03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4136 í B-deild Alþingistíðinda. (3736)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er út af þeirri brtt., sem við flytjum hv. 1. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Vestf., að ég vil aðeins segja nokkur orð. Hún er flutt í tilefni af því, að það hefur orðið lítils háttar ágreiningur um það í ráðuneytunum, hvernig beri að lita efnislega á kafla í lögunum, þar sem kveðið er á um það, hvort hér sé um opinbera stofnun að ræða, þannig að starfsmennirnir séu ríkisstarfsmenn eða ekki. Út af þessum ágreiningi fengum við á sínum tíma í Lagmetisstofnuninni bréf frá hæstv. iðnrh., Magnúsi Kjartanssyni, þar sem skilningur hans kemur fram. Ég tel eðlilegast að lesa bréfið, og það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið vísar til bréfs fjmrn., dags. 25. júní 1973, svarbréfs iðnrn. dags. 4. júlí 1973, bréfs fjmrn., dags. 6. júlí 1973, og bréfs fjmrn., dags 9. okt. 1973, um starfskjör starfsmanna Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins, og leyfir sér að tilkynna fjmrn., að það er skilningur iðnrn. á 4. gr. l. nr. 48 1972, um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, að stjórn stofnunarinnar skuli ráða stofnuninni framkvæmdastjóra og ákveða starfssvið hans svo og starfskjör, en við ákvörðun starfskjara skuli höfð hliðsjón af gildandi launakerfi starfsmanna ríkisins. í þessu felst, að stjórn stofnunarinnar getur ekki ákveðið framkvæmdastjóra starfskjör án takmörkunar, en er þó ekki skylt að binda sig við launakerfi ríkisstarfsmanna, heldur hafa hliðsjón af þeim kjörum, og síðan breytast kjör framkvæmdastjóra að meginstefnu í samræmi við breytingar, sem verða á því launakerfi. Þar sem nefndir starfsmenn falla því ekki undir ákvæði laga nr. 46 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, hljóta þeir eigi réttindi samkvæmt þeim lögum né lögum nr. 38 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðuneytið telur, að við ákvörðun kjara annarra starfsmanna stofnunarinnar beri stjórn og framkvæmdastjórn ekki að fara eftir hinu almenna launakerfi starfsmanna ríkisins, heldur sé eðlilegt að miða kjör starfsmanna við almenn launakjör í landinu. Þessi er skilningur ráðuneytisins á ákvæðum fyrrgreindra laga fyrir starfssvið stofnunarinnar, sem starfar á erlendum samkeppnisgrundvelli. Jafnframt er til þess vísað, að samkvæmt 3. málsgr. 4. gr. l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins breytist stjórn stofnunarinnar að 5 árum liðnum frá gildistöku laganna á þann veg, að 3 stjórnarmeðlimir af 5 verða tilnefndir af aðalfundi fulltrúaráðs, en 2 af ráðh. Í samræmi við þennan skilning var hinn 27. apríl 1973 sett reglugerð um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, nr. 128 1973, og er þar í 1~. og 11. gr. að finna ákvæði um ráðningu framkvæmdastjóra og annars starfsfólks.

Af ofangreindu leiðir, að iðnrn. getur ekki orðið við ósk fjmrn. í bréfi, dags. 9. okt. 1973, þess efnis, að þetta rn. feli Sölustofnun lagmetisiðnaðarins að greiða starfsfólki stofnunarinnar laun, sem tilgreind eru eftir launaflokkum í bréfi yðar.“ — Undir þetta ritar hæstv. iðnrh.

Það er í beinu samræmi við það, sem fram kemur hjá hæstv. iðnrh., sem þessi till. er fram borin. Ég tel, að hún sé einnig í samræmi við þær umr., sem áttu sér stað, þegar frv. varð að lögum hér á Alþingi. Ég vænti því, að menn geti fallist á, að þessi breyt. verði gerð, þannig að það verði skorið úr um það, að starfsmenn Sölustofnunarinnar séu ekki opinberir starfsmenn.