03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4146 í B-deild Alþingistíðinda. (3753)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Hv. 4. þm. Vestf. hefur mælt fyrir málinu, og þarf ég ekki að bæta miklu þar við. Ég stóð upp fyrst og fremst vegna þess, að ég kunni ekki við eitt orð í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann talaði um það, að ákveðið hefði verið að eyða 100 millj. kr. í Djúpveg. Þetta er ekki eyðsla. Ákveðið var að verja 100 millj. kr. í Djúpveg.

Ég held, að hv. þm. verði að gera sér grein fyrir því að þessi vegaframkvæmd er að mörgu leyti ákaflega sérstæð. Ég hygg, að ekki sé annar landshluti svo aðskilinn frá vegakerfi þessa lands eins og Vestfirðir og ekki þá síst sá hluti, sem Djúpvegur kemur til með að þjóna fyrst og fremst, þ.e.a.s. Ísafjörður og byggðirnar í kringum ísafjarðardjúpið. Þetta er mikil framkvæmd og ákaflega mikið kappsmál fyrir íbúa þessa landshluta, sem von er, að komast í vegasamband betur en verið hefur og mun verða, á meðan leiðin liggur suður um firði yfir fjölmargar erfiðar heiðar.

Vestfirðingar líta því gjarnan á þetta mál sem hringveg, annan hringveg, og hafa raunar margir látið í ljós þá skoðun sína, að hringvegi um landið sé ekki lokið, fyrr en þessi vegur er fullgerður. Til hringvegar, sem venjulega er talað um í merkingu hinnar miklu vegaframkvæmdar á Skeiðarársandi, er aflað fjár með sama hætti. því þótti okkur þm. Vestf. ekki óeðlilegt, að þessi leið yrði einnig reynd við þennan þátt hringvegarins. Eins og kemur fram í grg., að þó frv. sé flutt af þremur þm. Vestf. í Nd., þá standa raunar allir þm. kjördæmisins að þessu frv.

Við gerum okkur vonir um, að þetta geti leitt til verulegrar þátttöku, við skulum segja fyrst og fremst heimamanna, í þessari vegaframkvæmd. Ég hygg, að menn séu sammála um, að í þeirri fjármagnsþenslu, sem nú er, sé æskilegt að fá fjármagn þannig úr annarri — sem við gætum kannske kallað — eyðslu í nauðsynlegar framkvæmdir. En það er einnig von okkar, að aðrir velunnarar Vestfjarða muni taka þátt í þessari fjáröflun.