03.05.1974
Neðri deild: 119. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (3768)

337. mál, jafnvægi í efnahagsmálum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þegar ég hlýddi á þessa ræðu hv. 7. þm. Reykv., kom mér í hug hið fornkveðna: Lengi skal manninn reyna. — Ég hef átt við hann einkaviðtöl, trúnaðarviðtöl um þetta mál æðioft. Hann hefur haft aðstöðu til að fylgjast með málinu, og mér skildist hann segja það a.m.k. í útvarpinu, — ég gat ekki hlýtt á alla ræðu hans núna og skal ekki segja um það, hvort hann endurtók það þar, — að þar sem hann hefði getað fylgst með þessu svona vel, þá væri hann alveg viðbúinn og tilbúinn með afstöðuna og hann og hans þing flokkur mundi þegar við 1. umr. greiða atkv. gegn þessu frv. Honum hefur láðst að geta þessa við mig í trúnaðarsamtölum þeim, sem ég hef átt við hann. Ég vil ekki í þingsölum nota það heiti, sem á við um þessi vinnubrögð. (Gripið fram í: Hann vissi það ekki fyrr en í gærkvöld.) Nei, af því að hann er svo snöggur í skoðanaskiptum. (GÞG: Þetta var ákveðið í gær.) Já, já, ég trúi því. Sumir þurfa ekki langan tíma til að taka ákvarðanir, þótt um alvarleg mál sé að ræða. Þó að jafnvel um alvarlegustu mál þjóðarinnar sé að tefla, þá þurfa þeir ekki nema nokkra klukkutíma til þess að hugsa sig um og komast að niðurstöðu.

Hv. þm. talaði allmikið í ræðu sinni um einsdæmi. Það er best að tala svolítið meira um þau. Ég ætla fyrst að segja það, að ég man nú held ég ekki eftir því þau ár, sem ég hef verið á þingi, að það hafi komið fyrir, að mál hafi verið fellt við 1. umr. Þeir starfshættir hafa ekki tíðkast á Alþ., að ég held, um áratuga skeið. Þm. hafa talið það sjálfsagða skyldu sína að taka þau mál, sem lögð eru fram, hvort heldur af ríkisstj. eða stjórnarandstöðu, til athugunar við 2, umr. og skoða þau í n. á milli umr. En þetta mál, sem hér er um að tefla, er ekki þess virði að dómi hv. 7. þm. Reykv., og skorti þó ekki á, að hann lýsti ástandinu með alvarlegum orðum og hann lýsti því, hver nauðsyn væri á því að fást við þann efnahagsvanda, sem barið hefur að dyrum hjá okkur í svipinn. En veðurfar er svipult hér á landi, og sveiflur í efnahagsmálum eru líka stundum nokkuð fljótar að ganga yfir. Allir útreikningar eru byggðir á spám. Spár geta brugðist, þær geta breyst til hins betra. Þá er vel. Auðvitað geta þær líka brugðist til hins verra, og þá er að taka því. En hv. þm. varð tíðrætt um einsdæmi. Hann taldi það einsdæmi, að stjfrv. væri lagt fram með þeim hætti, að stjórnarflokkar eða. jafnvel einstakir ráðherrar áskildu sér rétt til þess að hafa óbundnar hendur um einstök atriði. Þetta er rangt, hv. þm. Þess eru mörg dæmi. Það hefur skeð í tíð núv, stjórnar. Ég minni t.d. aðeins á bankamálafrv. En það sem meira er og hv. 7, þm. Reykv. hefði ekki átt að gleyma, það skeði líka, en með öðrum hætti þó, í tíð fyrrv. stjórnar. Þar skeði sá undarlegi og einkennilegi atburður, að einn af ráðh. í þeirri ríkisstj. varð til þess í hv. Ed, á sinni tíð að drepa stjfrv, um verðlagsmál. (GÞG: Það er best, að ég segi þá sögu á eftir.) Já, ég ætla aðeins að rifja hana upp áður. Hann gerði það, og það var óvenjulegur atburður. (Gripið fram í.) Já, já, já, já, það sést nú betur síðar. (GÞG: Ég skal segja þér þetta á eftir, þetta er löng saga dálítið.) Sagan er dálítið löng. Það er rétt. Það frv. dó með atkv. eins ráðh. (Gripið fram í.) Það ætti nú ekki að þurfa til, þegar jafnsterkur maður eins og hv. 7. þm. Reykv, beitir sér af þvílíku afli sem hann gerir á móti frv. En þá kom fram skýringin á því, hvers vegna hv. ráðh. Eggert G. Þorsteinsson greiddi atkv. gegn stjfrv, Hann hafði nefnilega á ríkisstjórnarfundi gert ágreining og gert fyrirvara og lýst því þar skýrt og skorinort, að hann mundi ekki fylgja þessa frv. (GÞG. Þetta er rétt.) Já, þetta er rétt. Þá þarf hv. þm. ekki að segja söguna á eftir. Og ég þarf að bæta svolitlu við. Sá er munurinn á þessu dæmi og því, sem nú er, að það var ekki nú farið neitt leynt með, að það var ágreiningur í stjórninni um einstök atriði. Það var sagt frá því. En hinu átti að leyna, það átti að þegja um það og láta það aldrei koma fram, ef það hefði lukkast að koma málinu í gegn. Það lukkaðist ekki, og þá þurfti að fara að grípa til skýringanna, og þá varð hv. 7. þm. Reykv, að fara að vitna og segja frá þessu, sem átti að þegja um. En upp komast svik um síðir.

Nei, hv. 7. þm. Reykv, ætti ekki að tala um nein einsdæmi í þessu sambandi. Hann segir það og viðurkennir réttilega eins og aðrir, sem hér hafa talað, að það sé brýn þörf á efnahagsaðgerðum. En hvorki hann né hv. 5. þm. Reykv. nefndi, svo að ég heyrði, eitt einasta úrræði, eina einustu till. til lausnar á þessum vanda. Þó lýsti ég því yfir í framsöguræðu minni, að ég ætlaði að taka upp viðræður við forustumenn stjórnmálaflokkanna um þetta frv. og væri reiðubúinn til þess að taka til greina hvers konar ábendingar, hvers konar breytingar, taka þær til athugunar og athuga um það, hvort það væri ekki hægt að ná þeirri víðtæku samstöðu um þetta mál á þinginu, sem nauðsyn ber til. Ég lýsti því t.d. alveg sérstaklega og tók það fram varðandi 7. gr., að ég væri alveg reiðubúinn, ef mönnum sýndist það hér að athuguðu máli, að strika hana út. Það er alveg rétt, sem komið hefur fram, að þó að hún sé réttlætismál, þá er hún erfið í framkvæmd og e.t.v. og áreiðanlega eru til aðrar leiðir en þær, sem bent er á í 7. gr., til þess að ná í þann rangláta feng, sem sumir menn hafa áskilið sér í þessum kjarasamningum. Og hvers vegna ekki að leita að slíkum leiðum frekar en bara slá því föstu að vera alveg á móti?

Vitaskuld er þessu einnig svo háttað um önnur atriði frv. Ég er til viðræðu um annað fyrirkomulag á vísitölubindingunni, og það má með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í þessu frv. varðandi vísitöluna ná svipuðum eða sama árangri, sem ég í viðræðum væri reiðubúinn til að benda á, ef aðrir kynnu ekki að hafa komið auga á það og gætu gert þær að sínum till. Og það hefur verið tekið fram með skyldusparnaðinn, að ég og aðrir stjórnarmenn erum til viðræðum um breytingar á honum í ýmsar áttir, jafnvel að fella hann alveg niður, láta hann falla niður. Þetta er ekki svo stór upphæð fyrir ríkissjóð í bili, að það muni hann afar miklu. En það er samt með honum mörkuð stefna, — stefna í átt, sem er heilbrigð að mínum dómi. Það er sannarlega ekki farið illa með þessa tekjuskattskyldu menn, sem eiga að leggja þennan spariskilding fyrir. Þeir fá hann endurgreiddan eftir 2–5 ár með 5% vöxtum og verðtryggingu og geta jafnvel, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, fengið hann áður útgreiddan.

Auðvitað gegnir alveg sama máli um önnur atriði í þessu frv., að við erum til viðræðu um þau hvert og eitt, viljum athuga þau, skoða þau, hlusta á ábendingar um þau, og það er sú þinglega meðferð, sem á að viðhafa og er skylt að viðhafa samkv. þeim venjum, sem hér hefur verið fylgt í áratugi, að skoða þannig mál. ekki síst þetta alvarlega mál, sem þjóðin öll fylgist áreiðanlega með, sumir sjálfsagt óánægðir með ýmis atriði í frv., aðrir miður ánægðir, en einhverjir kannske mjög ánægðir. Það geta verið mismunandi sjónarmið, sem þarna ráða, og það er ekki hægt að taka tillit til þess. Það verður að taka það, sem skynsamlegast er og þjóðarheildinni er fyrir bestu og þjóðarnauðsyn krefur. Og til þess er Alþ. að skoða einmitt slík mál og ráða fram úr þeim.

Hv. þm. talaði um forustuleysi mitt sem forsrh., og ekki hef ég neina tilhneigingu til þess að gera mikið úr mér í þeim efnum. En það er þó svo, að einhvers konar forustu hef ég þó sýnt í þessu máli með því að leggja fyrir þingið till. um þetta efni, — till., sem kannske eru ekki aðgengilegar fyrir þingið. Það er þess að athuga og segja til um það. En till. eru það samt, — till., sem maður skyldi halda, að þingið vildi skoða og athuga gaumgæfilega og þeir vísu menn, sem ekki vilja á þær fallast, vildu henda á einhver úrræði, í stað þess að loka munninum og segja: Nei, ég segi ekki neitt, fyrr en ég fæ stól, fyrr en ég fæ tiltekinn stól. — Það er skilyrðið. Það er skilyrðið til þess, að þeir taki á málum.

En þó að mín forusta sé laus í böndum og skorti á festu, þá er það sjálfsagt gæfa þessarar þjóðar að eiga til mann, sem ekki skortir festuna og er tilbúinn að taka við, ef stjórnin skyldi nú fara frá. Það væri gaman að rifja það upp, hve oft hv. 7. þm. Reykv. hefur spáð ríkisstj. dauða. Mikið lifandi skelfing væri hún búin að deyja oft og lifna við aftur, ef þeir spádómar hefðu ræst. En hún lifir nú enn, og kannske á þessi síðasta ræða hv. 7. þm. Reykv, eftir að verða til þess að lengja lífdaga þessarar stjórnar eitthvað enn þá. Það gæti svo farið. Það er stundum betra að tala minna og tala gætilegar. (Gripið fram í: Á það ekki við alla?) Það á að sjálfsögðu við alla, og geta sjálfsagt margir dregið lærdóm af því, bæði talað gætilegar og lægra. En þegar tekið er tillit til þeirra yfirlýsinga, sem ég gaf einmitt við framlagningu þessa frv. um það, að ég væri reiðubúinn til þess að athuga hvers konar breytingar, sem fram kynnu að koma, þá er það augljóst mál, hversu fráleitt það er að ætla að fara að túlka það, að í því fælist eitthvert vantraust á stjórninni, ef þetta frv. væri fellt. Stjórnin hefur ekki gert og hefur aldrei dottið í hug að gera þetta frv. eða samþykkt þess að fráfararatriði. (Gripið fram í: Bara situr áfram?) Já, hún situr sennilega áfram, þrátt fyrir allar hrakspár hv. 7. þm. Reykv. (Gripið fram í: Er þetta þingræðisstjórn?) Já, þetta er þingræðisstjórn. Það leyfi ég mér að fullyrða. Ég þekki ekki mismunandi gráður af þingræðisstjórn, en ég þekki þá þingræðisreglu eina, að stjórn er ekki skylt að víkja nema fyrir vantrausti, og það veit ég, að hv. þm. Benedikt Gröndal þekkir vel. (BGr: Hvar stendur sú regla?) Hún stendur hvergi, vegna þess að þingræðisreglan er ekki lögfest í okkar stjórnarskrá beinlínis, en hún er byggð á venju, rótfastri venju, sem fyrsti ráðherrann á Íslandi innleiddi, Hannes Hafstein. (GÞG: Veit ekki prófessorinn um sína eigin kennslubók? Er hann búinn að gleyma henni?) Það getur vel verið, að ég hafi gleymt einhverju í henni, en þetta er atriði, sem hver einasti laganemi þekkir og veit, þó að hann hafi ekki lesið alla mína kennslubók.

Þá er það ekki rétt, sem hv. þm, hélt fram, að það hefði ekkert samráð eða samstarf verið haft við aðila vinnumarkaðarins um þetta mál. Hann veit miklu betur. Hann veit það, að hagrannsóknastjóri hefur farið á ráðstefnufund Alþýðusambandsins og skýrt þessi mál. Hann veit, að hagrannsóknastjóri hefur látið þeim aðilum, sem þar eru í fyrirsvari, í té hvers konar skýrslur um þetta efni. Hann veit, að ég hef talað við tiltekna forustumenn Alþýðusambandsins. Hann veit, eins og ég skýrði frá, að það hefði verið kosin sérstök ráðherranefnd til þess að eiga viðræðir við forustumenn launþegasamtaka, og ég lýsti yfir skýrt í dag, að þeim viðræðum ætti að halda áfram.

Það var líka rangt hjá hv. þm., að það hefði ekkert samráð eða samstarf verið haft við vinnuveitendur. Ég hef sjálfur annast það samstarf, og ég bið hv. þm. að koma með vottorð frá vinnuveitendum um það, að ég hafi ekki haft samband við þá um þessi efni.

Nei, það var rauður þráður í ræðu hv. 7, þm. Reykv. Sá rauði þráður var, eins og í öllum hans ræðum, því að hann er orðinn eins og Kató hinn gamli, að hann bæði byrjar og endar allar sínar ræður á sömu setningunni. Kató lagði alltaf til, að Karþagóborg yrði eydd, en hv. 7. þm. Reykv, talar um það í upphafi máls síns, í miðju máls síns og í lok máls síns, að hvað sem öðru líður, þá sé stjórnin sprungin, og hann sagði þetta með svo miklum sannfæringarkrafti síðast, að honum hló hugur í brjósti.

Ég ætla nú alls ekki að fara að eltast við þá miklu röksemdafærslu, sem hann var með um viðskilnað fyrri ríkisstj., og þá sönnun, sem hann sagðist ætla að færa fram í eitt skipti fyrir öll, svo að það þyrfti aldrei aftur að gera það, hvernig málin hefðu þá staðið. Ætli hv. þm. sé farið eitthvað að óra fyrir því, að hann hafi kannske tækifæri til þess að koma þeirri sönnun hér á framfæri í framtíðinni? En eitthvað fannst mér nú bogið við ýmsar þær röksemdir, sem hann var með, og ýmislegt fannst mér vanta í þá lýsingu. T.d. þegar hann var að lýsa hækkun fjárl. í tíð núv. stjórnar, þá hefði ekkert sakað; að hann hefði líka minnt á það, að í tíð viðreisnarstjórnarinnar tólffölduðust fjárl., ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Hann leiðréttir það þá á eftir. (Gripið fram í: Á hve mörgum árum? Hvað lifði hún lengi?) Hún lifði a.m.k. of lengi, það er óhætt að segja. Og þessi stjórn, ef henni auðnast að lifa eins lengi og hún yrði eins athafnasöm á þeim árum, sem eftir eru, og hún hefur verið á þeim tæpum þremur árum, sem hún hefur starfað, þá yrði hennar lengi minnst með eftirsjá.

Það er kannske rétt að líta á ýmis atriði önnur en fjárl. Ég hugsa, að fólkið úti á landsbyggðinni vilji allt eins hugsa um það, að bæst hafa um 50 togarar á þá staði, sem þar eru. Ég hugsa, að það vilji allt eins hugsa um þá endurbyggingu, sem átt hefur sér stað í frystihúsunum. Ég hygg, að það vilji allt eins hugleiða þá atvinnu, sem þar er nú, þar sem atvinnan er í rauninni komin á mörgum stöðum í það horf, fiskiðnaðaratvinnan, að þar er um hreinan verksmiðjurekstur, öruggan verksmiðjurekstur nánast að ræða, þar sem fólkið getur gegnið að atvinnu, öruggri alveg. Ég hugsa, að þetta fólk hugsi meira um þessi atriði en jafnvel hækkun fjárl. Og auðvitað gildir það um allar framkvæmdir, að þær verða ekki gerðar fyrir ekki neitt. Auðvitað hafa skólarnir, sem hafa verið byggðir, kostað eitthvað. Auðvitað hafa vegirnir kostað eitthvað, sem hafa verið lagðir o.s.frv., o.s.frv. (Gripið fram í.) Já, hann gleymdi alveg að geta um það, sem ekki var gert í tíð fyrrv. stjórnar, viðreisnarstjórnarinnar. Það var ekki von, að hann færi að tíunda það, enda hefði það verið langur listi, ef hann hefði átt að telja upp allar vanrækslusyndirnar.

Það er til of mikils ætlast af hv. þm. Það er afskaplega skiljanlegt, að lítill bátur, að dorga leiti skjóls hjá stórskipi og hv. 7. þm. Reykv. langi að komast í það skjól, sem hann áður naut af Sjálfstfl. En það verð ég að segja, að mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn, ef þessi maður má ekki fara með í þingsölunum það orð; sem er notað um skipstjóra á litlum skipum, — ætlar að fara að taka að sér stjórn á freigátunni. En ég hef átt viðræður, einkaviðræður, trúnaðarviðræður við forustumenn Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson. Og mér mundi koma það ákaflega á óvart eftir þær viðræður, ef þeir ætluðu að hafa sömu afstöðu til þessa máls og hv. 7. þm. Reykv, og flokkur hans, ef þeir ætluðu að neita þessu máli um það að fá þinglega meðferð, ef þeir ætluðu að neita því að fara til 2, umr, og n. og leggja stein í götu þess, að stjóramálamennirnir yfirleitt gætu komið saman og rætt þessi mál og athugað leiðir í þeim. Ég verð því að beina þeirri alveg ákveðnu spurningu til hv. formanns þingflokks Sjálfstfl., Gunnars Thoroddsens, hvort það sé meining Sjálfstfl. að viðhafa hér líka þá óþinglegu aðferð, sem hv. 7, þm. Reykv, leggja til, hvort Sjálfstfl., stærsti flokkurinn á Alþ., ætli að taka þátt í þeim leik. Það er áreiðanlegt, að eftir því verður tekið af þjóðinni, ef þannig er orðið ástandið á Alþ., að hann telur sig ekki geta rætt við aðra þingflokka um leiðir til úrlausnar aðsteðjandi vanda. Um hitt er enginn að tala og til hins er enginn að gera kröfu, að þeir verði með málinu eftir 2. umr., eftir að það hefur verið skoðað. Það eru eðlileg vinnubrögð og verður að ráðast, hvort nokkur samstaða getur um það náðst eða ekki. En að vísa því á bug athugunarlaust, það er einsdæmi.****

Ég óska þess að fá skýrar yfirlýsingar hv. þm. Gunnars Thoroddsens um þetta. Mér finnst, að ég eigi rétt til þess eftir þau einkasamtöl, sem ég hef átt við forustumenn Sjálfstfl. Ég er því vanur í viðskiptum við flesta menn, að orð skulu standa. Ég ætlast ekki til þess, að hv. þm. gefi þá yfirlýsingu nú. Ég gef honum og tel sjálfsagt, að hann fái alveg nægilegt ráðrúm til þess að ráðfæra sig við flokk sinn um það, hverja aðferð hann ætlar að hafa í þessu máli, og það liggi alveg ljóst fyrir, hvort sem hann kýs að lýsa því hér yfir á Alþ., sem ég tel æskilegast, eða gera það í einkasamtali við mig.

Það er hygginna manna háttur að haga máli sínu þannig að draga fyrst saman forsendurnar og síðan, þegar þeir hafa rakið þær, að komast að niðurstöðu. Hv. 7. þm. Reykv. fór þveröfugt að. Hann byrjaði á því að kveða upp dóminn. En forsendurnar, ef einhverjar voru, komu þá á eftir. Batnandi manni er best að lifa, og ég vil óska þess hv. 7. þm. Reykv. til handa, að hann megi sofa vel í nótt og hann megi hafa góða drauma og e.t.v. megi honum þá vitrast einhver ný viðhorf í þessu máli, og vegna reynslunnar veit ég, að hann þarf ekki nema stuttan tíma til þess að öðlast nýja skoðun og stefnu í málinu.