06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3797)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þar sem nú liggur ljóst fyrir, að núv. ríkisstj. hefur ekki meiri hl., eftir að þeir þremenningarnir, hv. þm. Hannibal Valdimarsson, Karvel Pálmason og Benóný Arnórsson, hafa slitið stjórnarsamstarfi, mun ég án ástæðulausra tafa velja á milli þeirra tveggja kosta, sem eru fyrir hendi, annað hvort rjúfa þing og efna til kosninga eða segja af mér. Ég tel æskilegt, að þingfundir verði stuttir nú í dag og þingflokkar fái á eftir tækifæri til þess að koma saman og fjalla um þau viðhorf, sem skapast hafa eða eru fyrir hendi, eftir að stjórnarsamstarfinu hefur þannig verið slitið af hluta Samtakanna, sem að því stóðu í öndverðu.

Það liggur ljóst fyrir, hverjir það eru, sem slita þessu stjórnarsamstarfi, sem nú hefur staðið nær því um þriggja ára skeið. Þær ástæður, sem fram voru bornar af hv. 3. þm. Vestf., sem hafði orð fyrir þeim þremenningum hér áðan, eru hins vegar tylliástæður, eins og best verður séð af þeirri hófsamlegu bókun, sem hæstv. menntmrh. las hér upp áðan.

Ég hef aldrei farið í fjölmiðla með viðskipti innan ríkisstj. Ég hef aldrei borið þau á torg. Hins vegar gerðist það í eldhúsdagsumr., að hv. þm. Hannibal Valdimarsson flutti orðsendingu þar frá Birni Jónssyni. Það þótti mér heldur köld kveðja og gefa ranga hugmynd af því, sem raunverulega hafði gerst. (HV: Kveðjan var komin.) Hvar var hún á undan komin? Það er alveg rétt, að það höfðu fleiri en hann að vísu sent kveðju á elleftu stundu eða orðsendingu. Á hv. þm. við það, þá kveðju, sem var frá honum og öðrum þm. til viðbótar? Hún er bókuð. Ég taldi þess vegna rétt að víkja aðeins að þessu í framsöguræðu fyrir því frv. um efnahagsmálin, sem fyrir liggur. Það taldi ég mig gera á hófsamlegan hátt. Ég tók þar fram, sem ekki verður vefengt, að það frv. er stjfrv. Það er stjfrv. samþ. af 6 ráðh. Það getur enginn haldið því fram, að neinn ráðh. einn eða jafnvel minni hl. ráðh. hafi eitthvert neitunarvald og geti hindrað það, að frv., sem meiri hl. stjórnar stendur að, sé flutt sem stjfrv. En sá ráðh., sem í minnihl. er, getur gert sína fyrirvara og sínar bókanir. Og í þessu stjfrv. er tekið fram í grg., að einstakir stjórnarflokkar hafi óbundnar hendur um einstök atriði þess. Auðvitað tekur það einnig til ráðh. sem annarra stjórnarþm. Hins sama lét ég getið mjög skýrt í framsögu. En þessa fyrirvara taldi Björn Jónsson ekki fullnægjandi, sem ég hygg, að flestir mundu þó undir svipuðum kringumstæðum hafa látið sér nægja. Þá benti ég á þá augljósu staðreynd, að ef hann vildi frekar en gert var með slíkum fyrirvara og fyrirvörum firra sig ábyrgð, þá hefði hann ekki nema eitt úrræði.

Það er ekki heldur frá mér komið í fréttamiðla, heldur mælti ég þau orð á Alþ. og engar skýringar frá mér komnar í fréttamiðlum. En Björn Jónsson hefur dregið sínar ályktanir af þessu. Hann hefur beðist lausnar, sjálfsagt af því að hann vill ekki á nokkurn hátt láta bendla nafn sitt við þetta frv.

Ég ætla ekkert að fara að ræða um vinnubrögðin í ríkisstj. varðandi þetta frv. Ég ætla ekki að vera fyrstur til þess. En úr því að hann tók þessa ákvörðun, þá er ekkert við því að segja. Hann hefur þar með tekið hreina og út af fyrir sig drengilega ákvörðun um það, að hann vill þarna hvergi nærri koma. Hvað sem líður fyrri afskiptum hans af málinu, þá liggur það ljóst fyrir, eftir að hann hefur beðist lausnar og lausnarbeiðni hans hefur nú verið tekin til greina og honum hefur verið veitt lausn. En það er auðvitað svo, að það skilur hver maður, að enginn maður getur verið hvort tveggja í senn, ráðh. og forseti Alþýðusambandsins. Þegar maður er og verður ráðh., þá er hann ekki lengur forseti Alþýðusambandsins. Þetta veit ég, að hv. 3. þm. Vestf. skilur manna best. Og meðan menn eru í ráðherraembætti, verða þeir að taka ákvarðanir sínar út frá því.

Ég vil svo þakka Birni Jónssyni fyrir samstarfið, á meðan það stóð, og óska honum alls góðs og óska honum góðs bata í sínum erfiða sjúkdómi.

En raunverulega ástæðan til þessara slíta á stjórnarsamstarfi er auðvitað öll önnur, eins og allur þingheimur veit, eins og alþjóð veit. Raunverulega ástæðan er sameiningardraumurinn mikli, Alþýðuflokksins og þessa brots Samtakanna. Sá draumur hefur lengi staðið. Hann hefur staðið frá því að þetta stjórnarsamstarf hófst. Ég vil ekki segja, að hann hafi staðið í vegi fyrir á margan hátt ánægjulegu stjórnarsamstarfi. En hann hefur verið til og búið um sig í brjóstum þeirra, sem að honum stóðu, og þá hefur langað til þess að koma honum í framkvæmd sem fyrst. En þröskuldur hefur verið í veginum. Annar parturinn hefur verið inni og hinn hefur verið úti. Viðfangsefnið hefur verið nokkuð lengi það að nema í burtu þennan þröskuld og það er hin raunverulega ástæða til þess, hvað sem hver segir, að nú er núverandi stjórnarsamstarf rofið af þessum aðilum, sem fyrir því standa, að nú er þessi þröskuldur numinn á brott, og nú geta þeir sameinast í bandi friðarins. Og það verð ég að segja, að ég óska þeim hjartanlega til hamingju með það, vona, að sameiningin geti tekist sem fyrst. (BGuðn: Við óskum Gylfa til hamingju.) Báðum, báðum til hamingju, þannig að hinn nýi og endurbætti jafnaðarmannaflokkur geti sem fyrst risið á legg og orðið athafnamikill í íslenskri pólitík.

Ég verð að segja það að leiðarlokum, að þó að enginn sé hlutlaus, þegar hann dæmir um eigin verk, þá er mér að sjálfsögðu eftirsjá að þessari stjórn að ýmsu leyti. Ég tel, að hún hafi ýmsu góðu til leiðar komið, e.t.v. verði munað eftir henni um skeið, og við höfum allir, sem í henni höfum starfað, átt okkar góða þátt í því. Og ég á margar ánægjulegar endurminningar um samstarfið við þá menn, sem ég hef starfað með í stjórninni. Ég er nú ekki að segja, að það hafi alltaf verið dans á rósum, og ég er ekki að segja, að það hafi ekki einstaka sinnum reynt svolítið á langlundargeð þess, sem átti að hafa forustuna í því stjórnarsamstarfi. En e.t.v. hefur það verið óheillaspor, þrátt fyrir allt, þó að Björn Jónsson sé hinn mætasti maður, að hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, skyldi nokkurn tíma yfirgefa ráðherrastólinn, því að hvað sem um þá kempu má segja, þá er það alveg víst, að hann er maður, sem þorir, þorir að gera hlutina, hvort sem þeir eru vinsælir eða ekki, jafnvel stundum hvort sem þeir eru skynsamlegir eða ekki. Það heljarstökk, sem hann hefur tekið í dag, ber því ótvíræðast vitni.