03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4141 í B-deild Alþingistíðinda. (3742)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka frsm. n. góðar undirtektir. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að það getur verið deila hjá þeim aðilum, sem framleiða vöruna fyrir lagmetisiðnaðinn, hvort þeir vilja afhenda hana í fullvinnslu í niðursuðu eða salta hana og flytja hana þannig út úr landinu. Tökum einfalt dæmi. Tökum hrogn úr bolfiski, þorskinum. Nú er mjög góð eftirspurn eftir hrognum bæði í niðursuðu og einnig sem saltaðri vöru. Margir aðilar eiga hér tvöfaldra hagsmuna að gæta. Það er ákveðið í sambandi við verðlagningu, að hrognin beri veruleg útflutningsútgjöld sem söltuð vara, og þannig fær sjávarútvegurinn til baka, bátarnir, í gegnum Aflatryggingasjóð, fæðissjóð og Fiskveiðasjóð þau gjöld, sem hann leggur þannig fram, ef hrognin eru flutt út sem söltuð vara. Útflutningur til Svía hefur verið frá 10 til 14 þús. tunnur á ári, og þetta nemur milljóna tugum. Með þessu móti borgar þessi starfsgrein hundruð þúsunda, jafnvel á aðra millj. í útflutningsgjöld, bara af þessum eina þætti. Þegar við höfum nú samþykkt þetta frv. og fellt niður útflutningsgjaldakvöðina á lagmetisiðnaðinum og hann þarf núna á miklu magni af frystum hrognum að halda í sína vinnslu, þá getur svona ákvörðun ráðið nokkru um það, hvort viðkomandi framleiðandi vill afhenda vöruna. Ég veit um þessi tilfelli, og þess vegna væri gott fyrir okkur, sem stöndum allir að þessu frv. og viljum framgang þess, að vita og geta sagt mönnum, hvað hér væri hugsanlega um stórar tölur að ræða, til þess fyrst og fremst að eyða misskilningi og fá jákvæða afstöðu þeirra, er framleiða vöruna, til þess að afhenda lagmetisiðnaðinum hana, því að það er ekkert gagn að því að hafa þessa löggjöf, ef enginn vill afhenda vöruna til verksmiðjanna, ef allir hugsa sem svo: Við erum hér að styrkja einhverja og einhverja, sem við vitum ekkert, hverjir eru, með því að fella niður útflutningsgjöldin, og við fáum engar upplýsingar um þetta. Ég vil jafnvel bara salta vöruna, jafnvel þó að það sé minna í heildarverðmæti, og veit þá um leið, að ég legg nokkurt gjald í fæðissjóð, í Aflatryggingasjóð og í Fiskveiðasjóð. Þar við situr, og gamla aðferðin heldur áfram að vera undirstaðan og uppistaðan í verkun hrognanna.

Ég vil aðeins drepa á þetta til þess að hjálpa til með að stuðla að því, að lagmetisiðnaðurinn geti fengið sem mest af vöru til sinna þarfa.

Þetta sama mun gilda um síldina, þegar að því kemur, að farið verður að veiða síld hér aftur. í framtíðinni mun lagmetisiðnaðurinn óska eftir saltsíld. En af henni hafa verið greidd mikil útflutningsgjöld.

Það er mjög mikilvægt, að framleiðendur séu af frjálsum vilja fúsir til að afhenda lagmetisiðnaðinum nægilega vöru, svo að hann geti starfað. Ég tel, að það sé til bóta, að við gerum okkur grein fyrir því, hvað hér er um stórar tölur að ræða. Þess vegna hef ég komið fram með þessa fsp. Efnislega er ég með frv. að öðru leyti.