03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4147 í B-deild Alþingistíðinda. (3754)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Samkv. því frv., sem lagt hefur verið fram um fjáröflun til vegagerðar, er gert ráð fyrir því í 13. gr., að ríkissjóður skuli gefa út happdrættisskuldabréf í því skyni að afla fjár til hringvegar um landið, eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hvert ár. Í aths. um það segir svo, að á undanförnum árum hafi verið aflað fjár til framkvæmda á Skeiðarársandi með útgáfu happdrættisskuldabréfa, þeim framkvæmdum muni ljúka nú í ár, lagning vegar yfir Skeiðarársand sé aðeins áfangi í gerð greiðfærs hringvegar um landið til hagsbóta fyrir alþjóð.

Það fer því ekki á milli mála, að inn í þetta frv. um fjáröflun til vegagerðar hafa verið sett ákvæði um það og beinlínis gert ráð fyrir því, að áfram skuli aflað fjár með þessari tekjuöflunarleið, með happdrættisfé. Það kemur því mjög á óvart, að einn af þm. Norðurlands skuli láta sér sæma hér í hinni háu Ed. að taka í þetta mál eins og hann gerði, og má vera raunar, að það, hversu treglega hefur gengið að fá frv. um sérstaka lánsfjáröflun til Norðurlandsvegar, eigi nokkra skýringu í þessum viðbrögum, sem ég álít, að séu fyrst og fremst sprottin af því, að þessu máli var hreyft hér á hinu háa Alþingi af sjálfstæðismönnum. Er það eina skýringin, sem getur verið á því, að þessi hv. þm, skuli vera svo þversum í málinu. Þetta er þeim mun óskiljanlegra, þegar það liggur fyrir, að fjárveitingar til allrar vegagerðar um Norðurland munu vera í algjöru lágmarki nú á þessu ári og það svo mjög, að í beinni krónutölu verða lagðar færri krónur til landshluta og þjóðbrauta í þeim fjórðungi í þessu ári en gert hefur verið. Hér er um það að ræða, sem fjallað er um í frv. um fjáröflun til vegagerðar, að í öllum umr. um þetta mál, hefur verið talið eðlilegt að reyna að stuðla að því, að sómasamlegur hringvegur komist um landið. Sá þröskuldur, sem þar er nú verstur á veginum, miðað við umferð og allar þarfir, er vegurinn norður til Akureyrar. Það er næsta stórframkvæmd, sem liggur fyrir Alþingi að taka ákvörðun um að ráðast í.

Að mínu viti er engin sambærileg framkvæmd til, sem þörf er á að ráðast í. Má rökstyðja það m.a. með þeim mikla iðnaði og miklu iðnvæðingu, sem átt hefur sér stað á Norðurlandi, þótt ég viðurkenni á hinn bóginn, að menn eru nokkuð kviðnir nú, eins og sakir standa, um það, hvernig þau mál muni þróast, eins og komið er rafmagnsmálum norður þar. En eins og kunnugt er hefur verið haldið þannig á málum af núv. ríkisstj., að við blasir algjör orkuskortur í þeim fjórðungi, þannig að bændur fá ekki einu sinni rafmagn eftir þeim taxta, sem kallaður er marktaxti, og algjört hann hefur verið lagt við því, að ný hús, sem byggð eru, séu hituð upp með rafmagni.

Algjörlega sambærilegt er ástandið í iðnaðinum. því hefur verið varpað fram og menn hafa af því áhyggjur þar nyrðra, hvort nauðsynlegt kunni að vera að gera ráðstafanir til þess að hamla á móti orkufrekri iðnvæðingu á Norðurlandi. Þetta er bara ein hliðin á þessu máli. En að sjálfsögðu er líka fyrir iðnaðinn og í sambandi við hvers konar samkeppni við Stór-Reykjavíkursvæðið afskaplega nauðsynlegt, að samgönguleiðin til Reykjavíkur sé trygg. Og það er einnig mikill liður í því að jafna flutningskostnaðinn um allt land. Og er það mál út af fyrir sig, að þannig skuli vera haldið á þeim málum, að fólkið út á landsbyggðinni skuli þurfa að greiða söluskatt af flutningskostnaði. Það er nú eitt með öðru að auka enn á óréttlætið í þessum efnum.

Ég veit, að þeir hv. þm., sem hafa haft afskipti af því að fjármagna fyrirtæki úti á landsbyggðinni eða hafa staðið fyrir slíkum rekstri, vita, að mjög tilfinnanlegur kostnaðarliður fyrir mörg fyrirtæki, þó að það fari að sjálfsögðu mjög eftir atvinnugreinum, er hinn geysilegi flutningskostnaður og hinar stopulu og ótryggu samgöngur, sem við eigum við að búa. Þar við bætist það á Norðurlandi, að yfir okkur vofir alltaf sú hætta, að hafísinn heimsæki okkur og teppi sjóleiðina. Einnig þetta atriði, sem er ekki lítilsvert, undirstrikar enn frekar nauðsynina á því, að sérstök fjáröflun sé gerð í sambandi við Norðurlandsveginn. Ef hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur engin önnur ráð, enga aðra lausn á því, hvernig afla skuli fjár til þessarar vegagerðar, þá held ég hann eigi engan annan kost, ef hann ætlar að gera sér nokkrar vonir um það, að hann nái endurkjöri í kjördæmi sínu, heldur en að taka undir þá leið, sem við sjálfstæðismenn höfum bent á til fjáröflunar í þessu skyni. Það getur ekki verið um neitt annað að ræða. Þarna er svo mikið í húfi, að hinar norðlensku byggðir geta ekki látið óátalið að einn af þeim fulltrúum, sem þær eiga á löggjafarsamkundunni, taki með slíkri tregðu í þetta mál. Að sjálfsögðu munu þeir menn, sem hafa staðið að því að tefja framgang þess máls svo mjög sem raun ber vitni í fjh: og viðskn. Nd., ef einhver af þeim mönnum er þm. Norðurlands, þá munu þeir einnig þurfa að svara fyrir það, hvernig á þessu standi.

Við erum að tala um það, og ég hygg, að engin ríkisstj. hafi talað meira um það heldur en sú, sem nú situr, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir í sambandi við jafnvægi í byggð landsins. Það er nú einu sinni svo með vinstri menn, að þeir eru afskaplega ófúsir að gera slíkar almennar ráðstafanir eins og hér er um að ræða, sem geta valdið því, að byggðarlögin og fyrirtækin geti bjargað sér sem mest sjálf, t.d. eins og með því að koma á öruggu vegasambandi á milli Norðurlands og Suðurlands. Þeirra háttur er miklu frekar hinn, og það þykir þeim miklu betra, að efna til hvers konar ríkisafskipta og ríkisfyrirgreiðslu, til þess að þeir geti farið um héruð og sagt, að þeir hafi gert einstökum mönnum greiða, og þakkað sjálfum sér það, eins og gert hefur verið af þessum hv. þm. í hans kjördæmi, eins og það komi úr hans eigin vasa, þó að það hafi verið keyptir nokkrir skuttogarar til þess kjördæmis, sem hann situr í. En eins og við vitum er það fjármagn, sem þar er um að ræða, auðvitað fjármagn allrar þjóðarinnar. Þessi sami háttur og þessi sama tíska hefur einnig mjög einkennt Framsfl., og við kynntumst því einnig í fyrri valdatíð hans, að þannig hefur þetta verið, að á hak við hin auknu ríkisafskipti er m.a. þessi löngun og þessi þrá að geta með þeim hætti haft afskipti af sem flestu.

Ég sá, herra forseti, nauðsyn til þess að segja nokkur orð í tilefni af hinni undarlegu ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég vona, að það eigi eftir að sýna sig í meðferð vegalaganna, í meðferð þingsins á þeim, að aðrir hv. þm. líta ekki þannig á málið og skilji þá miklu nauðsyn, sem er á því að tengja Akureyri, þann byggðakjarna, sem er sterkasta mótvægið við Stór-Reykjavíkursvæðið, með sem bestum hætti samgöngulega séð, og það verður ekki gert skjótar né betur með öðrum hætti en þeim að gera þegar í stað ráðstafanir til sérstakrar fjármagnsöflunar í því skyni að ljúka Norðurlandsveginum sem fyrst. Ég tel, að í því efni sé nauðsynlegt að setja sér sérstakt tímamark, þannig að fyrir liggi þegar á þessu þingi, hvenær þeirri vegagerð á að ljúka.