03.05.1974
Neðri deild: 119. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4210 í B-deild Alþingistíðinda. (3769)

337. mál, jafnvægi í efnahagsmálum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að hæstv. forseti hafði tjáð mér, að meiningin væri að fresta þessari umr. nú. Það er auðséð, að ræða mín og stefna þingflokks Alþfl. hefur haft þau áhrif á hæstv. forsrh. og þá væntanlega ríkisstj., að hann vill ekki, að umr. um málið sé haldið áfram. Hann þorir ekki að láta umr. málsins halda áfram í kvöld og atkv. ganga um málið. Ég skal ekki ræða efni þess frekar, fyrst umr. á að fresta, þó að mér þyki það mjög miður, því að ég hef mörgu að andmæla í ræðu hæstv. forsrh. M.a. get ég nefnt tvö dæmi um það, að hann fór beinlínis með rangt mál, þegar hann þekkti ekki dæmi þess, að frv. hafi verið fellt við 1. umr. Ég hef hér tvenn Alþingistíðindi, þar sem eru dæmi um það, og nú skal það koma, sem var meginerindi mitt í stólinn og er aðeins tvær setningar:

Ég vek athygli þings og þjóðar á því, að forsrh. Íslands sagði í ræðu sinni hér áðan, að þótt þetta frv., sem hér er um að ræða, sem er frv. um meginstefnu í meginmáli íslensku þjóðarinnar í dag, efnahagsvandanum, — forsrh. Íslands sagði, að þótt þetta frv. félli, mundi ríkisstj. ekki segja af sér, hún mundi sitja. Ég fullyrði, að það er engin hliðstæða slíks í þingsögu nálægra lýðræðisríkja, að ríkisstj. sitji, ef frv. um meginstefnumál fellur. Þetta er brot á öllum eðlilegum og venjulegum og heiðarlegum þingræðisreglum.