06.05.1974
Efri deild: 117. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3785)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál óskaði hv. 5. þm. Reykn. eftir ákveðnum upplýsingum um upphæð útflutningsgjalda á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum. Hann ítrekaði þetta við 2. umr. Eins og ég sagði þá, mun þessari spurningu hafa verið vísað til hæstv. ráðherra, og ég baðst afsökunar á því, að n. hafði ekki athugað að afla sér þessara upplýsinga. Ég hef ekki enn fengið upplýsingar um heildarupphæð á síðasta ári. En þær upplýsingar hef ég fengið, að útflutningsgjaldið nam 3 400 kr. á tonn og að viðbættu því 2.07% af fob.- verðmæti útfluttra, niðurlagðra sjávarafurða. Það er nú reyndar verið að reyna að útvega nánari upplýsingar um það, hvað þetta er mikið í heild, en því miður hef ég ekki meira á þessu stigi. Það er von mín, að þm. geti að svo komnu máli látið sér nægja þessar upplýsingar.