03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins og niðurfellingu útflutningsgjalda tók ég til máls við 1. umr. og gerði fyrirspurn, sem ég ætlaðist til að yrði svarað við afgreiðslu málsins við 2. umr. Ég tel það alveg óeðlilegt, að við fáum ekki upplýsingar um, hvað stórar tölur hér er um að ræða. Af því að við erum að færa fjármagn á milli ákveðinna sjóða, vil ég vita, um hve stórar tölur er að ræða. Ég lýsti mig hlynntan frv. efnislega, en tók fram og óska enn eftir því, að það sé gefið upp, hversu stórar tölur hér sé um að ræða. Það er vegna þess, að með því að fella þessi gjöld algjörlega niður, eru einum aðila veitt mun betri rekstrarskilyrði en öðrum starfsgreinum við sjávarútveginn. Það er mál manna, að nauðsynlegt sé að hafa slíka hjálp uppi til þess að koma lagmetisiðnaðinum á góðan rekspöl og skapa honum kjölfestu. En það hlýtur að vera sanngirnismál og eðlilegt, að við vitum, um hve stórar tölur við erum hér að fjalla. Blessunarlega hefur orðið aukning í útflutningi á þessum vörum, og vonandi verður svo áfram. En það getur ekki verið, nema rekstrargrundvöllurinn sé heilbrigður og hann geti staðið undir eðlilegum skilyrðum í framtíðinni. Þess vegna vil, ég vita, hvað hér er um stórar tölur að ræða. Ég tel það algjörlega eðlilegt mál. Einnig óskaði ég eftir að fá upplýst, hvort eitthvað hafi verið gefið eftir þegar á þessu ári og jafnvel fyrr, þrátt fyrir að löggjöf hafi ekki verið til um ráðstöfun þessa útflutningsgjalds af lagmetisiðnaðinum í heild.

Ég vil sem sagt ítreka þessa beiðni mína og tel, að n. hafi átt að kynna sér slíkt, áður en hún afgreiddi málið frá sér.