02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4101 í B-deild Alþingistíðinda. (3713)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Vegna margendurtekinna árása á mig í sambandi við mannaskipti á austurþýskum togurum hér á landi og það sjónarspil, sem þeir félagarnir Gylfi Þ. Gíslason og Geir Hallgrímsson hafa staðið fyrir í þeim efnum, verð ég að víkja hér nokkrum orðum að þessu máli.

Um þetta mál hafa þeir félaga þyrlað upp hinu mesta moldviðri og reynt að koma sök á mig fyrir aðgerðir sjútvrn. í málinu. Engu er líkara en þeir telji, að ég hafi veitt austur-þýskum togurum leyfi til að fiska í íslenskri landhelgi og jafnvel til að sópa upp miðin í kringum landið. Hvað er hið sanna í þessu máli? Sjútvrn. hefur ekkert leyfi gefið. Það hefur aðeins svarað með bréfi til utanrrn., að það telji ekki ástæðu til að neita um þrjár flugvélalendingar með skipsmenn á austur-þýska togara. Þessi umsögn var gefin, eftir að rn. hafði fengið þær upplýsingar, að skip þessi ættu að veiða upp í umsaminn kvóta við Nýfundnaland og Kanada, en ekki í námunda við Ísland. Þessar sömu upplýsingar höfðu aðrir fengið, og vitna ég þar til skýrslu forsrh. á Alþ., þegar þetta mál kom þar fyrst til umr. Orðrétt sagði forsrh. í skýrslu sinni um þetta mál á Alþingi:

„Sendifulltrúi Austur-Þýskalands kom svo enn á ný til viðtals við ráðuneytisstjórann í utanrrn. og færði fram frekari rök fyrir beiðni sinni, sem ég sé ekki ástæðu til þess að fara hér langt út í, vil þó aðeins geta þess, að hann skírskotaði til þess, að Austur-Þýskaland hefði í verki algerlega viðurkennt íslensku landhelgisútfærsluna og að þessi skip veiddu alls ekki nálægt Íslandsmíðum, heldur aðallega við Nýfundnaland og Ameríkuströnd og eitthvað við Norður-Noreg.“

Þessi tilvitnun, sem er orðrétt úr skýrslu forsrh., sem fór með störf utanrrh. í þessum efnum og stóð fyrir leyfisveitingunni, sannar, að ráðuneytisstjórinn í utanrrn. hafði fengið sömu upplýsingar og við í sjútvrn. um áformaðar veiðar þessara skipa. Og á þeim byggðum við umsögn okkar. Þetta veit hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, en hann stingur því undan og segir, að um þetta hafi aldrei verið talað.

Strax þegar fréttir bárust um, að skipin væru að veiðum 90–100 mílur vestur af vestasta tanga Íslands, lögðum við í sjútvrn., — löngu áður en Gylfi Þ. Gíslason og Geir Hallgrímsson rumskuðu í þessu máli, — þá lögðum við til með bréfi til utanrrn., að þessi leyfi yrðu afturkölluð. En það, sem þó er furðulegast við úlfaþytinn út af þessu máli, er það, að hér var aðeins um þá spurningu að ræða, hvort leyfa ætti lendingu þriggja flugvéla með sjómenn eða hvort þessir sjómenn kæmu með áætlunarflugvélum, eins og þeir gátu gert og eins og Bretar gera hvað eftir annað og Vestur-Þjóðverjar hafa gert hvað eftir annað að undanförnu og við höfum engin lög í okkar landi til þess að banna. Þeir Gylfi og Geir ætla að springa af vandlætingu út af því, að Austur-Þjóðverjar skuli fara hér um hlað, þó að þeir veiði utan 50 mílnanna eða veiði grálúðu 90–100 mílur frá landi. En þeir tala ekki mikið um veiðar Vestur-Þjóðverja, sem brjóta okkar landhelgislög, og ekki um alla þá fyrirgreiðslu, sem Bretar fá hér í höfnum og á flugvöllum, í viðgerðarverkstæðum, á sjúkrahúsum o.s.frv.

Þeim ferst, þeim fóstbræðrum, Gylfa og Geir, sem urðu frægastir allra fyrir undanslátt í landhelgismálinu og mótmæltu beinlínis hörku Landhelgisgæslunnar við breska landhelgisbrjótinn Everton. Og svo hefur Gylfi Þ. Gíslason brjóstheilindi til þess að koma hér fram fyrir alþjóð og segja, að Alþfl. og hann hafi stutt stefnu ríkisstj. í landhelgismálinu í öllum efnum. En hver var yfirlýst stefna Alþfl.“ Ráðh. flokksins í fyrrv. stjórn sagði, að útfærslan í 50 mílur væri vítavert siðleysi og glapræði. Og Gylfi Þ. Gíslason hefur barist fyrir því, að landhelgismálið yrði lagt undir úrskurð Haagdómstólgins. En hvernig hefði þá farið fyrir okkur, ef sú stefna hefði orðið ofan á? Blástur þeirra félaga út af úthafsveiðum Austur-Þjóðverja er svipaður og fyrirgangur þeirra um 200 mílna kröfuna, á sama tíma og þessir menn vildu meiri undanslátt frá 50 mílna kröfunni en nokkrir aðrir Íslendingar.

Sá árangur, sem náðst hefur með 50 mílna útfærslunni, er gífurlegur. Rússneski, pólski og austur-þýski togaraflotinn er horfinn út fyrir 50 mílurnar og að mestu af Íslandsmiðum. Vestur-þýski flotinn veiðir hér aðeins 10–20% af því, sem áður var. Breski flotinn veiðir hér 30–40% minna en áður. Og veiði annarra útlendinga er að mestu lokið. Það er öruggt, að sókn útlendinga á miðin hér innan 50 mílna markanna hefur minnkað um meira en helming frá því, sem áður var. En Morgunhlaðið segir þó, að útfærslan hafi gersamlega mistekist. Og auðvitað kemur svo Bjarni Guðnason hér í humátt á eftir þeim íhaldsmönnum og segir, að útfærslunni hafi raunverulega verið frestað.

Það er raunhæfur árangur, sem skiptir máli í landhelgismálinu, en ekki aðgerðarleysi og undansláttur, — aðgerðaleysi eins og það, þegar Gylfi Þ. Gíslason var í ríkisstj. í 13 ár án þess að hreyfa við þessu máli. Það eru raunhæfar aðgerðir eins og þær, sem gerðar hafa verið með útfærslunni, en ekki bægslagangur af því tagi, sem þeir fóstbræður, Gylfi og Geir, hafa haft uppi í sambandi við veiðar austur-þýskra togara.

Það hafa vissulega gerst athyglisverðar breyt. á vinnubrögðum á Alþ.að undanförnu eða nánar tiltekið frá þeim tíma, að Bjarni Guðnason gerði loksins upp hug sinn og taldi sig eiga meiri samstöðu á Alþ. með gömlu viðreisnarflokkunum en núv. stjórnarflokkum. Frá þeim tíma hefur það verið að gerast, að stjórnarandstaðan, þ.e.a.s. gömlu viðreisnarflokkarnir og Bjarni Guðnason, hafa gert með sér bandalag um að standa gegn öllu, sem ríkisstj. þyrfti að koma í gegnum þingið, og beita þannig beinu stöðvunarvaldi til að koma ríkisstj. frá. Nú þessa dagana stendur Alþ. frammi fyrir vandasömum aðgerðum í efnahagsmálum. Þá er það afstaða stjórnarandstöðunnar og auðvitað Bjarna Guðnasonar að standa gegn öllum till., einnig gegn þeim till., sem þeir sjálfir telja góðar og nauðsynlegar, það hafa þeir tekið fram, og fást þá auðvitað ekkert um það, þó að holskefla dýrtíðarflóðs, eins og þeir orða það sjálfir, skelli yfir þjóðina eða þó að allt atvinnulíf landsins stöðvist, eins og þeir segja. Slíkt skiptir þá ábyrgu menn í stjórnarandstöðunni engu máli. Í þau rúmlega 30 ár, sem ég hef setið á Alþ., hafa slík vinnubrögð aldrei þekkst þar. Slíkt ábyrgðarleysi er algert einsdæmi, að ég hygg, í allri starfssögu alþingis. Það hefur þó oft komið fyrir áður, að aðstaða væri til að stöðva mál í annarri þd. Það hefur hins vegar alltaf þótt óhjákvæmilegt og það eitt í samræmi við þingræðisvenjur, að meiri hl. fengi að ráða, að vilji 31 þm. réði meiru en vilji 29.

Sá efnahagsvandi, sem nú er við að glíma, er vissulega alvarlegur. En því fer víðs fjarri, að hann sé af þeim toga, sem stjórnarandstaðan vill vera láta. Eins og jafnan áður, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, reynir stjórnarandstaðan að mála skrattann á vegginn í sambandi við öll vandamál, sem upp koma. Nú er því haldið fram af stjórnarandstöðunni, að algert öngþveiti blasi við í efnahagsmálum, að gífurlegur greiðsluhalli í viðskiptum við útlönd sé fyrirsjáanlegur, að atvinnuvegirnir séu að stöðvast, gífurlegt tap sé í fiskiðnaði, milljónatap á togurunum o.s.frv. Það er svo sem ekki langt síðan þeir sjálfstæðismenn lögðu fram till. á Alþ. um það, að hægt væri að lækka tekjur ríkissjóðs um 4300 millj., yfir 4 milljarða, af því að tekjurnar væru of miklar. Þessi lýsing er í rauninni nákvæmlega sú sama og þeir viðreisnarmenn höfðu uppi í ársbyrjun á s.l. ári og einnig í ársbyrjun 1972. Þá var allt að farast, allir sjóðir uppétnir, gífurleg verðbólga og fyrirsjáanlegur gjaldeyrisskortur.

Allar hafa þessar hrakfallasvartsýnisspár íhalds og krata orðið sér til skammar. Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins, sem samkvæmt hrakfallaspánum átti að vera uppétinn í ársbyrjun 1972, er nú helmingi fjársterkari en hann var um það leyti, sem viðreisnarstjórnin fór frá. Og þó kemur hér Þorvaldur Garðar og segir, að núv. stjórn hafi hirt þennan sjóð. Hann hefur trúað svo ósannindum Morgunblaðsins, að hann hefur ekki hirt um að sjá, hvaða tölur liggja opinberlega fyrir um afkomu þessa sjóðs.

Gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur farið vaxandi ár frá ári í tíð núv. stjórnar og nam um síðustu áramót 6557 millj. kr. og hefur aldrei verið eins mikill.

Þegar sá vandi, sem nú er við að fást í efnahagsmálum, er skoðaður, er óhjákvæmilegt að hafa í huga, að s.l. ár, árið 1973, var einstaklega hagstætt efnahagslega séð og skilaði þjóðarbúinu upp á hærra og betra efnahagsstig en áður hafði þekkst. Samkv. nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur í ljós, að þjóðarframleiðsla hér á landi er talin 4716 dollarar á hvern íbúa á árinu 1973, og er þá Ísland komið í 3.–4. sæti meðal tekjuhæstu þjóða heims, miðað við íbúafjölda. Árið 1969, í tíð viðreisnar, voru samsvarandi tölur fyrir Ísland ekki 4700 dollarar, heldur 1900 dollarar, og árið 1971 2920 dollarar. Hér hefur því orðið gífurleg breyting á síðustu árum. Þessi mikla tekjuaukning á Íslandi, á s.l. ári sérstaklega, vakti auðvitað mikla athygli fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, enda komst einn þeirra þannig að orði í umr. um þessa skýrslu, að á árinu 1973 hefði sýnilega orðið á Íslandi bæði gos í Heimaey í Vestmannaeyjum og einnig efnahagslegt gos.

Á árinu 1973 hækkuðu tekjur almennings í landinu að meðaltali um 32–33% og sparnaður varð meiri í bankakerfinu en nokkru sinni þrátt fyrir gífurlegar framkvæmdir á öllum sviðum og mikinn almennan innflutning. Sá vandi, sem nú þarf að ráða fram úr í efnahagsmálunum, verður að metast með hliðsjón af því, hver staðan í efnahagsmálunum var orðin, hverjar almennar tekjur voru orðnar, þegar nýju efnahagsvandamálin komu til. Þó að draga þurfi nokkuð úr framkvæmdahraða og úr tekjuhækkun frá þessum hápunkti, þá er þar ekki um neinn voða að ræða. Því aðeins er hægt að tala um hættuástand í efnahagsmálum, að ekkert sé gert. Séu hins vegar gerðar eðlilegar ráðstafanir, er auðvelt að ráða fram úr vandanum. Þjóðin er nú betur búin en nokkru sinni fyrr í sambandi við hin nýju og öflugu atvinnutæki til þess að glíma við vandamál, eins og öllum er kunnugt.

Þær till. til ráðstafana gegn þessum vanda, sem ríkisstj. hefur að undanförnu leitað eftir samkomulagi um, m.a. við stjórnarandstöðuna, og hún nú hefur lagt fyrir Alþ. í frv.-formi, eru í aðalatriðum þessar:

1. Heimild til verðstöðvunar og til þess að ríkisstj. geti ákveðið verðlækkun.

2. Heimild um að mega lækka útgjöld fjárl. um 1500 millj. kr. til þess fyrst og fremst að skapa svigrúm til aukinna niðurgreiðslna á vöruverði, til þess á þann hátt að minnka efnahagsvandann.

3. Að stöðva frekari almenna hækkun kaupgjaldsvísitölunnar frá því, sem nú er, næstu 6 mánuði, á meðan málin eru tekin til nánari athugunar. Gert er þó ráð fyrir, að auk meiri niðurgreiðslna á vöruverði verði heimiluð sérstök hækkun á launum lágtekjufólks.

4. Þá er gert ráð fyrir í till., að verð á landbúnaðarvörum og fiskverð haldist mikið til óbreytt næstu 6 mánuði og að skylda banka, sparisjóði og lífeyrissjóði til þess að ráðstafa nokkru meiru af tekjum sínum til almennra framkvæmda og einnig gert ráð fyrir því að verðtryggja lífeyrissjóðina nokkuð.

Um þessar till. og frv. ríkisstj. vil ég taka fram, að við Alþb: menn áskiljum okkur rétt til þess að flytja og fylgja brtt., sérstaklega við þær gr. frv., sem snerta launagreiðslur og vísitölumál, og um niðurgreiðslu vöruverðs. Við teljum, að frv. eigi að geta orðið eðlilegur grundvöllur til samkomulags á Alþ. með vissum breytingum. Við leggjum mesta áherslu á, að launakjör hinna lægra launuðu verði ekki skert og að takast megi að stöðva verðhækkunarskrúfuna og tryggja síðan fulla atvinnu.

Afstaða stjórnarandstöðunnar til þessara till. er vissulega athyglisverð. Opinberlega hafa fulltrúar hennar sagt, að þeir verði á móti öllum till. ríkisstj., jafnvel þó að þeir meti þær góðar og nauðsynlegar. M.ö.o.: stjórnarandstaðan hótar að standa gegn verðstöðvun. Svo á auðvitað að kenna ríkisstj. um allar verðhækkanir á eftir. Stjórnarandstaðan hótar að fella till. um niðúrskurð á fjárl. til dýrtíðarráðstafana, en hefur þó auðvitað áður flutt svipaða till., núna fyrir nokkrum mánuðum. Og stjórnarandstaðan ætlar að tala áfram um holskeflu dýrtíðar, sem sé að rísa 1. júní n.k., en standa þó gegn öllum till. til að koma í veg fyrir þessa holskeflu.

Gunnar Thoroddsen var talsmaður Sjálfstfl. í sjónvarpsþætti um þessi mál nýlega. Hann gat ekkert sagt um úrræði Sjálfstfl. frekar en ræðumenn flokksins hér í kvöld. Hann talaði aðeins eins og þeir um, að hér þyrftu að koma til samræmdar aðgerðir, yfirlit þyrfti að fást um allan vandann og trú þyrfti að fást á því, sem gert yrði, og annað eftir því. Hvað skyldi nú orðarugl af þessu tagi þýða? Hver er stefna Sjálfstfl.? Eða hefur hann í þessum málum enga stefnu aðra en þá að reyna að koma Gunnari og Geir, öðrum eða báðum, í stjórnarstóla?

Og ekki var stefna Gylfa Þ. Gíslasonar miklu skýrari, enda ekki að vænta. Hann sagðist þó lofa því, að Alþfl. skyldi verða á móti öllu, hreint á móti öllu, sem stjórnin legði fram. Og svo kom auðvitað raus hans um, að nú dygðu ekki bráðabirgðaráðstafanir, ekkert kák. En stefnu í málinu hafði hann enga. Svo kemur hér Eggert G. Þorsteinsson og segir: Alþfl. tekur alltaf efnislega afstöðu til allra mála, hann er svo ábyrgur, hann er ekki eins og kommúnistar.

En ætli landsmenn viti ekki, hver yrðu ráð þeirra viðreisnarmanna, ef þeir mættu ráða? Fyrst mundu þeir auðvitað mála allt með hroðalega dökkum litum og telja fólki trú um, að stórkostlegra aðgerða væri þörf, nú þyrfti að skera djúpt. Og svo kæmi auðvitað 40–50% gengislækkun, vísitalan úr sambandi, vextir hækkaðir og afleiðingarnar auðvitað almennt atvinnuleysi. Ég held, að maður þekki þessar ráðstafanir.

Í þessu öllu saman er fyrirbærið Bjarni Guðnason þó það átakanlegasta. Hann hefur gersamlega látið ginnast af áróðri þeirra viðreisnarherranna. Nú gengur hann á milli þeirra Gunnars Thoroddsens og Gylfa Þ. Gíslasonar og sækir til þeirra öll ráð, en þeir brosa auðvitað að barnaskap hans í laumi. Bjarni Guðnason taldi sig vera hernámsandstæðing og gegn aðild Íslands að NATO. Nú lýsir hann því yfir frammí fyrir allri þjóðinni, að við verður víst að vera í NATO. Og barátta hans gegn hersetunni lýsir sér í því, að hann vill óður og uppvægur koma ríkisstj. frá, þegar hún er komin að því marki að láta reyna á framkvæmdina um brottför hersins. Það er dálagleg vinstri stefna hjá Bjarna Guðnasyni að ætla að vera á móti verðstöðvun, að ætla að vera á móti lækkun útgjalda ríkissjóðs, til þess að hægt sé að halda niðri vöruverði og draga úr dýrtíð. Og svo kemur hann auðvitað í þessum umr. rétt eins og hinir viðreisnarmennirnir og segist alltaf taka ábyrga afstöðu til mála, þó að hann hafi lýst því opinberlega yfir fyrir nokkrum dögum, að hann muni bregðast á þennan hátt við öllum till. ríkisstj.

Það má nú heita ráðið, að gengið verður til alþingiskosninga á þessu ári. Úr því verður að skera í almennum kosningum, hvort hér á að vera við völd næsta kjörtímabil ný viðreisnarstjórn undir forustu íhaldsins og með venjulegri aðstoð kratanna og kannske einhvers Bjarna Guðnasonar eða hvort hér getur orðið starfhæf vinstri stjórn, sem heldur áfram því mikla verki að treysta atvinnulíf landsmanna, að ljúka við það mikla verk að tryggja landsmönnum einum fiskimiðin í kringum landið og við það að gerbreyta fiskiskipaflotanum og fiskiðnaðnum í landinu til stórkostlegrar framleiðsluaukningar, — stjórn, sem áfram fær að vinna að uppbyggingu íslensks iðnaðar og að því að bæta aðstöðu og kjör þeirra, sem vinna að landbúnaðarstörfum, — stjórn, sem framkvæmir brottför hersins og vinnur að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Úr þessu verður að skera í almennum alþingiskosningum, og það er best að hafa þær sem fyrst. — Góða nótt.