02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (3711)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. áheyrendur. Þeim fáu mínútum, sem ég hef til umráða hér í kvöld, mun ég verja til að fara nokkrum orðum um varnarmálin.

Eins og margsinnis hefur verið tekið fram, miðar stefna ríkisstj. að tvennu. Annars vegar segir, að að óbreyttum aðstæðum skuli Ísland halda áfram að vera aðili að Atlantshafshandalaginu, en ríkisstj. muni kappkosta að fylgjast sem best með þróun þeirra mála og endurmeta jafnan stöðu Íslands í samrætni við breyttar aðstæður. Hins vegar segir, að varnarsamningurinn við Bandaríkin skuli tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum, og að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.

Enginn stefnubreyting hefur orðið í ríkisstj. varðandi aðildina að NATO. Það er enn sem fyrr talið rétt, að Ísland eigi aðild að þeim samtökum, og engin breyting hefur heldur orðið á því stefnumiði, að herinn hverfi héðan í áföngum. En vegna þess, hversu málið hefur dregist, m.a. vegna mikilvægis landhelgismálsins, er ljóst, að brottför í áföngum getur eigi að fullu átt sér stað á kjörtímabili því, sem nú er að líða.

Mið hliðsjón af því, er að framan segir, var hinn 13. mars s.l. samkomulag í ríkisstj, um drög að umræðugrundvelli um endurskoðun á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Eru drög þessi í tveim liðum:

Fyrri liðurinn fjallar um brottför hersins, og segir þar, að varnarlið það, sem nú er á Íslandi, skuli hverfa af landi brott í áföngum. Skal brottflutningnum hagað þannig, að fyrir árslok 1974 verði fjórðungur liðsins farinn, helmingur fyrir mitt ár 1975, þrír fjórðu fyrir árslok 1975 og síðasti hlutinn fyrir mitt ár 1976.

Síðari liður umræðugrundvallarins stendur hins vegar í sambandi við áframhaldandi veru okkar í Atlantshafshandalaginu. Segir þar, til fullnægingar skuldbindingum Íslands við NATO leggi íslenska ríkisstj. til, að eftirfarandi háttur verði á hafður:

a) Flugvélar á vegum NATO hafi lendingarleyfi á Keflavíkurflugvelli, þegar þurfa þykir vegna eftirlitsflugs yfir norðurhöfum. Þó skal eigi vera hér föst bækistöð flugvéla. Um nánari ákvæði verði fjallað í samningum. — Þess skal getið hér til skýringar, að enda þótt fjallað sé um flugvélar á vegum NATO í þessu ákvæði, er þar átt við bandarískar flugvélar, enda var samningurinn frá 1951 gerður af Bandaríkjum Norður-Ameríku í umboði NATO, og er ráð fyrir því gert, að sami háttur verði einnig hafður á nú, ef samningar takast.

b) Vegna slíkra lendinga hafi NATO heimild til að hafa á Keflavíkurflugvelli hóp tæknimanna, er ekki séu hermenn, til þess að sjá um eftirlit áðurgreindra flugvéla. Um tölu þessara eftirlitsmanna fer eftir nánara samkomulagi, þó þannig, að aðeins verði um takmarkaða starfsemi að ræða. Sama athugasemd á við þennan lið og ég áðan greindi varðandi a-lið.

c) Eftir brottför varnarliðsins taka Íslendingar við löggæslu á flugvellinum að öllu leyti. Skulu Íslendingar áður þjálfaðir í þeim sérstöku gæslustörfum, sem þörf er á.

d) Íslendingar skulu leggja til þann mannafla, er þarf til að veita þeim aðilum, sem samkv. framansögðu hafa dvöl á Keflavíkurflugvelli, nauðsynlega þjónustu. Er hér átt við svipaða starfsemi og nú fer fram á vellinum, aðeins í miklu smærri stíl. er eðlilega leiðir af þeim breytingum, sem hugsaðar eru þarna.

e) Íslendingar taki við rekstri radarstöðvanna á Suðurnesjum og á Hornafirði, þegar þjálfaður íslenskur mannafli er til taks. Nú þegar sjá íslenskir menn um rekstur stöðvanna á Gufuskálum og Vík í Mýrdal, og er hér hugsað framhald og aukning þeirrar starfsemi.

f) Farþegaflug skal vera algjörlega aðskilið frá þeirri starfsemi, sem samkv. framansögðu verður haldið uppi á Keflavíkurflugvelli til fullnægingar skuldbindinga Íslands við NATO, og er þar að mínu mati um svo sjálfsagðan hlut að ræða, að óþarfi er að rökstyðja.

Þessar till. ríkisstj. lagði ég fram á viðræðufundum við fulltrúa Bandaríkjastjórnar í Washington dagana 8. og 9. f.m. ásamt þeim skýringum, sem ég hér hef látið fylgja, og nokkrum fleiri, svo sem þeirri, að hér væri eigi um úrslitakosti að ræða, heldur umræðugrundvöll. Niðurstaða þeirra funda varð sú, að Bandaríkjamenn tóku till. til athugunar og yfirvegunar, og er svar þeirra væntanlegt á næstunni, en ákveðinn frestur til svars var ekki settur, þannig að ég get ekki sagt nákvæmlega til um það, hvenær það kemur.

Það er skoðun mín, að við eigum að reyna samningaleiðina til þrautar, áður en það spor verður stigið að segja varnarsamningnum frá 1951 upp, og mér er óhætt að fullyrða, að enn er unnið að þessari endurskoðun bæði í Washington og hér heima. Áður en til endanlegrar ákvörðunar kemur, verður málið lagt fyrir Alþ., svo sem margsinnis hefur verið tekið fram, en skal til öryggis gert einu sinni enn.

Vegna tímaskorts í þessum umr. verður þessi takmarkaða grg. að nægja að sinni, en um utanríkismál að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til skýrslu, er ég hef lagt fyrir Alþingi.