03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4143 í B-deild Alþingistíðinda. (3750)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Fjh: og viðskn. þessarar hv. d. hefur rætt frv. það, sem hér liggur fyrir, og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. eins og það nú liggur fyrir. Að vísu er rétt að geta þess, að 2 nm. undirrituðu nál. með fyrirvara.

Þetta frv. er flutt af þeim þm. Vestf., sem sæti eiga í Nd., en jafnframt flutt með fullu samþykki og stuðningi þeirra þm. Vestf., sem í Ed. sitja. Þegar frv. var í upphafi lagt fram, var upphæð sú, sem happdrættislánið gerði ráð fyrir, 60 millj. kr., en í meðförum Nd. var það hækkað upp í 80 millj. kr. Þannig liggur frv. fyrir hér, og þannig leggur fjh: og viðskn. þessarar hv. d. til, að frv. verði samþ.

Á síðustu tveimur árum hafa verið lagðar um 50 millj. kr. — eða 26 millj. á ári — í Djúpveginn. Þegar vinnu lauk á s.l. hausti, var talið, að um 4 km væru óruddir af þessum vegi, þ.e.a.s. algerlega óhreyft land, en um 20 km væru ruðningar, ófærir öllum farartækjum í raun og veru. Til þess að ná endum saman í þessari langþráðu, en seinunnu vegagerð þarf miklu meira fé en það, sem vegáætlun gerir ráð fyrir. Til þess að flýta fyrir vegagerð er þetta frv. um fjáröflun flutt.

Öll ákvæði þessa frv. um lánskjör og lánstíma eru samhljóða ákvæðum l. um happdrættislán ríkissjóðs vegna vegagerðar á Skeiðarársandi.

Verði þetta frv. að lögum, standa vonir til þess, að Djúpvegur verði fullgerður árið 1975.

Ánægjulegra hefði að sjálfsögðu verið, að Djúpvegi hefði lokið á því sama ári og vegagerð um Skeiðarársand eða hringveginum lýkur. Vestfirðingar a.m.k. telja ekki hringveg kominn um landið, fyrr en Djúpvegur hefur verið lagður.

Það er í alla staði mjög erfitt öllum byggðarlögum að vera án vegasambands. Þetta hafa vestfirskar byggðir lengi mátt búa við mánuðum saman, og ár hvert eru Vestfirðingar án vegasambands við aðra landshluta. Hér er um mjög þýðingarmikið samgöngumál að ræða, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að peningar verði lagðir í, brýnt innanhéraðs hagsmunamál, auk þess sem beint akvegasamband við aðra landshluta hefur mikla almenna þýðingu. Þeirri innilokun, sem verið hefur, er senn að ljúka. Með þeirri fjáröflun, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, verður unnt að ljúka þessari vegagerð síðla sumars 1975, að því er Vegagerð ríkisins telur.

Fjh: og viðskn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.