03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3738)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Ragnar Arnalds:

Herra forseti: Ég stend hér ekki upp til þess að gera aths. við frv. það, sem hér liggur fyrir. En ég held, að öllum sé ljóst, að þetta er hið mesta nauðsynjamál, sem þarf tafarlaust að ná fram að ganga.

Ég stend hins vegar upp vegna framkominnar brtt. frá Jóni Árnasyni, Steingrími Hermannssyni og Bjarna Guðbjörnssyni um breyt. á 4. gr. laganna, sem snertir starfslið stofnunarinnar. Ég geri mér fyllilega ljóst, að þörf er á því að kveða skýrar á um það í lögunum, hvernig háttað skuli ráðningu starfsmanna. Ég er að meginstefnu til samþykkur þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, en tel þó, að gera mætti á henni nokkra bragarbót, þar sem ég óttast, að misskilningur gæti hlotist af þessu orðalagi eins og hinu fyrra, sem í lögunum var og er nú.

Ég held, að það sé ekki og hafi aldrei verið neitt ágreiningsmál, að hér er ekki um að ræða ríkisfyrirtæki í venjulegri merkingu þess orðs. Enda þótt íslenska ríkið sé annar af tveimur stofnaðilum Sölustofnunarinnar, en hinn aðilinn atvinnurekendur í niðursuðu eða niðurlagningariðnaði, og þó að ríkið leggi stofnuninni til óendurkræf framlög fyrstu 5 starfsárin og veiti henni nokkra aðra fyrirgreiðslu, eins og kemur fram í lögunum, er um að ræða sjálfstæða stofnun, eins og kemur skýrt fram í 1. gr. laganna, með sjálfstæðan fjárhag og stofnun, sem starfar eftir sérstökum lögum. Kannske væri einna næst að segja, að þetta væri sjálfseignarstofnun. En þegar lögin voru samin, láðist að ganga frá þessu atriði, hvernig starfsmennirnir væru ráðnir, og setningin, sem er í lok síðustu málsgr. 4. gr., að staða framkvæmdastjóra skuli „ákveðin í samræmi við launakerfi starfsmanna ríkisins“, er að sjálfsögðu ekki ótvíræð.

Ég verð að taka á mig nokkra sök í þessum efnum, þar sem ég var form. þeirrar n., sem undirbjó þessa löggjöf, og átti sæti í n., sem um þetta fjallaði hér í þinginu, og verð að játa, að við höfum kannske ekki hugsað þetta mál til enda eða áttað okkur á því, að af þessu gæti hlotist misskilningur. En frá mínum bæjardyrum séð var alltaf talið æskilegt, að starfsmannahald hjá þessari sérstæðu stofnun gæti verið með nokkuð sjálfstæðari hætti en gerist almennt um stofnanir ríkisins. Þetta er stofnun, sem starfar á alveg sérstöku sviði, þar sem ýmsir starfsmenn hennar eru á ferð og flugi út um lönd og eru bæði sölumenn og erindrekar fyrir stofnunina, og hér er um að ræða svið, sem er það ólíkt venjulegum störfum ríkisstarfsmanna, að það er dálítið varasamt að binda ráðningarkjör þeirra sömu böndum og venjulegra starfsmanna ríkisins. Þar af leiddi, að þetta var orðað með þessum hætti, að við lítum svo á, að stjórnin hefði hendi sér að ákveða, hvernig háttað yrði ráðningarkjörum starfsfólksins. En þegar til kastanna kom, reyndist svo ekki vera og upp risu deilur meðal embættismanna í rn. um, hvernig þessu skyldi hagað, og ég veit og mér er kunnugt um, að þetta hefur valdið þessari stofnun nokkrum erfiðleikum. Þess vegna er ég hlynntur því, að tækifærið verði nú notað til að gera breytingu, sem tekur af allan vafa um þetta efni.

En orðalagið á brtt. er mér ekki alls kostar að skapi, og ég er hálfhræddur um, að setningin, að kjör skuli „ákveðin með hliðsjón af launakjörum ríkisstarfsmanna og hliðstæðra stofnana“, gæti einnig valdið misskilningi. Ég held því, að það sé langeðlilegast og einfaldast að ganga hreint til verks í þessum efnum og fá það skýrt inn í lögin, að það sé stjórn þessarar stofnunar, sem hafi með að gera að taka ákvörðun fyrir hönd hennar um launakjör framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna, á svipaðan hátt og stjórnir banka hafa þennan rétt gagnvart starfsmönnum sínum, ellegar, svo að ég nefni annað dæmi, stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hefur þann rétt ótvíræðan samkv. lögum um Framkvæmdastofnunina. Starfsmenn hennar eru ekki opinberir starfsmenn, heldur ráðnir með samningum við þá, sem umboð hafa frá stjórn stofnunarinnar.

Ég hef borið þessar hugmyndir undir tvo af flm., og mér heyrist, að þeir séu hlynntir því, að till. verði færð í þetta horf. Ég vil því leyfa mér að flytja brtt. við brtt. þeirra. Hér er um að ræða síðustu málsgr. 4. gr. I. Er það till. mín, að 2. málsl. 2. málsgr. brtt. orðist á þennan veg: „Stjórnin tekur ákvörðun fyrir hönd stofnunarinnar um launakjör framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna.“ Þessi setning er tekin beint upp úr lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins og er einnig í lögum um ýmsa ríkisbankanna.

Ég tek það aðeins fram að lokum, að ég lít ekki svo á, að þótt þessi breyting sé gerð, þá breyti það einu eða neinu um stöðu stofnunarinnar sem slíkrar. Þetta er breyting, sem snertir aðeins þetta tiltekna framkvæmdaatriði, hvernig starfsmenn skuli ráðnir, en að sjálfsögðu er staða stofnunarinnar ákveðin í öðrum gr. og þá fyrst og fremst í 1. gr. laganna.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja fram þessa skriflegu brtt. og óska eftir því, að afbrigða verði leitað, til þess að hún megi koma fyrir.