefnu, sem allir tóku undir, að bæta einkum kjör láglaunafólks. Niðurstaðan varð þveröfug. Dagsbrúnarmenn fengu um 18–19% hækkun, svipað og iðnverkafólk og verslunarmenn, en aðrar stéttir tekjuhærri hafa fengið allt að 40% hækkun. Hver ber ábyrgðina? Ríkisstj. segir. Ekki ég. Samninganefnd ASÍ segir: Ekki ég. Að sjálfsögðu bera þessir aðilar fulla ábyrgð á gangi mála, og það sýnir, að forusta þeirra hefur brugðist. Ríkisstj. verður að hafa ákveðna launapólitík, sem tekur mið af getu þjóðarbúsins, og standa við hana. Í stað þess fór allt úr böndum, vandanum ýtt á undan sér með því að velta launahækkunum inn í verðlagið. Þar með eru launabætur jafnharðan teknar af launafólki og verðbólgan mögnuð. Og nú blasir við sú hörmulega staðreynd, að láglaunafólkið stendur verr að vígi eftir en áður og hópar opinberra starfsmanna heyja nú hálfopinber verkföll til að fá fram leiðréttingu mála sinna.

Það sætir furðu, að samninganefnd ASi skuli standa að því að samþykkja hækkun söluskatts um 5 stig. Satt að segja virðist verkalýðsforustunni ekki sjálfrátt, enda er hún bersýnilega lömuð af flokkspólitískum viðhorfum.

En þróun kjaramálanna sýnir, svo að ekki verður um villst, að ríkisstj. er litt til forustu fallin. Mér varð smám saman ljóst, að ríkisstj. væri sá kálfur, sem hleypt er út á vorin og hleypur í fjóshauginn. Gengisfellingin í des. 1972., þar sem krónan var felld um 10.7% gagnvart dollar, var einhver sú mesta glópska í efnahagsmálum síðustu áratuga, sem ég veit dæmi um. Þessi gengisfelling var heimatilbúin og reyndist hinn mesti verðbólguvaldur, og þar með tel ég, að ríkisstj. hafi gefist upp við að reyna að sporna gegn verðbólgunni. Þetta urðu mér að sjálfsögðu mikil vonbrigði, því að ég var eindreginn stuðningsmaður ríkisstj., þegar hún var mynduð, enda sagði ég mig úr þingflokki SF, sem höfðu knúið gengisfellingu í gegn með hótun um stjórnarslit.

En gengisfellingin er ekki eina atriðið, sem svikið hefur verið í málefnasamningi ríkisstj. Ef menn vilja hlutdrægnislaust gera sér grein fyrir stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, er eðlilegast að hafa málefnasamninginn til hliðsjónar. Þá kemur í ljós, að þar stendur ekki steinn yfir steini, og skal það ekki rakið frekar.

Þegar loks ríkisstj. lagði fram fjárlagafrv. sitt fyrir árið 1974, sem bar öll merki þennslustefnu og hvergi örlaði á nauðsynlegum sparnaði í ríkisútgjöldum og aðhaldi í ríkisrekstri, taldi ég það skyldu mína að snúast gegn stjórninni. Ef ég hefði ekki gert það, bæri ég ábyrgð á efnahagsstefnu, sem ég teldi alranga við ríkjandi aðstæður. Ég greiði atkvæði eftir málefnum, en ekki mönnum, eftir því sem samviskan býður mér. Ég tel, að ég hafi orðið viðskila við ríkisstj., af því að hún hefur brugðist í hverju stórmálinu á fætur öðru. Ég minni á gengisfellinguna, skattamálin, landhelgismálið, verðlagsog kaupgjaldsmálin. Þó vantaði ekki viljann frá minni hálfu að reyna að hafa í lengstu lög samstarf og samvinnu við ríkisstj. Skrifaði ég forsrh. tvö bréf 10. og 17. maí s.l., þar sem ég óskaði eftir viðræðum um samstarfsgrundvöll, sem byggðist á traustri framkvæmd stjórnarsáttmálans og fjallaði m.a. um efnahagsmál, sparnað og ráðdeildarsemi í ríkisrekstri, endurskoðun skattalaga og hankakerfis. Forsrh. lét í ljós mikinn áhuga á samstarfi við okkur samherjana í Frjálslynda flokknum, og um vilja hans hef ég aldrei efast. En reyndin varð sú, að bréfunum var aldrei svarað. Engar formlegar viðræður fóru fram, og til mín var ekki leitað nema í örfáum tilvikum, helst þegar samþ. þurfti nýjar álögur á almenning. Mér var aldrei sýndur sá sómi, að ég fengi aðstöðu til að hafa áhrif á stefnumótun í þeim málum, sem mér þóttu fara úrskeiðis. Ríkisstj. bauð mér þá samvinnu í reynd að greiða atkv. með henni, þegar mikið lá við, án þess að ég fengi aðstöðu til þess að taka nokkurn þátt í ákvörðun mála. Ég hef dregið þetta fram í dagsljósið til að sýna, að ekki hefur skort vilja af minni hálfu til þess, að samvinna við núv. stjórnarflokka mætti haldast. En svo lengi má brýna deigt járn, að bíti.

Auðvitað núa stjórnarliðar mér og mínum samherjum því um nasir, að við höfum gengið í lið með viðreisnarflokkunum, gerst liðhlaupar. En það erum ekki við samherjar, sem höfum brugðist, heldur ríkisstj. sjálf, sem hefur ekki staðið við ýmis grundvallaratriði í málefnasamningi sínum. Þegar hún fellur, fellir hún sig sjálf.

Í dag lagði ríkisstj. fram frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Þarna er um að ræða m.a. verðstöðvun, kaupgreiðsluvísitala skert og kjarasamningar gerðir ógildir fram til 30. nóv. n.k. Auðvitað munu viðreisnarflokkarnir hlakka ákaft yfir þessu, enda geta þeir þekkt meira eða minna eigin afkvæmi afturgengin. Till. ríkisstj. þarf að skoða rækilega, því að efnahagsráðstafanir verður að gera, þó þannig, að þær skerði ekki undir neinum kringumstæður kjör láglaunafólks, sem situr eftir með sárt ennið eftir nýgerða samninga. En ég vil draga skýr mörk milli þess að forða vá frá dyrum og framlengja líf núv. ríkisstj.

En hver sæmilega vitiborinn maður mátti sjá efnahagsþróunina fyrir og gat þannig komið í veg fyrir þessar neyðarráðstafanir í efnahagsmálum. Ég hef nú á annað ár talað fyrir daufum eyrum um niðurskurð á útgjöldum ríkisins, minni erlendar lántökur, skattlagningu verðbólgugróðans, aukið skattaeftirlit og síðast, en ekki síst um verðtryggingu sparifjár til að koma jafnvægi á lánamarkaðinn og tryggja verðgildi krónunnar. En ríkisstj. hefur verið eins og nátttröll í nútímanum. Þess vegna verður hún að taka afleiðingunum, fara frá og efna til kosninga hið bráðasta, að gerðum bráðabirgðaráðstöfunum í efnahagsmálum, til þess að atvinnulífið geti gengið sinn gang.

Mér er óskiljanlegt; hvað íslenskir ráðamenn eru ófúsir að skjóta málum sínum undir dóm þjóðarinnar, eins og tíðkast erlendis, þótt kjörtímabilið sé ekki á enda. Náin tengsl stjórnmálaflokka við þjóðina eru undirstöðuatriði, þegar vanda ber að höndum. Það er virkt lýðræði. En hér virðast menn annaðhvort vera hræddir við dóm kjósenda eða hafa vondan málstað að verja, og varla getur það verið til farsældar fyrir íslensku þjóðina að hafa ríkisstj., þar sem ráðh. og forustumenn senda hver öðrum í fjölmiðlum og á Alþ. slík ástabréf og vinarkveðjur, að einsdæmi mun vera í íslenskri stjórnmálasögu.

En nú vaknar sú spurning: Hvernig stendur á því, að ekkert hefur verið gert til að komast hjá því að grípa til óyndisúrræða í efnahagsmálum, þar sem þróunina mátti sjá fyrir? Hér er komið að kjarna málsins. Gömlu flokkarnir, og ég á bæði við núv. stjórnarflokka og viðreisnarflokkana, eru orðnir vanmegnugir að gegna hlutverki sínu. Þeir eru svo háðir þrengstu hagsmunahópum og hafa komið sér svo rækilega fyrir í valdajafnvægi og samtengingarkerfi í þjóðfélaginu, að þeir hafa rænt sjálfa sig getu til að takast á við meiri háttar þjóðfélagsvanda. Um leið og þetta hefur haft í för með sér hnignun raunverulegs lýðræðis í landinu, hefur það orðið eitt einkenni á stjórnmálaflokkunum, að þeir eru sífellt að heita ýmsu og standa síðan ekki við orð sín. Það er æ tíðara, að lítið sé að marka, hvað stjórnmálamenn segja, sbr. sjónarspilið um þingrofið. Stundum virðast þeir halda, að almenningur sé með öllu dómgreindarlaus. Glöggt dæmi um það er væntanlegur samruni flokka Gylfa Þ. Gíslasonar og Hannibals Valdimarssonar. Þeir eru ósammála um flest meginatriði þjóðmála, svo sem varnarmál og efnahagsmál, eins og allir sjá og heyra. En málefnin skipta ekki nokkru máli lengur. Þetta er allt glens og gaman. Ég væri illa svikinn, ef almenningur hefði áhuga á að styðja pólitískt brask af þessu tagi.

Ríkjandi flokkakerfi er alls óhæft til að valda stjórnmálalegum verkefnum þjóðarinnar, og þess vegna varðar litlu, hvort hér á landi sé viðreisnarstjórn eða stjórn sú, sem kallar sig stjórn vinnandi fólks. Það er, þegar öllu er á botninn hvolft, sami rassinn undir þessu öllu. Kerfið er það sama. Þess vegna er eina raunhæfa lausnin að efla til áhrifa nýtt stjórnmálaafl, sem hefur þrek og þor til að rjúfa þetta trénaða flokkakerfi, sem geti knúið gömlu flokkana til betri vinnubragða. Í þessum tilgangi var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður. Hann býður nú í fyrsta skipti fram í borgarstjórnarkosningunum nú í maí í Reykjavík. Það skiptir höfuðmáli, að Reykvíkingar ljái flokknum fylgi, ella heldur þessi óreiða áfram.

Að lokum vil ég benda á, að á þjóðhátíðarárinu er ekki aðeins mikilvægt að vinna að landgræðslu og gróðurvernd, heldur og að endurbæta íslenskt stjórnmálalíf. Það væri þjóðinni til farsældar. Þökk fyrir áheyrnina. Góða nótt.