02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Út af því, sem Matthías Á. Mathiesen sagði um stefnu ríkisstj. í kjarasamningamálum, vil ég vitna til þess, að ríkisstj. samdi við BSRB. Þar var mótuð sú stefna, sem ríkisstj. vildi fylgja í kjarasamningamálum. Morgunblaðið réðst á formann BSRB fyrir að gera slíka háðungarsamninga og taldi þá, að atvinnuvegirnir og íslenski ríkissjóðurinn gætu greitt miklu meira. Þetta skulu þeir sjálfstæðismenn hafa í minni.

Út af því, sem hv. þm. Bjarni Guðnason sagði um afskipti sin af söluskatti, að hann vildi ekki leggja til. að hann yrði hækkaður, þá vil ég minna þann ágæta þm, á það, að hann fylgdi till, frá Sjálfstfl. og till. frá Alþfl. um 3–31/2% hækkun á söluskattinum, af því að hann hélt, að það væri stjórninni í óhag. Þá var hann með.

Út því, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði, að tekist hefði að leysa vandann í efnahagsmálum hjá viðreisnarstjórninni siðásta kjörtímabilið, sem hún sat, vil ég minna hann og aðra viðreisnarmenn á það, að þeir virðast vera búnir að gleyma hrollvekjunni, sem þeir skyldu eftir, þegar þeir fóru úr stjórnarráðinu. Þeir eru líka búnir að gleyma því, að síðustu árin, sem þeir stjórnuðu, var hér meira atvinnuleysi en verið hefur um áratugi og svo, að landflótti var og fjöldi íslenskra manna og kvenna varð að hverfa til annarra landa í atvinnuleit. Þeir eru einnig búnir að gleyma því, að fyrir dyrum stóðu kjarasamningar og áður hafði launafólkið í landinu orðið að lækka sín laun, og vitað var, að við kjarasamninga, sem komu til haustið 1971, yrði um verulega hækkun að ræða. Þeir hafa einnig gleymt því, að allar ríkisframkvæmdir höfðu verið í verulegum öldudal síðustu árin, sem þeir stjórnuðu, svo að ekki varð komist hjá því að gera stórt átak til að leiðrétta það, ef félagslegar umbætur á sviði ríkisins áttu að vera í nokkru samræmi við kröfur fólksins og þarfir þess, eins og gerist í nútíma þjóðfélagi. Þessi og fleiri verkefni biðu, þegar núv. ríkisstj. tók við. Þetta gleymist þeim viðreisnarherrum. Hins vegar tala þeir hér um blómlegt bú sem enginn af þeim, sem við tóku, fyrir hitti, enda ekki von, því að það var ekki til.

Tíðrætt hefur þeim stjórnarandstæðingum orðið um hækkun fjárl., síðan núv, ríkisstj. kom til valda, og rétt er það, fjárl. hafa hækkað. Aðalástæðurnar eru þessar: Allmiklar breyt. hafa orðið á greiðslukerfi hins opinbera. Ríkið tók að sér að greiða hluta sveitarfélaganna til almannatrygginga og einnig að létta af einstaklingunum persónusköttunum, sem höfðu verið innheimtir sérstaklega af þeim án tillits til tekna. Hvort tveggja voru stórkostlegar umbætur fyrir þessa aðila. Jafnhliða því var tryggingalögunum breytt, fyrst af viðreisnarstjórninni, en þau lög áttu reyndar ekki að koma til framkvæmda fyrr en í byrjun árs 1972, til þess að útgjöld fjárl. 1971 bæru þess ekki merki, enda var þá hugsað um það, að til fjárl. 1971 mætti vitna sem sérstaklega lágra fjárl., þótt að vitað væri, að þessi útgjöld biðu aðeins í nokkra mánuði. Svo var um fleiri útgjaldaliði, sem viðreisnarstjórnin ákvað, þegar hún var að hverfa frá og geymdi að sjá öðrum um greiðslu á. Almannatryggingalöggjöfinni hefur einnig verið breytt síðan, og nú tekur almannatryggingakerfið um 33–35% af öllum útgjöldum ríkisins. Það er ljóst, að nauðsyn ber til að breyta þessu kerfi, bæði með tilliti til skattkerfisins og lífeyrissjóðanna, því að ef það verður ekki gert, mun þetta tryggingakerfi reynast þjóðinni ofraun. Enn fremur ber brýna nauðsyn til þess að hætta að greiða með einu barni í fjölskyldu, eins og viðreisnarstjórnin kom á á sínum tíma, til þess að draga úr vísitöluhækkun.

Annar þáttur, sem hefur orðið til þess að hækka fjárl., er að síðan núv. ríkisstj. tók við hefur hún auk þess, sem áður er getið, einnig tekið að sér að greiða lögreglukostnað, sem sveitarfélög höfðu greitt — að hálfu áður. Sveitarfélögin hefðu á þessu ári orðið að greiða hálfan annan milljarð a.m.k. til almannatrygginga og lögreglu, ef þessi breyt, hefði ekki verið gerð. Vitað var, að sveitarfélögin voru komin í algjört þrot við að standa undir þessum greiðslum, enda voru þau farin að skulda almannatryggingakerfinu verulega og sum þeirra farin að leita á náðir Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að standa undir sínum greiðslum, þó að tekjustofnar þeirra væru notaðir með hæsta leyfilegu álagi.

Í þriðja lagi hefur svo verið tekin upp byggðastefna í stað aðgerðaleysis sem áður var í þeim málum. Þessi stefna hefur að sjálfsögðu leitt til aukinna útgjalda, bæði í framkvæmdum og á sviði skólamála, heilbrigðismála, vegamála, orkumála, hafnamála og fleiri málaflokka. Allir stjórnmálaflokkar vilja nú gera þessi mál að sínum. En til framkvæmdanna kemur og þau valda útgjöldum hjá ríkissjóði, heyra þeir eyðslu til og eru taldir valda þenslu í þjóðfélaginn. Ljóst er þó, að þessar framkvæmdir hafa orðið og verða til þess ásamt atvinnuuppbyggingu núv, ríkisstj, að snúa við á þeirri braut, er byggðaflóttinn var, og það er svo komið, að á s.l. ári gerðist það, að fólki fjölgaði meira úti á landsbyggðinni heldur en hér í Reykjavík, og er það nýlunda. Þess háttar þróun þarf að verða í landinu, til þess að landið sé nýtt og þeir tekjumöguleikar, sem til eru til lands og sjávar, og þ.á m. til þess að tryggja gjaldeyrisafkomu þjóðarinnar, eins og nauðsyn ber til. En félagsleg uppbygging veldur að sjálfsögðu auknum útgjöldum ríkissjóðs.

Í fjórða lagi er svo þess að geta, að að sjálfsögðu hefur sú verðþensla, sem átt hefur sér stað hér á landi komið fram í útgjöldum ríkissjóðs, svo sem í launagreiðslum og fleiru. En þrátt fyrir allar þessar breyt. er það þó svo, að rekstrarútgjöld hafa ekki aukist á þessu tímabili sem hlutdeild í heildarútgjöldum ríkissjóðs. Það kemur til af því, að fjárlaga- og hagsýslustofnuninni hefur með verkum sínum tekist að skipuleggja mörg vinnubrögð betur en áður hefur verið og verið er að gera stórt átak í þeim málum nú, og svo hitt, að ríkiskerfinu hefur verið haldið fullkomlega í skorðum og það ekki látið vaxa meira en brýna nauðsyn ber til vegna aukinna verkefna.

Eitt af þeim málum, sem fyrrv. ríkisstj. hafði vanrækt, voru skattamálin. Á fyrstu árum viðreisnar voru skattalögin endurskoðuð og voru endurbætt árið 1960. Eftir það voru engar aðgerðir gerðar í skattamálum fyrir einstaklinga. Það, sem hefur verið gert í skattamálum af núv. ríkisstj., er m.a. það, að tekjuskattur er nú lægri, en hann hefur nokkru sinni verið um margra áratuga skeið, ekki síst ef tekið er tillit til þess, að inn í tekjuskattinn nú eru felldir persónuskattarnir, sem áður voru greiddir beint.

Í öðru lagi er búið að vinna mikið verk á vegum n. þeirrar, sem núv. ríkisstj. skipaði til þess að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins, og semja mjög góða grg. og skýrslu þar um, sem hægt er að styðjast við í sambandi við ákvarðanatöku um framtíðarstefnu í tekjuöflun í ríkiskerfinu. Auk þeirra, sem fyrir voru í n., hafa stjórnmálaflokkarnir nú fengið hver sinn fulltrúa til þess að vinna að þessu verki með n. til ákvörðunar og stefnumörkunar í tekjuöflun ríkisins. En brýna nauðsyn ber til að hraða því verki, enda málið nú betur undirbúið en það hefur nokkurn tíma áður verið.

Á sama tíma sem tekjuskattur hefur verið lækkaður, hefur það einnig gerst, að tollar hafa verið lækkaðir, m.a. til þess að standa við samninginn við EFTA og Efnahagsbandalagið og einnig til þess að gera iðnaðinum í landinu kleift að standast betur samkeppni við erlenda keppinauta en að öðrum kosti hefði verið. Það verður að segja um þessi mál, að við afgreiðslu þeirra hafa þau leiðindi gerst, að stjórnarandstöðuflokkarnir, sem stóðu fyrir því að marka stefnu um samninga við EFTA, og ákváðu þá, að tekjuöflun til þess að mæta þeim yrði að vera sú að nota söluskattinn til þess að afla ríkissjóði tekna vegna tekjutaps af tollalækkuninni, — þeir brugðust, þegar til átti að taka um tekjuöflunina nú. Slíkt á ekki að gerast. Þeir stjórnmálaflokkar, sem marka stefnu á sviði mála, ekki síst sem snerta aðrar þjóðir, verða að fylgja þeim eftir, þó svo að þeir séu í stjórnarandstöðu komnir, þegar til þarf að taka, svo að hægt sé að standa við gerða samninga, ekki síst þegar málin koma til framkvæmda í áföngum, eins og nú átti sér stað.

Enn fremur gerðist það, að þeir greiddu atkv. gegn lækkun á tekjuskatti þrátt fyrir allar sínar yfirlýsingar um nauðsyn á lækkun beinna skatta, þegar kom til þess að afla tekna, sem þurfti til þess að framkvæma þessa skattalækkun, nema Alþfl., sem var píndur til þess að standa við málið vegna samninga við ASÍ, sem þó gekk með semingi, svo sem kunnugt er, og ríkisstj. varð að fella niður af nauðsynlega umsömdum tekjum til þess að koma málinu í höfn. Og fylgifiskur stjórnarandstöðunnar, Bjarni Guðnason, fylgdi auðvitað dyggilega eftir og greiddi atkv. gegn söluskatti, þegar ríkisstj. var það í óhag.

Enda þótt mikið hafi verið gert á sviði framkvæmda hjá þjóðinni á þessum árum og félagsmála og ýmsir hafi talið það óráð, sem ég mótmæli„ bendi ég á, að þegar fjárlög ríkisins hækkuðu á milli áranna 1973 og 1974 m.a. vegna kerfisbreytinga, um 30–33%, þá hækkaði fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar um 52%. Ef ríkisframkvæmdir valda þenslu í þjóðfélaginu, sem þær geta að sjálfsögðu gert, þá valda líka framkvæmdir hjá Reykjavíkurborg þenslu í þjóðfélaginu, og verður að virða slíkt að jöfnu. Á hvoru tveggja þarf að sjálfsögðu að hafa aðgát með tilliti til þjóðarframleiðslu og getu, en það má ekki aðeins á annan deila.

Ég vil líka benda á það, að þrátt fyrir miklar framkvæmdir hefur tekist að halda ríkisbúskapnum í skefjum, þannig að ríkissjóður hefur búið við það tekjuöflunarkerfi, sem viðreisnarstjórnin hafði aflað sér til handa, og lækkað það, eins og skýrt hefur verið frá, hæði tekjuskattinn og tollana, en lítils háttar tekjuöflun önnur hefur átt sér stað. Enda hefur það verið kappsmál núv, stjórnarandstöðu að koma í veg fyrir, að ríkisstj. gæti aflað tekna til nauðsynlegra verka og staðið við lagalegar skuldbindingar eða tryggt fjárhagslega stöðu ríkissjóðs, sem nauðsyn ber til. Á þessu þingi hefur það verið höfuðmarkmið stjórnarandstöðunnar að svelta ríkissjóð svo sem mögulegt hefur verið. Þrátt fyrir þetta hefur tekist að halda fjármálum ríkissjóðs í horfinu og hefur verið greiðsluafgangur bæði árin 1972 og 1973, þó að hann sé ekki verulegur.

Að lokum vil ég segja þetta: Afkoma þjóðarinnar er góð og hefur verið það á valdaárum núv. ríkisstj. Afkoma hjá bændum landsins er nú betri en verið hefur nokkru sinni í búskap íslenskra sveitabænda, það þori ég að fullyrða. Það er eins hjá öðrum þegnum þessa þjóðfélags, þeir hafa betri fjárhagslega afkomu nú en verið hefur. Hins vegar stöndum við frammi fyrir þeim vanda, að verðbólgan er meiri en viðráðanlegt er og viðskiptakjör fara versnandi. Ekki er hugsanlegt, að þjóðin geti haldíð þeirri góðu afkomu, sem hún hefur nú, ef svo fer sem horfir. Þess vegna verður að fást við þann vanda, sem nú er til staðar, með manndómi og karlmennsku og taka á honum af þjóðinni, Alþ. og ríkisstj. einmitt nú þegar, áður en úr skorðum gengur.

Forsrh. hefur nú lagt fyrir Alþ. frv. til úrbóta þar um. Það þarf enginn að halda, að það sé verið að ganga nærri fólkinu í landinu með þeim aðgerðum, sem þar eru lagðar til. Ég segi það sem mína skoðun, að það er vonlaust að stjórna þjóðfélaginu eða efnahagsmálum þessarar þjóðar, ef kaupgjaldsvísitöluna á að framkvæma á þann hátt, sem nú er gert. Það verður að tryggja eðlilegan kaupmátt launa hjá launafólki, það má ekki gera með kaupgreiðsluvísitölu, sem stefnir grundvelli þjóðarbúskaparins í hættu, svo sem nú er, svo sem þegar áfall eins og olíuhækkunin, sem veldur atvinnuvegunum og þjóðinni stóráfalli, eins og gerðist á s.l. hausti, verður til þess að valda kauphækkun og auka þannig vanda atvinnuveganna, Slíkt getur ekki átt sér stað.

Herra forseti. Ég endurtek, að íslenska þjóðin býr við góða afkomu, þekkingu og mikið af stórvirkum atvinnutækjum, ekki síst frá síðustu árum. Hún býr einnig yfir þeim manndómi og vonandi samheldni, er þarf til að treysta atvinnuöryggi sitt og fjárhagslega afkomu inn á við og út á við. Það er henni fyrir bestu, að svo sé. — Ég þakka áheyrnina, Góða nótt.